Frozen

Orðið er svo langt síðan að ég man varla eftir því hvenær prinsessumynd frá Disney tókst síðast að skara fram úr öllum öðrum teiknimyndum á einu ári (meira að segja heilli Miyazaki-mynd! og þá hans síðustu) en Frozen sannar víst það að hægt er að fylgja stöðluðu formúlum músahússins og um leið snúa þeim aðeins á haus.

Heillandi saga, gullfalleg teikning og skemmtileg framvinda getur líka átt ofvirkan þátt í svona lofi, það og sú heppilega tilviljun að teiknimyndir ársins 2013 hafa lítið verið að komast í einhvern rosa gæðastandard. En sjálfvirkur sigur er þó betri en alls enginn.

Kannski er það bara ég, en mér finnst óhjákvæmilegt að horfa á Frozen án þess að bera hana pínu saman við Tangled, á jákvæðan máta. Báðar gera sér grein fyrir uppskriftinni og gera talsvert grín að henni. Þessi er að vísu ekki eins reglulega drepfyndin og Tangled var og fyrir minn ógreidda aur þótti mér lögin aðeins betri í henni, en skuggar Frozen eru dekkri, sjarminn betri og handritið snjallara. Síðan tölvudeild Disney tók við af handteiknaða stílnum hefur merkið komið sér upp á nýjar hæðir, og ef það heldur áfram að krukka svona í klassíska/dæmigerða forminu gæti það týnt yfir til sín allt til sín sem t.d. Pixar hefur misst síðustu tvö árin.

Frozen-2013-Movie-StillsÉg man nú ekki eftir neinni Disney-mynd sem fór ekki lauslega eftir uppruna sínum en hér er krúttsafanum hellt yfir Snædrottninguna eftir H.C. Andersen. Fullorðnir þurfa að leyfa sér að þola ákveðin þunnildi sem koma upp úr þessu, eins og alltaf, og að mínu mati stígur fáfróði snjókarlinn Olaf aðeins í veg fyrir það að sagan gæti orðið aðeins dimmari þegar boðið er upp á það (eins og myndin mætti tala aðeins ofar til áhorfenda sinna, en ekki eins og það komi á óvart).

„Comic relief“ fígúrur í þessum dúr eiga stundum til að vera meira óþolandi en fyndnir en Olaf er annars vegar yndi. Hann trompar aldrei kamelljónið Pascal sem einn af mínum uppáhalds, en hann er yndi og fær fyndnasta lagið í myndinni. Flest þeirra eru vel samin en auðgleymd en rétt inn á milli leynast nokkur frábær til að myndin tapi ekki sínum dampi. Þetta eru 90 mínútur sem líða án nokkurra leiðinda, og fegurðin í grafíkinni, sálin og húmorinn gerir megnið af þessum mínútum ákaflega ljúft.

Sterkur boðskapur fylgir auðvitað með (reyndar fleiri en einn) en nú með flottu tvisti sem stýrir skilaboðunum í aðeins öðruvísi hátt en kjarnahópurinn gæti haldið. Það virkar, nokkuð frábærlega. Eins með alla þessa mynd. Hún er svellkaldur æðibiti og ylur m.a.s. hjarta þeirra sem eru lítið fyrir það að sjá sömu prinsessumyndirnar aftur og aftur.

atta

PS. Þið sem getið, sjáið myndina á ensku. Ég hef ekki séð íslensku talsetninguna en reikna ekki með of vönduðum árangri eftir að einhverjir aular ákváðu að kalla myndina Frosinn… í óútskýranlegu karlkyni. Var það svona mikið að sleppa þessu eina n-i?

PPS. Alls ekki má rugla saman þessari Frozen-mynd við aðra samnefnda frá 2010, sem er reyndar líka geðveik!

Besta senan:
Íshöll verður til.

Sammála/ósammála?