The Secret Life of Walter Mitty (2013)

Þarna er komið fullkomið dæmi um hvernig er hægt að klippa saman frekar fína trailera úr afskaplega aumri, væminni og klúðurslega samsettri mynd. Um leið er þetta líka eitt besta nýlega dæmið um sýnishorn sem varð aðallega gott því það sýndi stóran part af því besta sem hægt var að sýna.

Kvikmyndatakan er meiriháttar, sprettirnir eru þónokkrir og betri ef teknir úr samhengi og Of Monsters and Men gerðu trailerana að ótrúlega glæsilegu highlight reel-i. Og öll myndin í sjálfu sér er ekkert mikið meira en nákvæmlega það. Hún er límd saman úr hressum og einlægum bútum en sem heild er hún loftlaus og alveg úti á þekju. Þau skipti eru óteljandi þar sem heppilegar tilviljanir koma og redda sögunni. Það er eins og einhver tólf ára menningarheftur krakki hafi verið fenginn til að klára handrit sem pabbi hans byrjaði á og ekki kunnað að hnýta þessa hnúta betur. Á jákvæðari nótunum fær litla Ísland loksins að halda sínu rétta nafni í stórri bíómynd og tveimur öðrum í kaupbæti. Sérstaklega vil ég hrósa Íslandi fyrir að standa sig prýðilega í hlutverki Grænlands. Veit ekki alveg með Afganistan…

13The Secret Life of Walter Mitty er mjög svo lauslega byggð á samnefndri örsögu og á lítið sem ekkert sameiginlegt með gömlu Danny Kaye-myndinni. Það eru góðar fréttir, því mín vegna mega „endurgerðir“ gjarnan oft prófa oftar eitthvað svona nýtt. En í svona fínar 40 mínútur er þessi mynd reyndar á mjög fínu róli, og Ben Stiller saltar nokkrum megafyndnum atriðum inn á milli, þ.á.m. stórkostlega dagdraumasenu þar sem Stretch Armstrong-dúkka flækist í miðjuna. En ekki löngu eftir að graðir Chile-búar eru farnir að slást um reiðhjól á Klakanum (sem er enn fyndnara en það hljómar!) er eins og myndin allt í einu fattar þá hversu áttavillt, þunn og innihaldslaus hún í rauninni er. Þræðir byrja að hnýtast og þremur klisjum eða kraftaverkareddingum síðar var ég tilfinningalega búinn að stimpla mig út. Það þýðir ekki fyrir Stiller að leggjast i svona villt og gúrme ferðalag og stytta sér síðan allar leiðir þegar kemur að tengipunktum. „Fílgúdd“ fiðringurinn kemur ekki alltaf bara ósjálfrátt, það þarf að vinna fyrir honum.

Stiller hefur alltaf verið áhugasamur og fjörugur leikstjóri og er orðinn meira en reyndur þjarkur í listinni að rugga sig öðruhvorum megin við „meh“ skalann. Walter Mitty er þroskasaga eins manns úr aumingja í ævintýragjarna manninn sem hann þráir að vera. Þessi umræddi aumingi tekur aldrei neina sénsa en speisar oft út í dagdrauma sem jaða við teiknimyndafarsa… og þeir geta verið dásamlegir. Trúverðugleikinn hverfur aftur á móti út um gluggann þegar lógík raunheimsins byrjar smátt og smátt að fylgja ótakmörkuðum fantasíureglum, oftast með ævintýralegum lukkulausnum. Fyrir mér gæti þess vegna öll myndin verið ímyndun, en það er kannski ekki alveg myndin sem Stiller sóttist eftir. Ferðalagið verður aldrei spennandi þegar svona auðvelt er að vera skítsama um allt, og eitthvað er rangt við það að vera sama um mynd sem segir mér að lífa lífinu og grípa mómentið.

Kristen Wiig er alltaf í miklu uppáhaldi hjá mér en hlutverk hennar er einslitt og beint eftir klisjubókinni, eins með alla aðra karaktera. Stiller gerir fína hluti fyrir framan kameruna en tök hans á stílnum færa honum betra lof. Sean Penn, Shirley McLane og Kathryn Hahn standa öll flöt en eru engu að síður afslöppuð og ánægjuleg og Adam Scott heldur áfram að gera nákvæmlega það sem hann er bestur í að gera… vera maðurinn með kýlanlegasta andlit í heimi, og skíthælafígúru til að bakka upp þá staðreynd. Heppilega vill annars svo til að Ólafur Darri stelur burt og gengur út með alla ræmuna eins og hún leggur sig (langi trailerinn sýnir allt með honum – því miður?). Ef það er satt sem menn segja að það séu ekki til nein smáhlutverk, bara smáir leikarar, þá sýnir stóri Darrinn hversu áreynslulaust hann fer með að vera nett góður á stuttum tíma. Gunnar Helgason aftur á móti er örugglega bara fyndinn á Íslandi með þennan standpínubrandara sinn.

Stiller er yfirleitt bestur (segjum það) þegar kemur að ákveðnum grill/aulahúmor með aðeins meiri en hann er kannski ekki rétti maðurinn í það að reyna að blanda einhverju svoleiðis saman við svona létta koddadramatík. Myndin er létt og saklaus, góð þess vegna fyrir suma en handritið er fyrir minn smekk of skelþunnt til að ná þessum sjarma til að verðskulda sjarmann sem hún sækist eftir. Skilaboðin eru mikilvæg, flutningurinn dúlló en gervirjóminn of mikill. Á tæknivinnslustigi verður Stiller stöðugt betri leikstjóri með árunum og þótt Walter Meh-ty geri enga hetju úr honum þá á mun kynningargildi hennar tryggja sér langt umtal á meðal fólks sem kann að bera rétt fram orðið Eyjafjallajökull.

fimm

Besta senan:
Darri fullur eða Stretch.

Sammála/ósammála?