The Wolf of Wall Street

Martin Scorsese er sannarlega einn mesti úlfur kvikmyndanna. Eftir að hafa átt ekkert annað en fyrirmyndarferil í meira en fjóra áratugi tekst honum enn að koma á óvart, sýna villtari hliðar en meira að segja þessar kunnuglegu eru alltaf þess virði. The Wolf of Wall Street fer rakleiðis á toppinn á meðal bestu og merkilegustu mynda sem hann hefur gert, og er í kaupbæti ein sú siðlausasta, fyndnasta og skemmtilegasta. Allt sem hún hafði að selja, það keypti ég.

Flóðgallaðar manneskjur með skepnulegar hvatir eru eins konar sérgrein hjá Scorsese, og hann þar að auki umturnaði að mörgu leyti glæpageiranum, sem betur leyfir honum að stela aðeins frá sjálfum sér. Það er svipaður taktur á þessari mynd og Goodfellas og Casino, svona nánast eins og þær gætu myndað magnaðan, þematískt tengdan þríleik. Góði munurinn á Wolf og þeim er annars vegar sá að hér er ætlast til þess að maður hlæi úr sér siðferðisvitið upprisunni og fallinu hjá þeim sem fjallað er um. Ekki síður hlær maður skömmustulega MEÐ svikaranum, verðbréfasalanum og fyrirtækjaeigandanum Jordan Belfort og klikkuðu kollegavinum hans, lífstíl þeirra, ábyrgðarleysi og óvilja til þess að halda sér of lengi edrú eða frá (staffa)orgíum.

15-outrageous-scenes-in-martin-scorseses-wolf-of-wall-street-we-cant-wait-to-see

Eldfimt handritið eftir Terence Winter (einn af mönnunum á bakvið The Sopranos og Boardwalk Empire) er byggt á eigin bók Belforts sem sögð er vera ofurhreinskilin og filterslaus, eins og mátti kannski reikna með. Winter hefur leyft sér að fylla aðeins í ýmsar eyður með listrænu leyfi en rammar þó fullkomlega inn harmleikinn og kexrugluðu kómíkina í þessu öllu. Efnið kemur þrælreynda þjarkinum sem Scorsese er lengra yfir strikið með peningagræðgi, eiturlyfjum og kynlífi en hann hefur nokkurn tímann komið að – en hann og allir aðrir sem unnu að henni eru í sínum trylltasta gír.

Rödd skynseminnar er ýtt stöðugt til hliðar, og líklegt þykir mér að það muni stuða fólk um ókomin ár, ekki síst vegna lengd myndarinnar sem blæs bókstaflega framan í mann of mikið af því góða. Saga Belforts býður aftur á móti ekki upp á annað enda brókarsjúkt mannkvikindi sem lét aldeilis eftir öllum sóðalegustu freistingum sem þrumuðu til hans. Dollaramerkin í augunum stýrðu metnaðinum, lífið breyttist í leikvöll og takmörk voru ósjáanleg. T.a.m andaði hann inn heilu kókaínfjöllunum til að koma sér í gang (oftast fyrir hádegi) og kokteilaði sig svo upp með alkohóli, róandi lyfjum, indverskum svefntöflum, morfíni svo lengi mætti telja upp.

TWOWS1

Peningarnir töluðu, réðu, keyptu Ameríska drauminn og Belfort var kominn í þá aðstöðu að geta snýtt sér með seðlum. Þegar ég geri ósjálfrátt tenginguna við frasann „Greed is good“ þá velti ég sömuleiðis fyrir hvort djammofurmennið Charlie Sheen upplifi einhver sóðaleg flassbökk þegar hann horfir á hana eða springur úr öfundsýki.

Scorsese dæmir aldrei karaktera sína heldur leyfir manni bara að fylgjast með þeim sem fordæma sig sjálfa. Myndin er um slæmt fólk en hvergi er feilnóta sem gerir hana slæma, óáhugaverða eða leiðinlega á neinn veg og þolir hún vel þessa þriggja klukkustunda lengd, sem hún slefar í án nokkurra erfiða, og mætti að mínu mati ekki vera mínútu styttri! Samtölin eru brill, allir fá eitthvað að gera, aðstæður magnast óborganlega og margar þeirra gerast ekki dýrmætari. Ég gæti sennilega talið upp einhverjar 20-30 senur sem allar komust í einhvers konar uppáhald hjá mér, bara fyrir það hvernig hún skemmtir, grípur og sjokkerar í sífelldum bunum og margoft á sama tíma. Seinast þegar ég skemmti mér svona sjúkt mikið yfir langri bíómynd var einmitt önnur sem þeir Leonardo DiCaprio og Jonah Hill léku báðir í.

DiCaprio hefur dafnað svakalega og öðlast hann alltaf meiri kraft undir væng Scorsese. Hann hefur nú samt verið í ágætum ham að undanförnu án hans og ég held að hann muni ekki stoppa fyrr en hann er orðinn sá allra virtasti og umtalaðasti í Hollywood (helst með gullstyttu á hillunni, jafnvel fleiri). Einna helst má dást að dugnaðarorkunni í honum fyrir það eitt að skjóta The Great Gatsby, Django og Wolf, þrjár risastórar myndir, hvora á eftir annarri með sama og engri pásu á milli. Betri varð hann svo með hverri og einni í þessari röð og týpurnar hafa allar verið ógleymanlegar.

Aldrei hefur hann samt verið sterkari eða eignað sér tökurammann betur, og yrði hátt stokkið ef honum tækist það. Belfort er toppurinn hans að sinni því hann gefur sig meira fram en fyrr, á lengri tímaramma og það besta sem hann hafði í t.d. Catch Me if you Can, The Aviator og (viti menn…) Gatsby hrúgast hér einhvern veginn í eina frammistöðu. Svindlarinn, auðkýfingurinn og þessi partíglaði (enginn heldur betri teiti en Leó á þessu bíóári. Enginn!). Með þessum leiksigri losar leikarinn út fleira en einni dýrategund í sér, oft í stórkostlega löngum senum. Mónólógunum má heldur ekki gleyma og þrátt fyrir að DiCaprio sé í nánast hverri einustu senu fellur enginn í skuggann á honum. Hann nýtur því mikils stuðnings frá öllum nálægt sér, eins mikið og hann styrkir sjálfur aukaleikaranna.

Standout-aðilar eru margir vegna þess að allir viðstaddir eru snillingar og þar sem þeir eiga að vera. Scorsese hefur valið grúppu þar sem hver og einn er eftirminnilegur. Ef það er satt að séu ekki til nein smáhlutverk, bara smáleikarar, þá tekur leikstjórinn þessa fullyrðingu í nefið. Margot Robbie (tvífari Jaime Pressly – bara heitari!)  stendur að vísu svolítið upp úr, að því algjörlega utanskyldu að þetta er einn kynþokkafyllsti kvenmaður sem hefur stillt sér upp á móti aðalleikaranum; tælandi og óútreiknanleg. Ég hef lítið séð þessa leikkonu áður, veit ekkert hvaðan hún kom (reyndar Ástralíu, en ókei…) en hún kemur ferlinum á loft með því að sýna hver ræður. Jonah Hill hækkar annars hvað mest í áliti og tekur aukasnúning á „fyndna gæjann“ sinn. Hann er ótrúlegur, kominn er smá Joe Pesci í hann. Ég hélt að hann gæti heldur ekki djammað harðar á kameru eftir Get Him to the Greek. Mér skjátlaðist. Og þessar tennur…

Það eru fullar fötur af öðru liði sem myndin væri talsvert minna án. Matthew McConaughey fær ekki nema einhverjar þrjú atriði rétt í byrjun en eitt gríðarlega stórt sem hann brillerar í og gefur stakur tóninn fyrir hugarfarið sem er í vændum. Svo eru Kyle Chandler, Jean Dujardin, John Bernthal, P.J. Byrne, Joanna Lumley og leikstjórarnir Rob Reiner, Jon Favreau og Spike Jonze. Það vita ekkert allir hvaða fólk þetta er en það skiptir heildinni máli þar sem liðið kjaftar verulega mikið saman.

Myndir eins og The Wolf of Wall Street verða til þegar alvörugefnir en líflegir meistarar koma sér saman til að ganga eins langt og þeir komast upp með og sýna suma hluti eins og þeir voru og eru, þrátt fyrir vissar ýkjur sem koma út sem agressívir áherslupunktar. Lengi verður talað um þessa mynd, og hún á það skilið, hvort sem smekksmenn (m.ö.o. kvikmyndafólk sem fílar Scorsese) eða siðleysingjar lofa henni hátt eða aðrir hrista hausinn og glugga á úrið á meðan kærleikurinn skolast yfir. Líta má á þetta sem móralslausa skilaboðasögu og gargandi snilld sem slíka. Hún er betri en flestar glæpamyndir síðustu áraraða og ein best heppnaða óbeina gamanmynd sem má finna þarna úti. Mynd ársins 2013!

ficht

Besta senan:
Á bátnum með óvininum eða Ferrari-inn.

3 athugasemdir við “The Wolf of Wall Street

  1. algjörlega sammála.. Þessi mynd sló út Gravity fyrir mér.. þótt hún hafi verið miklu meira sjónarspil í raun og veru.. Þessi mynd fær fullt hús stiga hjá mér og Di Caprio hefur aldrei nokkurn tíman verið betri! Jonah Hill að eiga aalgjöran stórleik einnig. Maður á eftir að sjá hvernig Ben Stiller fer með hlutverk Walter Mitty til að geta nefnt óskarsverðlaunakandídata.. En Di Caprio á loksins skilið að rústa þessum óskari, og Jonah Hill á að taka aukahlutverið með stæl.

  2. Í samanburði við Stiller get ég sérdeilis lofað þér að DiCaprio tekur hann alveg í nefið. Mér þykir Walter Mitty engan veginn eiga heima í sömu umræðu og úlfurinn, og get ég varla trúað að aðrir en íslendingar tali um hana á Óskarsnótum, og kannski þeir sem hafa ekki séð hana.

    En klárlega sammála. Leó verður að eignast þessa styttu. Jonah kannski líka.

Sammála/ósammála?