Walking with Dinosaurs (3D)

Risaeðlur, rölt, þrívídd og… ekki mikið meira, bara þunnbeinótt saga tekin af lagernum, einhverjar raddar settar yfir og málið er síðan útdautt. Fín tilraun svosem hjá Fox og BBC Earth til að reyna að gera risaeðlur grípandi á ný í bíó en önnur og talsvert breiðari nálgun hefði alls ekki átt að útiloka. En ef fólki finnst Walking with Dinosaurs vera allt sem hún lofar, þá er samt ekki hægt að segja að hún lofi miklu til að byrja með. En gjör svo vel!

Handritið er rusl og erfitt er að festast í nokkru sem er á seiði því andinn er beint gíraður að yngstu hópum, og þar með strokast út mínar helstu líkur á notagildinu. En með meiri metnaði og tíma á bakvið blaðsíðurnar hefði í besta falli verið hægt að búa til myndina sem Dinosaur frá Disney, sem ENGINN man orðið eftir, hefði átt að vera. Nee, þetta snýst bara um sjónarspil og allt sem nær að halda athygli, helst af öllu með ágengum barnahúmor. Það gerðist hins vegar að ég hló yfir einu litlu atriði, en rétt eftir það hélt það áfram og krufði fyndna partinn til mergjar, vegna þess að í barnamyndum þarf að útskýra allt út og inn. Gaman gaman.

Hér var grjóthart og gott tækifæri til að gera fjölskyldumynd með visual frásögn, ekki barnapíu með flottum en oftast pirrandi screen-saver! Tjáningar eðlanna eru svo flott teiknuð að mátt hefði leyft skepnuskapnum aðeins að njóta sín í náttúruumhverfinu og ekki gera myndina eins og hún hafi verið döbbuð í flýti. Það er heilmikið „talað“ en varirnar hreyfast aldrei, þannig að ég geri ráð fyrir að eins konar hugarorka sé eitthvað notuð. Við heyrum bara í leikurum tala yfir flottri grafík og bæði verður að segjast að nálgunin sé undarlega óhefðbundin og brenglað löt.

Það að ramma söguna inn með stuttum læv-aksjón atriðum voru sömuleiðis stór, kjánaleg mistök, ÞÓ svo að Karl Urban eigi þarna ágætar tvær mínútur (á ensku, takk fyrir!) – og ekki hafði ég minnstu hugmynd um það fyrirfram að hann væri í henni! Markhópnum er hins vegar meira sama um Urban heldur en mér og það sem skiptir mestu er að Walking with Dinosaurs gengur fyrir guttahópana sem hún reynir að ná til. Alls ekki má búast við að neinn fullorðinn minnist nokkurn tímann á þessa mynd eftir mánuð eða svo. Eitthvað svipað kom fyrir Dinosaur á sínum tíma. Hún bara… dó.

fjarki
Besta senan:
Aðalpersónan kemur sér niður á svo lágt plan að hún byrjar andlega að sætta sig við hægan dauðdaga. Furðulega dökkur kafli miðað við rest.

Sammála/ósammála?