Bestu (og verstu) myndir 2013

Nýtt ár, nýr listi og enn heldur smámunasemin áfram.

Mér hefur aldrei fundist það meika neitt sens að setja saman topplista með bíómyndum ársins í fyrra ef maður er strangtrúaður í hobbíinu en vill heldur ekkert flækja hlutina of. Margir íslendingar nýta sér klassíska janúar-til-desember rammann en ég sé lítið gagn í því ef ég er ekki að skrifa fyrir blaðamiðil sem þarf að komast í prent fyrir áramót. Jánei, ég miða alltaf við framleiðsluár, aldrei við dreifingardaga á Íslandi (hvert annars ætti ég að setja The World’s End? fyrst hún kom aldrei „formlega“ í bíó á klakann), alltaf við framleiðsluár (því annars væri t.d. Django ein af bestu myndum 2013… sem hljómar bara rangt), og ef það eru einhverjar spes undantekningar þá edita ég þær inn eftirá, eða tek þær sérstaklega fram.

Ég reyni samt yfirleitt ekki að setja saman neinn lista fyrr en helstu titlarnir á mínum radar séu komnir. Nokkrir sluppu undan og enn sem komið er óséðir meðan listinn var gerður, eins og Nebraska og Short Term 12. Eins og þetta er raðað eru tuttugu titlar í hverjum flokki, en óþarfi fannst mér að setja númer á þessa sem fóru á bakvið tíunda sæti.

Einnig vil ég nefna að ég tel „best“ og „uppáhalds“ ekki vera sama hlutinn. Einhverjar af mínum uppáhaldsmyndum frá árinu fengu að vera með, en þessar sem fóru í guilty pleasure flokkinn voru ekki svo heppnar.

ÞÆR BESTU…

Runner-up myndir: Blackfish, Catching Fire, Dallas Buyers Club, Fruitvale Station, Jodorowsky’s Dune, Her, Mud, Only God Forgives, Pacific Rim, Prisoners

12_Years_A_Slave-Banner10. 12 Years a Slave

Mögnuð mynd, merkileg og mikilvæg. Það eru einhverjir vankantar sem hífa hana ekki upp í þetta meistaraverk sem hún ætti að vera (og snerta þau mál t.d. grimmdina, endi myndarinnar og einn leikara sem passar ekki inn í hana) en hægt er að ímynda sér síðri mynd sem á skilið öll þessi Óskarsverðlaun. Sagan er átakanleg, mannleg, grípandi og fer varla á milli mála að þetta sé ein af betri leikaramyndum ársins, allavega sú tilþrifaríkasta ef rætt er um sársauka. Og nóg er til af honum…

spring-breakers-5809. Spring Breakers

Tilvonandi költari og ein versta martröð margra foreldra. Dökk, kynóð, valdagröð, óvenjuleg en um leið ógleymanleg stúdering á grynnstu aspektum á unga fólki nútímans. Brengluð, dáleiðandi en mögulega of „artí“ fyrir suma, en ef við gefum okkur það í smástund að orðið artí bjóði upp á samheiti yfir brjóstaskoru, þá er þetta klárlega skorumyndin í ár, með American Hustle í öðru sæti. Þessi er alveg ein sinnar tegundar.

The-Worlds-End28. The World’s End

Þriðja myndin í hinum sögulega „Blóð og ís“ þríleik og gæti ekki farið betur um hana á meðal þeirra Shaun of the Dead og Hot Fuzz, en mér skilst þó að það sé frekar umdeild skoðun. The World’s End olli mér reyndar fyrst örlitlum vonbrigðum en því meira sem ég hugsaði um öll fullorðins- og nördalegu smáatriði hennar því meir fór ég að dýrka meira þennan skrípaleik hennar, fríkaða og frábæra húmor. Grínið er til staðar en meira aukaatriði svo persónusköpunin leyfi sér að hlaupa aðeins fram úr. The World’s End er ekki eins fyndin og Fuzz en er samt í dag sú úr þrennunni sem er í mesta uppáhaldi hjá mér. Langbesta „nördamynd“ ársins, Pegg og Frost hafa hingað til ekki verið betri og Edgar Wright vex stöðugt á nýjum sem leikstjóri.

James-McAvoy-in-Trance-2013-Movie-image7. Trance
Vanmetnasta mynd ársins, og ein af þeim bestu frá Danny Boyle síðan hann byrjaði (ásamt Trainspotting og Sunshine). Eins og gerist með flestar myndir hans byrjar hún sem eitt og verður síðan að einhverju allt öðru eftir fyrri helminginn, en það virkar! Trance er snar-snargeðveik út í gegn, og hvorki er hún eitthvað löng eða lengi að líða. Handritið er óvænt, spennandi, úthugsað (sem þýðir að hún verður betri í annað sinn) og öll samsetning gullfallega beitt og stílhrein. Soundtrackið er helbert dúndur og leikurinn pínu layeraður. Boyle fékk skiljanlega ekki eins mikla athygli fyrir þessa mynd og Óskarsmyndirnar seinustu, enda ljót, ringluð en ekkert minna áhrifarík þrátt fyrir það.

philomena36. Philomena

Alls ekki ein af hjartnæmustu myndum ársins, heldur SÚ hjartnæmasta, og almáttugur á priki hvað hún er upplífgandi líka. Þessi kraftmikla „múttumynd“ dansar þá línu að vera bæði lúmskt átakanleg og meinfyndin en dansar af svo mikilli fagmennsku að hinir hörðustu töffarar gætu fengið kökk í hálsinn og orðið gleyptir af sjarmanum sem hún hefur. Mögnuð saga, ómótstæðilegir leikarar (og sjálfsagður leiksigur hjá Judi Dench í titilrullunni) og sálinni er skilað í betra standi eftir á.

the_act_of_killing__span5. The Act of Killing

Viti menn, þarna verð ég að svindla aðeins á kerfinu þar sem þetta er tæknilega séð 2012 mynd, en ég finn mig knúinn til að gera litla undantekningu og skjóta henni hingað inn. Án spurninga er þetta langbesta og merkilegasta heimildarmynd ársins (í fyrra?) og gæti verið ein af þeim allra betri á áratugnum. Leikstjóraútgáfan teygir hlutina aðeins á langinn en er vel þess virði þegar maður hættir ekki að hugsa um hana.

gravity-fetal-position4. Gravity

Vísindatryllir, ferðalag, rússíbani, tilfinningarússíbani, metafóra, martröð, tæknilegt og sjónrænt undur. Til eru margar lýsingar á Gravity en þegar upp er staðið er þetta sú mynd sem tekur stærsta stökkið í tæknideildinni hvað árið varðar. Myndin er lagskipt, róleg, tense og sjónarspilið dregur aldrei úr mannlega þættinum, heldur styrkir hann í staðinn og það er það sem öllu skiptir. Sandra Bullock ber stærstu byrðina hetjulega á öxlum sér. Að sjá um heila dramatíska bíómynd ein a báti er nógu erfitt, og að gera það í „ímynduðu“ geimumhverfi er væntanlega ekkert auðveldara. Í þessar 90 mínútur hefur Gravity togað mig öll þau skiptin sem ég hef séð hana og aðeins eina bíóupplifunin í heiminum sem er helmingi betri í 3D.

3. Blue is the Warmest Color

Fólk má að vísu lengi deila um hvor titillinn passar betur, en La Vie D’Adèle (Líf Adèle: Kaflar 1&2…)/Blue is the Warmest Color er ekki mynd sem óhætt er að mæla með handa hverjum sem er. Þessi þriggja klukkustunda „lessuepík“ er oft ranglega dæmd sem langdregið klám en ef eitthvað er til í því þá er þetta óvenjulega ljúfsárt, snilldarlega leikið klám þar sem „söguþráðurinn“ er miklu meira spennandi heldur en nokkurn tíma kynlífið. Þetta er ein besta karakterstúdía og saga um (fyrstu) ástina sem sést hefur í háa herrans tíð. Hún fangar raunveruleikann í flösku með því að vera opinská og þolinmóð. Allt er framan í fésinu á þér, ALLT! Kynlífið, maturinn, hamingjan, stressið, sorgin og stóra þrenningin raðar þessu ótrúlega vel saman; þ.e.a.s. leikstjórnin, leikararnir og handritið. Eins og ég segi samt, ekki fyrir alla, en góð saga er góð saga og fólki sem hún er ætluð ætti að sjá hellingsgildi í henni.

2. The Wolf of Wall Street

Dóp, kynlíf, meira dóp, meira af öllu, fullt af „Ludes“ og reglur um hvað má ekki gera í dvergakasti. Scorsese hefur hnerrað út enn einni snilldinni, í raun þeirri bestu í 22 ár. Fyrir utan eina eða tvær sekúndur af furðulegu brelluskoti í besta atriði myndarinnar (hint: Leo og tröppurnar… og áframhald) er ekki dauður eða taktlaus blettur í þessari sjokkerandi og sjúkt fyndnu raunasögu um svindlarann Jordan Belfort, sem ætti margsinnis að vera löngu búinn að drepast.
„It was obscene,“ segir Belfort, „…in the normal world. But who the fuck wants to live there?“
Er ljótt að hlæja að þessu? Verra að hlæja með? Mögulega, en Scorsese málar rétta mynd af alvöru úlfinum. Í þrjá effing klukkutíma er maður leiddur í siðlausa græðgis- og partíheilann hans, og aldrei er stigið út fyrir sporið í þessu innliti – og í eitt skipti fyrir öll upplýsir hann öllum þeim sem hafa stolið frá honum síðustu 20 árin að enginn segir svona sögu betur en hann. Leo DiCaprio er sama og orðinn eins og De Niro einu sinni var.

 

Before-Midnight-Pics1. Before Midnight

Djöfull elska ég þessa mynd!
Hægt er að vera þröngsýnni og segja að þessi mynd tali eflaust hvað mest til þeirra sem hafa gengið í gegnum langtímasambönd og barneignir (ætli fyrrverandi spúsur séu þá ekki meðtaldar líka?) en það breytir því ekki að hún ætti að hitta beint í mark hjá öllum sem kunna að meta vandaðar, sannleiksbundnar litlar myndir með gallalausum leiktilþrifum. Kannski er enn betra er fyrir þá sem falla í báða flokka en Before Midnight er a.m.k. allt sem hún þarf að vera: raunsæ, bítandi, persónuleg, með ómótstæðilegt hjarta og slær hvergi feilnótu í einfaldri frásögn sinni. Fullkominn „endir“ á fullkominn smáþríleik. Óaðfinnanlega náttúruleg, vel skrifuð og leikin. Meistaraverk.

 

Eitt annað samt. Danski dramatryllirinn Jagten var án efa ein sterkasta myndin sem kom út á þessu ári, en ég bömpaði henni á 2012 listann minn.
En nú:

Þær verstu…

Runner-up myndir:  A Good Day to Die Hard, Gangster Squad, jOBS, Paranoia, Percy Jackson 2, The Hangover: Part III, The Host, The Internship, The Purge, Þetta reddast

Getaway-Movie-Poster-HD-Wallpaper10. Getaway

Týpískt… Ethan Hawke fær eina mynd á topplistann, og í staðinn heilar tvær glataðar myndir á sama ári til að sýna mér hversu ólíkt honum það er að vera gæðaleikari of lengi. Og annað mjög týpískt: Akkúrat þegar mér var byrjað að líka eitthvað vel við Selenu Gomez þá velur hún… Getaway. „Overkill“ er eini gírinn sem þessi ræma þekkir, og fúlt er hversu óspennandi svona langur eltingarleikur getur verið. Það eina sem bjargar þessari frá botninum er magnað single-skot sem gæti allt eins verið beint tekið úr svölum bílaleik. En sem betur fer er þetta ekki endurgerð af Alec Baldwin-myndinni.

movie9. The Big Wedding

Jakk. Veit ekkert hvað gerðist hér með þetta góða fólk, en innilega vona ég að þessi Justin Zackham (sem skrifaði Bucket List) leikstýri aldrei nokkurn tímann bíómynd aftur. Bara… nei.

Mynd_14069298. Hross í oss

Stöntin eru flott og sum skemmtilega villt. Lengra nær það ekki því restin af þessu faux-póetíska verki samanstendur af stefnulausu náttúrublæti, heild sem myndar hvorki góða þematíska samantekt né nógu áhugaverðar stakar einingar. Sjónræn frásögn gengur ekki upp ef hún er svona dýptarlaus. Hefðu hestarnir talað hefði mér samt ekki getað leiðst meira. Síðan sýndist mér sjá einhverja góða leikara þarna líka, en ég fann enga áþreifanlega karaktera. Núll.

after-earth7. After Earth
Það var aðeins hægt að fara leiðina upp eftir slysasprengjuna sem The Last Airbender var. Egóið hjá Shyamalan virðist ætla seint hverfa og matreiðir hann núna ógeðfellt asnalega sci-fi tjöru sem veit ekkert hvað snýr upp eða niður frekar en hægri, vinstri, pirrandi og ekki pirrandi. Will Smith lækkar mikið í áliti fyrir að taka þrjár stórar ákvarðanir: að framleiða myndina í hégóma og troða syni sínum í hana, að skrifa götóttu söguna með ótakmörkuðu kæruleysi og að lokum tóna niður allan þann sjarma sem hann yfirleitt hefur. Unbreakable er allt í einu orðin aðeins verri núna bara út af nafninu sem ég sé í kreditlistanum.

ripd_wallpaper_2-HD6. R.I.P.D.
Vá… bara… hljóðlaust vá. Svo mikill peningur, svo fín hugmynd, svo lítill metnaður. Að öllu leyti tilgangslaus, bitlaus og fratleiðinleg brellusúpa sem nær ekki einu sinni að vera eins „góð“ (sumsé slök) og Men in Black III. Einhver ljót myndasögubölvun hvílir á Ryan Reynolds, því aðeins í mynd með honum gæti Jeff Bridges orðið svona böggandi. Á allan máta er óæskileg hugmynd að eyða peningum í þetta ef aldur viðkomandi vafri ekki á milli 9 og 12 ára.

Identity-Thief-Wallpaper-015. Identity Thief

Ég skil bisness-hugmyndina í því að troða Jason Bateman og Melissu McCarthy í klisjukennda og „hjartmæma“ (ugh) böddí-vegamynd og ætlast ekki til neins af þeim nema að leyfa þeim að gera það sama og þau gera alltaf. Þetta eru tveir gamanleikarar sem hafa stimplað sig sem þessar týpísku „ávallt sömu“ týpur og léleg, ófyndin mynd gera þau ekki beinlínis að neinni gleðipillu fyrir kvöldglápið. The Impossible átti betri grínspretti en þessi mynd.

Laddinn4. Ófeigur gengur aftur

Oj-feigur. Farðu.

_

movie43featurette

3. Movie 43

Ein merkilegasta uppfinning ársins, og eins freistandi og það er má aldrei þurrka hana út úr minningunni. Svona löguðu þarf að muna eftir og passa að endurtaki sig seint. Hálfri Hollywood-elítunni var platað út í vonlausan, húmorslausan vef sem versnar bara og versnar með mínútufjöldanum… fyrir utan eitt atriði í hraðbanka og nokkra sjokkpunkta sem fá mann til að spyrja sig „hvernig í andskotanum náðist að sannfæra (nafn á celebi) í þetta??“ Undir venjulegum kringumstæðum væri þetta versta mynd ársins, en verri spoof-myndir og Happy Madison kippa öðru í liðinn. Movie 43 er þeim afar þakklát fyrir það.

eg2. Scary Movie 5/The Starving Games

Báðar „grínmyndir“, báðar vondar. Engin miskunn. Tæknilega séð ættu þetta að vera allra sorpuðustu sorpin á árinu en báðar eru hreinlega gerðar af fávitum. Það getur verið eins og hálfs tíma dauði að horfa á hræðilega spoof-mynd, en það sem gerir keisaramynd botnsins að meiri niðurlægingu er sú staðreynd að hún þykist fjalla um eitthvað annað en bara sketsa.

4604_35101. Grown Ups 2
Aðdáendur Adams Sandler þroskast alltaf á endanum en hann situr enn sjálfur á sama þroskastigi og fer e.t.v. neðar og neðar með árunum. Í Grown Ups 2 er öllu tjaldað til í „fjölbreytni“ og „húmor“. Það er m.a. ælt, pissað í munn, prumpað, ropað (stundum prumpað og ropað á sama tíma), kúkað, næstum-því kúkað, ælt aftur, pissað svo meira, farið í sleik við hund og til að kóróna allt sést Salma Hayek éta pappír af engri ástæðu. Við erum að ræða um mynd sem er greinilega svo niðurlægjandi og móðgandi að Rob Schneider neitaði að taka þátt í henni þegar honum var boðið að snúa aftur. Horbjóður!

Rétt aðeins að lokum – vonbrigði ársins:
Anchorman 2, Dead Man Down, Elysium, Insidious: Chapter 2, Man of Steel, Oblivion, Riddick, Thor: The Dark World

Afsakið allt scrollið.

9 athugasemdir við “Bestu (og verstu) myndir 2013

 1. Góðir listar sem þú ert búinn að henda hér inn í kvöld, skemmtileg lesning :)

  Hef séð flest allt en ég á eftir nokkrar góðar eins og 12YAS, The Act of Killing og Her og svo líka Nebraska eins og þú. Short Term 12 fannst mér æðisleg.

  Hvað fannst þér um þessar? Þetta eru allt myndir sem mér fannst geðveikar sem voru ekki minnst á neins staðar á listunum þínum: Ain’t Them Bodies Saints, Upstream Color, Stranger by the Lake, Enough Said, Frances Ha, The Great Beauty, Out of the Furnace, All is Lost og The Spectacular Now

  Og eitt í viðbót hér… Ertu búinn að sjá Inside Llewyn Davis?

 2. Hef séð alllar nema Enough Said og Great Beauty, sem er leitt, því ég hef áhuga á þeim báðum.

  Saints fannst mér ekkert spes, Furnace ekki heldur, All is Lost var fín og ég vildi að ég hefði verið sáttari með Upstream. Hins vegar virkilega hrifinn af Spectacular Now og Frances Ha, en það var nógu erfitt að velja 20 titla eins og var :-/ Hefði alveg getað bætt fleirum við því nóg var eftir sem ég taldi ekki upp,

  t.d.

  BLUE JASMINE
  Don Jon
  Llewyn Davis
  Kings of Summer
  Rush
  Við erum bestar
  Way Way Back.
  Wind Rises (rétt tæplega)

  o.fl. o.fl.

  Svo mikið af góðu að ég er næstum því sigraður.

 3. Hvað samt finnst þér um The Place Beyond the Pines? Ég sá að þú skrifaðir um hana sem „Mynd dagsins“ á Bíóvefnum fyrir löngu en ég náði ekki alveg að sjá útfrá því hvaða einkunn þú myndir gefa henni og hvað þér fannst um ýmsa hluti í henni og svona…

  Hún er #2 so far á 2013 listanum mínum og gef henni fullt hús stiga þrátt fyrir það að hún er alls ekki gallaslaus en ég náði bara svo mikið að tengja við hana á sumum stöðum og hún náði svo rosalega til mín og festist voða lengi í mér.

 4. Skemmtilegur listi hjá þér.

  En ertu með einhver komment á það hvernig gagnrýnin þín á Hross í oss virðist stangast á við viðtökur á hátíðum erlendis, aðsókn hérlendis, aðrar gagnrýnir og verðlaun? Ég prufaði að leita en virtist ekki finna neitt jafn slæmt á prenti á netinu um myndina og þetta.

  Ekkert diss hjá mér, bara smá forvitni.

 5. Takk, Guðni.

  Hmmm… góð spurning. Þetta gæti verið „meðvirkni“ sem mig skortir, því oftast er það ekki séð sem „töff“ að hrauna yfir íslenskar myndir sem kosta yfir 100 milljónir króna – þúst, lítið land, allir þekkja alla og það allt.

  Síðan ég man eftir hefur alltaf verið þekkt dæmi að íslenskir gagnrýnendur veiti ákveðna forgjöf (fyrir effortið þ.e.a.s.) þegar kemur að íslenskum myndum, en ég hef alltaf sett sömu gæðakröfur þegar kemur að innlendum myndum sem erlendum. Smekkur manna er vissulega mjög svo misjafn og ég reyni að fara með opið hugarfar á allt, en gat þó ekki fyrir mitt líf lifað mig inn í þessa langdregnu hestamynd eins og aðrir sögðust gera. Heldur hefur mér sjálfum ekki tekist að finna dóm (og ég reyni að leita!) sem selur mig á það að þessi mynd sé eitthvað frábær.

  Ég get ekkert sagt til með verðlaunin úti og hvernig gæðastandardinn speglast á þeim burtséð frá því að allir eru að henda styttum í spes, skandinavíska stönt-mynd. Kannski eru útlendingar svona hrifnir af því hvað hún er „djörf“ og öðruvísi. Það er létt að dást að henni, en enn hef ég ekki hitt manneskju sem var í alvörunni eitthvað snortin af henni (þó mér skilst að þetta eigi að vera GAMANMYND, sem er þá enn verra), ekki nema það starfi í eða nálægt bransanum.

 6. Sælir, flottur listi og er sammála flestu þarna en ég var að pæla hvort þú hafir séð Kings of Summer, ef svo hvernig fannst þér hún?

  Einnig langar mig að spyrja þig hvort þú værir til í að posta IMDb-inu þínu hérna, dauðlangar að skoða ratings og svona frá þér? :)

Sammála/ósammála?