Bíóárið gert upp: 2013

ATH. Játningin er LÖNG að sinni, en þetta er samansafn af minningum yfir heilt ár sem ég er að dekka, og áður en lengra er haldið vil ég vekja athygli á þessu þrennu ef leitast er eftir því…

Hér má finna:

Bestu og verstu myndir ársins
Ofmetnustu/vanmetnu myndirnar
Senur ársins

Þá er það komið á hreint. Ef einhverjir vilja doka við þá ætla mér aðeins að „annála“ mig í gang.

Fyrir utan þessar leifar af 2012 myndum sem við áttum eftir að fá (t.d. Django, AmourThe Master, Flight, Rust & Bone, Jagten o.fl.) er ekki auðvelt að segja að þetta ár hafi byrjað sérstaklega vel fyrir ’13-myndirnar. Það tók líka heila eilífð að fá almennilegt úrval af þeim í bíóin, og gerðist það ekki fyrr en rétt þegar sumarið var að byrja. Lægðin var ósköp mikil en við tók skrambi skemmtilegt bíósumar þó engin af stórmyndunum hafi verið staka meistaraverkið sem maður er stöku sinnum svo heppinn að fá. Grínmyndir yfir heildina voru einnig margar… alltof margar, bara vegna þess að þessar sem voru slæmar voru markvisst ógeðfelldar.

Þegar fór að kólna aðeins í kringum ágúst-mánuð fóru hlutirnir aðeins meira að gerast, en í kringum September-október var úrvalsfjarsjóðurinn orðinn troðinn út fyrir allar hliðar. Burtséð frá þrælfínni RIFF-hátíð í ár var m.a.s. orðið nóg af góðum myndum í almennum kvikmyndahúsum. Haustið var með þeim sterkari sem man eftir í fljótu bragði, og eins og vanalega færist alveg ágætur hluti af góðum ’13-myndum sem ýtist yfir á þetta árið. Ég var mjög sáttur með tólfuna og fannst 2013 vera lítið sem ekkert síðra og helst sterkara á sviði smærri mynda. Engin óhappatölubölvun hér yfir heildina, heldur dreifist hún bara á aðra.

Í fylgt við klassíska trentið voru framhaldsmyndir og endurgerðir í svakalegu magni og sérstaklega framhaldsmyndir með opinn enda, og það ýtir undir þá hugsun að stórmyndir í dag eru oftar en ekki farnar að líkjast löngum, brjálæðislega stórum sjónvarpssyrpum. Af stóru hæpmyndunum var ekkert sem náði sama titringi og t.d. The Avengers og The Dark Knight Rises, en það næsta sem að því kom var Man of Steel, og þar hafði ég allar ástæður til þess að efast um handritshöfundinn fyrirfram. Heimur nörda og kvikmyndaáhugamanna fraus það tímabil sem byrjaði að fréttast út hvað þessi mynd var mikil vonbrigði.

Stórar blockbuster myndir hafa annars sjaldan verið svona töff á nördaaugun (tæknin, mar!) en það gæti verið smátími áður en einhver gerir eins fullkomna nett-sjálfstæða kvikmynd (ekki bara bíómynd) eins og The Dark Knight. Nú snýst þetta að mestu um að gera stórar stakar myndir að flottum tannhjólum í einhverju stærra. Það er ég að fíla svo framarlega sem Hollywood-iðnaðurinn breytist bara ekki í rándýra sjónvarpsþáttagerð, en eins og í tilfelli Marvel hefur verið smá óreiða komið á milli stærstu máltíða. Ég mikill „consistency“ aðdáandi og jú, Marvel hefur verið að púlla þessa skepnu sína eins og sannar hetjur, en mest kemur það á óvart að núna er það Fast & Furious serían sem er orðin sú heilsteyptasta hvað þetta varðar.

Fyrir stóru lætin sem eru nú í smíðum er þetta og síðasta ár svona manískt millistopp. Kvikmyndafréttir árið 2013 voru margar sögulegar og umturnuðu öllu umtali á næsta level; leikstjóri Star Wars var valinn, nýr Batman valinn, Wonder Woman og stúdíóhausar sem eiga öll hasarblöðin á skrifstofum sínum eru allir farnir að byggja sína eigin massífu bíóheima. Allt mjög jákvæð merki um að eitthvað mjög stórt sé í vændum, og vinsælustu goðsagnirnar þrjár fá að vera partur af því: þ.e. Superman, Batman og Spider-Man, og væri nú óskandi að tveir fyrst töldu væru ekki báðir undir umsjón sama manns.

Það var reyndar býsna sárt að kveðja menn eins og Paul Walker (þó ég viðurkenni ógeðslega að hafa hlegið samdægurs yfir brandaranum 2 Fast, 2 Funerals), legend-ið Peter O’Toole, James Gandolfini, Lou Reed (bara því ég verð einhvers staðar að troða honum) og sérstaklega Roger Ebert. Ebert er fyrirmynd allra sem hafa leyft sér að skrifa bíórýni á netinu og á fjórum áratugum tapaði hann aldrei eldmóði sínum að njóta góðrar myndar og tala með glampa um þær sem stóðu upp úr hjá honum. Vissulega á ég mér langan lista yfir myndum sem mér fannst hann persónulega aldrei „fatta“, eins og Fight Club, A Clockwork Orange, báða hundana Straw og Reservoir Dogs, Harold & Maude o.fl. – en það er allt partur af leiknum, að vera ósammála, heyra og stúdera aðrar skoðanir. Í 12 ár var ég með vefsíðu Eberts bookmarkaða og þótti mér leitt vitandi það að hann hefði t.d. aldrei séð myndir eins og Before Midnight eða Wolf of Wall Street. Ég er ekki frá því að Ebbi hafi verið einn stærsti Scorsese-aðdáandi sem ég vissi um.

Sem fyrr hélt mainstreamið áfram að leika á nostalgíu áhorfenda. Sex vinsælustu myndir ársins á Íslandi voru allt framhaldsmyndir eða byggðar á áður útgefnu efni, og fimm efstu í BNA voru það líka. Frumsamdar hugmyndir voru í höndum m.a. Guillermo Del Toro, Joseph Kosinski, Neill Blomkamp, og þeim gekk ekkert yfirdrifið vel – kannski vegna þess að þær voru ekkert vitund frumlegar.

Við fengum kaldar endurkomur frá John McClane, Ron Burgundy, Riddick og reyndar Pixar-Skrímslunum líka. Enn þykir fyndið að sjá gamla, reynda refi koma sér saman og fylla plaköt (Escape Plan, Last Vegas, Red 2) en einn sá gamlingi sem ég hló persónulega mest að var Johnny Knoxville af öllu fólki… í hlutverki gervigamlingja. Íslenskar myndir voru líka í snarbiluðu magni, og af þeim 6 sem komu út var aðeins ein þeirra virkilega fín (ég kaupi þ.a.l. ekki annað en að lofið sem Hross í oss hefur fengið sé þá annað en skilyrðislaust klapp frá hestamönnum og erlendri pressu sem étur upp allt með stórri skeið sem er evró-öðruvísi). Gæfi ég verðlaun fyrir íslenskar myndir fengi XL sérstaka Gull-Darrann fyrir að prófa a.m.k. eitthvað nýtt og Málmhaus allar styttur fyrir að vera vönduð og með nett áhrifaríka sögu.

2013 markar líka ár þar sem bæði Íslendingar sem og landið sjálft hefur tekið þyngdarlaust ofurskref í átt að meiri sýnileika (Oblivion, 2 Guns, Only God Forgives (meðframleidd af Þóri Sigurjónssyni), Walter Mitty) – sem er gott, og betra ef myndirnar eiga eitthvað líf framundan (sem Oblivion og Walter eiga því miður ekki). Erlenda kred-ið sem Balti er búinn að vinna sér inn er algjörlega verðskuldað. Hann er enn að klifra sig upp á toppinn, eða er kannski á leiðinni að sanna það.

Lítið um framúrskarandi teiknimyndir, nokkrar skemmtilegar þó. Systkinamyndir skutu einnig upp kollinum án þess að vera blóðskyldar. Tvær gerólíkar gamanmyndir tækluðu heimsenda. Hvíta húsinu var tvisvar sinnum rústað í svipuðum en samt allt öðruvísi hasarmyndum og sjónhverfingarmenn fengu tvær mismunandi nálganir – í myndum sem flestum virtist drullusama um. Síðan hefur greinilega Django tekist að taka forskotið á mikilvægri „Óskarsumræðu“ í tengslum við þrælahald og tension á milli kynþátta,  sem myndir eins og The Butler, Fruitvale Station og 12 Years a Slave hafa leitt. Tæknilega séð Lincoln líka, en hún lét umræðuna liggja í bakgrunninum.

Yfir í fagmennina… Miyazaki gerði flottan – en ekkert stórkostlegan – svanasöng, Edgar Wright gerði sína fullorðinslegustu nördamynd til þessa, jafnvel dýpstu og umdeildustu. Soderbergh byrjaði fyrst leiðinlega (Side Effects = pleh), eða endaði tæknilega séð leiðinlega því hann ætlar í bíófrí, en lyfti sér aftur upp með ágætri sjónvarpsmynd sem þarf að sjá allavega einu sinni til að klappa fyrir. Scorsese malaði toppinn eins og þurfti varla að reyna. Del Toro fékk einnig að sýna hversu leiðinlegt var að hann fékk ekki að klára Hobbitann sinn, því Pacific Rim var skemmtanatoppur sumarsins, ásamt enn einni óhefðbundnu jólamyndinni frá Shane Black. Ron Howard gerði góðan crowd-pleaser, gæinn sem gerði Prisoners kom sér lengra á kortið, Richard Linklater stóðst allar væntingar, Robert Rodriguez gerði það innilega ekki og Alfonso Cuarón gerði James Cameron þvílíkt öfundsjúkan. Einhverjum tókst þá aftur eftir öll þessi ár að endurvekja trú mína á 3D. Ef annars eitthvað á að rætast úr HFR-sölunni þá er Cameron eini maðurinn í láta það gerast.

JJ Abrams hélt áfram sínu striki (Trekkararnir mega alveg minnka gráturinn) með ljósablæti sínu og vakti ákveðna forvitni hjá mér með það næsta sem hann tekur að sér – og fokkar ekki vonandi upp. Mér er annars vegar eitthvað illa við það að gallaður penni fái of mikil völd yfir tveimur stærstu geimnördaheimum allra tíma… með nokkurra ára millibili. Þetta er aðeins of mikið taumahald á nostalgíu komandi kynslóða.

Sérkennilegustu leikstjóradæmin á árinu voru þessi: Harmony Korine breyttist loksins í abstrakt vibbalistamanninn sem hann hefur alltaf reynt að vera. Joseph Gordon-Levitt ákvað að hann gæti ekki komist hærra í áliti fólks nema að leikstýra hreinskilinni og ljúfri mynd, og það var nákvæmlega það sem hann gerði! Michael Bay tókst síðan í alvörunni að gera mynd með sjúklega skemmtilegu handriti. Evrópskir kvikmyndagerðarmenn máttu annars vegar sumir eiga betra ár. Nikolas Oplev missteig sig, þessi sem eitt sinn gerði Der Untergang fauk beint í ruslið og tók Díönu prinsessu með sér. Danny Boyle og Winding Refn fóru aftur í gamlar rætur og skiluðu frá sér báðir flugbeittu, útlits- og eyrnarlega mögnuðu en toguðu fáa fylgjendur til sín, sem er heljarinnar synd. Trance og God voru báðar frábærar.

Segjast verður (og verður maður ekki?) að Jennifer Lawrence er manneskja ársins, í public persónu og á skjánum. Endurkoma hennar sem Katniss Everdeen eftir að hafa sigrað þennan Óskar sýndi að hún eigi athygli sína skilið, bæði vegna þess að Katniss er góð fyrirmynd, Catching Fire er besta Hollywood-stórmyndin á árinu og hlutverkið felur ákveðna dramaþyngd í sér sem gerir leikkonuna aðdáunarverðari. Stuttu síðar sýndi hún eða minnti mann á aftur í American Hustle að persónuleiki hennar hefur engu tapað. Julie Delpy, Amy Adams (ekki M.o.S), Judi Dench, og Cate Blanchett eru orðnar með þeim bestu sem ég veit um og báru þær einnig svakalega af. Jaime Pressly tvífarinn Margot Robbie er uppáhalds nýja andlitið mitt og aðrir „nýliðar“ sem stóðu upp úr væru m.a. Andrea Riseborough, Lupita Nyong’o, Melonie Diaz og fleiri ótaldar. Scarlett Johansson fékk tvö ólík einhliða hlutverk í ólíkum, útpældum myndum um ástarsambönd – og hún fékk að stynja í báðum! A+ í einkunn fyrir það. Tvær leikkonur sem ég hef hingað til þolað í skömmtum komu líka með glænýjar hliðar; Cameron Diaz og Sandra Bullock. Diaz reið bifreið (meira um það hér) og Bullock hjálpaði að sjálfsögðu að gera Gravity eins góða og hún var með því að gelta, en hvort hún haldi áfram að vera ÞAÐ góð leikkona er eitthvað sem komandi hlutverk hennar segi til um.

Benedict Cumberbatch cumb-aði yfir okkur öll þetta árið og í mismunandi gervum, frá dreka til reiðs skúrks og þrælahaldara með hjarta. Allir sem eru ósáttir með það að hann sé löngu kominn til að vera mega hypja sig í langt bað. Cumby er maður ársins, eða keppir reyndar um þann titil sem Matthew McConaughey og Leonardo DiCaprio þurfa hvort sem er einnig að deila. Á eftir þeim tveimur eru Chewetel Ejiofor, Jake Gyllenhaal, Tom Hanks, Michael Fassbender, Joaquin Phoenix og Christian Bale, James McAvoy o.fl. Sá eini sem missti allt kúlið sitt þetta árið var Tom Cruise að mínu mati, þá aðallega vegna þess að við fengum Jack Reacher í janúar, þannig að sektin tvöfaldast. Jeff Bridges og Will Smith áttu heldur ekki gott ár. Tveir ólíkir úr This is the End-hópnum báru í staðinn af: Jonah Hill og James Franco. Snillingar báðir tveir.

Annars vil ég sérstaklega bæta því við hvað ég er með ólæknandi fetish fyrir því sem kvikmyndaáhugamaður að sjá gamla titla í bíói, sama hversu gamlir. Svörtu sunnudagarnir hjá Hugleiki og Palla hafa verið dýrmætir í þessu af og til en á þessu ári voru nokkrar sem nutu sín extra stórt og bjuggu til nýja minningu. Á RIFF í ár var t.d. hægt að sjá Fucking Åmal e. Moodyson á gúrme filmuprinti. Ég sat meira að segja í sama salnum á henni þetta árið og ég gerði þegar ég sá hana fyrst, og enn er hún æðisleg eftir öll þessi ár. Eins var kúl að sjá fyrstu Star Trek myndina í Egilshöllinni í digital-gæðum þegar Nexus og Bíóvefurinn voru með tvöfalda sýningu. Svo var haldin ein allverulega sérstök sýning á Jurassic Park (3D), og fyrir utan Gravity og Rim eru fáar bíóferðir á árinu 2013 sem hafa gefið mér sömu gæsahúðina og þegar sígilda John Williams score-ið blastar upp 300 manna bíósal. Að þessu frátöldu kom upp snilldartækifæri að sjá Die Hard aftur í Smárabíói í crisp mynd og hljómgæðum (og reyndar Home Alone líka). GEÐ-veikt. Sena gat þarna ekki valið betri leið til að bæta upp fyrir fimmtu myndina sem kom út hjá þeim í febrúar.

En já. Árið virtist vera það sterkasta frá því að nýi áratugurinn hrökk af stað. Bíóferðirnar á þessu ári hjá mér voru samtals  139, en myndirnar aðeins 119  (ýmsar sá ég oftar en einu sinni). 2014 lofar ýmsu góðu og skrautlegu, frá Nymphomaniac til Legó-myndarinnar sem ég get varla beðið eftir, Guardians of the Galaxy, Interstellar, Inherent Vice og helling fleira. Svo er bara að mjaka sér í gegnum allt ómerkilega draslið sem vekur forvitni. Bölvuð getur blessaða bíófíknin verið. Ég ætla mér SAMT að sjá Turtles, eins hræðileg og hún ábyggilega verður!

Þetta var allavega það helsta og margt meira hægt að ræða en hér læt ég við sitja. Takk fyrir að lesa, þið sem nenntuð. Gleðilegt kvikmyndaár! Vonumst nú í sameiningu eftir fáum vonbrigðum á því nýja.

PS. Myndirnar sem ég sá oftast í bíó á árinu voru The World’s End (5x) og Pacific Rim.

2 athugasemdir við “Bíóárið gert upp: 2013

  1. 139!!!! Það er svakaleg tala. Ég fer oft í bíó og ég efast um að ég nái 50…

Sammála/ósammála?