Vanmetnu/ofmetnu myndir ársins 2013

Svona listar verða yfirleitt að fylgja einnig með ef menn eru komnir svo langt að kryfja kvikmyndaárið og fara yfir sitthvorn gæðaendann. Má nokkurn veginn líta á þessa númeralausu upptalningu sem bónus-föndur. Fyrst koma…

VANMETNU MYNDIRNAR
…þessar sem flestir snéru baki utan í

Carrie (2013)
carr

Nýja-Carrie endurtók formúluna og hápunktana úr Brian De Palma-myndinni, en annað var erfitt því sú var einnig byggð á bók sem þessi bæði tekur frá og bætir smávegis ofan á. Gamla myndin var líka orðin löngu úrelt og er alveg í lagi að stílfæra eineltissöguna í nútímann. Endursköpunin var ekkert framúrskarandi, sem er reyndar bölvunin sem fylgdi henni vegna þess að sú gamla var svo fræg og söguleg. Áhorfendur voru samt blindaðir af „been there, done that“ sjokkgildinu og slógu það sem Kimberly Pearce reyndi að búa til án þess að skoða heildina nánar. Kannski ekki góð, en hún gerir meira rétt en hún fær kredit fyrir.

The Counselor
counl

Þessi gerir það mjög auðvelt að láta hata sig. Hún er viðurstyggileg, en samt svo krassandi, bítandi og magnaðslega geðveik. Myndin predikar í ljótleika sínum en vakti samt upp réttu viðbrögðin hjá mér. Ég dýrka hvað leikararnir ganga langt og mér finnst höfðingjalegt að sjá Ridley Scott gera sína svörtustu mynd svona seint á ferlinum. Tvö gláp eru reyndar nauðsynleg, því miður.

The Great Gatsby
dic

Góð partí-aðlögun á einni bestu bók sem ég hef lesið. En snilldin við bókina er ekki bara sagan og þemun, heldur ritstíllinn og hvernig innihaldið siglir svo æðislega með honum. Robert Redford-myndin skóp söguna beint og tapaði mestöllu bragði, Baz Luhrmann remix-ið er meira bragð heldur en tilfinning eða dýpt. En allavega er þetta mynd sem virðir bókina í hel og reynir bara að leiða þig í gegnum hana með confetti-sprengjum, sjónrænum trikkum og músíkmaníu sem ég fílaði í ræmur. Aðlögunin er hundgölluð en skellurinn sem Gatsby fékk frá gagnrýnendum var óverðskuldaður að lágmarki.

Now You See Me
now

Heimskar afþreyingarmyndir um snjallt fólk geta oft verið tussuskemmtilegar, en þær verða aldrei gáfaðri en handritshöfundurinn/arnir er sjálfur. Now You See Me hefur mikla orku sem nærist á leikurum sem ná einhvern veginn að koma smá trúverðugleika í þennan fantasíuþriller um sjónhverfingar. Jesse Eisenberg er skyndilega orðinn meiri töffari í þessari einu mynd heldur en Woody Harrelson, Michael Caine OG Morgan Freeman.

Kick-Ass 2
kick

Je-SÚS Fokker, 20-og-eitthvað prósent á Rotten Tomatoes?? Hárrétt er svosem að framhaldið var alls ekki eins ferskt, snjallt og töff og fyrri myndin, kannski að hluta til af sökum þess að nýi leikstjórinn nær að herma eftir stílnum hans Matthew Vaughn og bætti litlu við sjálfur. Kick-Ass 2 er hins vegar lógískt framhald að því leyti hvernig hún stigmagnar brenglunina sem sú fyrri byggði svo frábærlega upp. Tónninn finnst mér líka svo svipaður, eins og sé nánast beint hægt að sameina þær í eina stóra origin-sögu, og þess vegna kemur mér á óvart að flestir sem studdu fyrstu myndina voru bara alls ekkert ánægðir með þetta. Ég sá hana sjálfur þrisvar í bíó, hló öll skiptin og skemmti  mér yfir þessu fokkjú-attitjúdi hennar. Grimmt, yfirdrifið og gott nördafjör sem fylgir myndasögunni sterkt og breytir henni á réttum stöðum. Ég vil meira.

Only God Forgives
god

Drive komst inn í mainstreamið en skipti samt áhorfendum í tvennt, og það gerði hana bara meira trendí og töff! Einhverjir bjuggust við því að Only God Forgives yrði annað sambærilega svalt follow-up, ómeðvitaðir um það að Nicholas Winding Refn tók afturskref og gerði eitthvað sem er miklu nær hans tvískipta, frumlega skepnuskap. Only God Forgives er ekki mynd til að horfa á í leit að afþreyingargildi eða einföldum svörum. Þetta er sjónrænt, ógeðfellt listaverk sem heillar annaðhvort eða sparkar frá með múdi sínu, furðulegheitum, augnpotandi ofbeldi, kareókí-sessjónum og stöðugu, epísku störukeppninni. Það tók mig langa meltingu, annað áhorf, svo annað eftir það, og þá sá ég betur hversu mökk-geðveik og frábær þessi mynd er.

Trance
305-TRANCE-PS.tif

Sjá hér.

Aðrar : Beautiful Creatures, Byzantium, Disconnect, The Grandmaster, Pain & Gain, Thanks for Sharing, The Way Way Back, You’re Next

Ofmetnu myndir ársins

Anchorman 2
a2

Dómar eru að megnu til jákvæðir og sögur ganga um að mikið hefur verið hlegið í salnum sum staðar, sem gerðist reyndar ekki hjá mér. Anchorman 2 er á mörkum þess að teljast ofmetin því jákvæðu gagnrýnendurnir segja fáir að hún sé betri en forveri sinn, kannski vegna þess að fyrri myndin fékk engar súperháar prósentur á Rotten heldur. En vonbrigðin og „wasted potential“ stimpillinn ýtir afar ófyndinni grínmynd sem mörgum líkar vel við rétt yfir mörkin til að eiga heima á þessum lista.

Captain Phillips

Tom Hanks

Skólabókadæmi um hvernig mynd getur verið unnin af svo mikilli fagmennsku en samt skilið eitthvað svo lítið eftir sig fyrir utan flotta frammistöðu og betri lokasenu sem gefur flata afgangnum eitthvert gildi. Paul Greengrass vissi ekki hvort hann ætlaði að segja straightforward þriller eða dramatíska raunasögu um eitthvað aðeins meira. Myndin er allavega ekki nógu spennandi og verður frekar langdregin þegar hún siglir að lokahálftímanum. En hvað er Óskarinn án þess að einhver myndin þar sé ekki stórlega ofmetin?

Evil Dead
ev

Of mikið gert úr „oj-inu“, engin spenna, ekkert gaman, enginn tilgangur. Sjokk-faktor spilaði heilmikinn þátt í því sem gerði upprunalegu Evil Dead að því sem við þekkjum en svo miklu meira en það líka. Er þetta endurgerð eða ný saga í sama heimi? Hvort sem hún er, þá hefur henni aldrei tekist að rísa neitt upp úr sem meira en stíllega vandað pyntingarklám með aðeins betri frammistöðu leikara en maður sér vanalega í svona myndum.

The Conjuring

THE CONJURING

Fyrri Insidious-myndin frá sama leikstjóra fékk aldrei sömu stjörnudóma og þessi en að mínu mati sat hún miklu lengur í mér. The Conjuring er vel unnin að flestu leyti en auðútreiknanleg í brögðum sínum (bíða, bíða, bíða, BREGÐA!) og bara ekkert sérlega áhugaverð þegar lengra líður á hana. Allir geta í það minnsta verið sammála um það að The Conjuring var eitthvað aðeins betri en Insidious 2.

The Hobbit: The Desolation of Smaug

Einhverra hluta vegna tekst mér ekki að sjá annað en hraðan, flottan endi á einni mynd og síðan stöðuga uppbyggingu á annarri mynd, svo er köttað á þegar of mikill tími hefur farið í of mikið hlaup og ekki næga söguþróun. Svo bætist við alltof mikill skjátími hjá Orlando Bloom og stöðugt er glímt við það að finna tíma til að halda uppi afþreyingargildi og ýta öllu til hliðar svo næsti kafli komist á loft. Miðgarður er mér ótrúlega dýrmætur, en þá helst þessi gamli sem var ekki eins stöðugt útataður í grænum tjöldum og tölvuleikjahasar. Kannski – og vonandi – græðir þriðja myndin brjálað mikið á göllum þessarar. The Desolation of Smaug sýnir hvernig fullmikið af hinu góða lítur út þegar töluvert minni þyngd er á bakvið það.

Aðrar: The Butler, The Heat, Hross í oss, Room 237, Side Effects, We’re the Millers, World War Z

Senur ársins

2 athugasemdir við “Vanmetnu/ofmetnu myndir ársins 2013

  1. ég er ekki sammála með það að Now you see me og Kick ass 2 voru vanmetnar…að mínu mati voru þær algjört rusl

  2. ef fleiri væru ekki sammála þér, þá væru þær ekki á þessum lista.

    Greinilega er þessi ruslaþefur allt öðruvísi fyrir mér en þér. Ég vildi að ég vissi hvað það þýddi.

Sammála/ósammála?