Baldvin Z (Vonarstræti)

Leikstjórinn Baldvin Z hefur gert það verulega gott síðustu ár eftir að leikstjórafrumraun hans, Órói, kom ófáum íslendingum skemmtilega á óvart og hefur ferillinn verið á blússandi uppleið síðan. Undirritaður fíkill var staddur í öðrum erindum þegar hann mætti leikstjóranum á meðan hann var á fullu að klippa myndina. Þá var hún komin í talsverða lengd (3 tímar!) og ferlið að skera fituna af henni var rétt að byrja.

Hér er stytt útgáfa af viðtali sem var tekið fyrir annan miðil:

„Ég vil geta lagst í söguna og gleymt mér alveg í henni og í karakterum. Það þarf ekki alltaf að vera eitthvað nýtt af nálinni svo framarlega sem það er vandað til verka. Ég vil algjörlega geta grátið þegar karakterinn missir tebolla,“ segir Baldvin um það sem einkennir góða mynd og hverju hann sækist eftir úr góðri dramamynd.

„Hugmyndin að Vonarstræti fæddist í rauninni áður en við gerðum Óróa. Ég var kominn með fullt af hugmyndum um hvernig mynd mig langaði til að gera sem mína fyrstu mynd, Vonarstræti var ein þeirra og var farinn að þróa og vinna í þessari hugmynd. Einhvern veginn tróðu svo framleiðendurnir upp á mig hugmyndina að gera Óróa. Mér fannst það pínu glatað að fyrsta myndin mín yrði bara einhver unglingamynd, en því meira sem ég hugsaði um það og fór svona að pæla í því hvað var hægt að gera við þessar sögur.“

„Svo kom hrunið,“ bætir hann við, „og það sem mér fannst langmest sexí við að tvinna það inn í söguna var að sýna að persónulega hlið bankamannanna sýndi mjög góða gæja. Ég man þegar ég las DV árið 2008, og einhverra hluta vegna var ég afmælisbarn vikunnar, en ég var á neðri hluta síðunnar. Á efri hluta síðunnar var Jón Sigurðsson, forstjóri FL Group, og ég tók þarna eftir að við erum jafngamlir, upp á dag! En ég hugsaði þó að það munaði alveg einhverjum núllum á laununum okkar á þessum tíma, en þá var ég mjög mikið að berjast sem kvikmyndagerðarmaður. Ég hugsaði: vá, hvernig kemst þessi gæi í þessa stöðu á þessum tíma? Hvað liggur á bak við hann? svo gerðist allt, hrunið varð, menn urðu reiðir en ég hugsaði samt allan tímann: þetta er pottþétt ógeðslega góður gaur! Hvernig flækist hann inn í þetta? Hvað verður til þess að hann tekur ákveðnar ákvarðanir? Þetta var það sem mig langaði mikið til að fjalla um.“

Leikstjórinn segir þriðja þáttinn sem kláraði þetta púsl vera sögu sem stendur honum mjög nærri og sé búin að liggja á honum alla hans ævi. „Þetta átti allt þrennt að vera í sitthvorri myndinni en svo virkaði meira spennandi að prófa að hræra þeim saman í einn kokteil,“ segir leikstjórinn.

Íslenska heiti myndarinnar miðast við samnefnda götu í Miðbænum og erlendi titillinn er bein tilvísun í bók sem ein af persónunum skrifar í myndinni. Með burðarhlutverkin fara Þorsteinn Bachmann, Hera Hilmars og Þorvaldur Davíð Kristjánsson. Samkvæmt Baldvini glímir hver þessara persóna í myndinni við ólíka drauga og í gegnum hvern og einn er einblínt á fortíð, nútíð og framtíð sem hluti af þemun hennar. Lýsir hann þessu sjálfur sem „krossgötumynd“ að því leyti að allir hafa eitthvað til að leiðrétta og laga.

Þegar Órói var sýnd opnaði myndin alls konar dyr fyrir Baldvin sem leikstjóra. Umtalið á myndinni þótti sterkt, gagnrýnendur voru sáttir allan hringinn og komst hún inn á ýmsar hátíðir erlendis. „Ég reyni ekki að líta á þetta eins og mér finnist ég þurfa að standast allar væntingar þeirra sem voru hvað hrifnastir af Óróa. Ég reyni bara að búa til mína mynd og vona að hún hafi einhver áhrif.“

Kvikmyndagerðarmaðurinn hefur annars vegar í mörg, mörg ár þurft að berjast fyrir starfi sínu. „Leiðin var hrikalega löng og ég tók eftir því að nafnið mitt fór að skjótast inn árið 2009 voðalega mikið, það var svona „hver er þetta?“ fílingur. En ég er hins vegar búinn að vera að síðan 1989,“ mælir hann. „Ég kem frá Akureyri, þannig að ég var rosalega mikið í því umhverfi að búa til alls konar stuttmyndir. Ég hef haldið bíósýningar fyrir norðan. Sýningar sem tóku inn í kringum 4 þúsund áhorfendur en samt munu myndirnar aldrei líta dagsins ljós. Það voru bernskubrek í því.“

Í kringum aldamótin segir Baldvin að hann hafi ákveðið að þetta væri það eina sem hann hefði áhuga á og fór í kjölfarið að pæla í því hvernig hann ætti að klífa það fjall, t.d. með því að koma sér inn í auglýsingar og gera fleiri stuttmyndir. Hann reyndi einnig að komast inn í kvikmyndaskóla í Danmörku en komst svo ekki. „Þetta er búið að vera ótrúlega „bömpí“ og erfiður vegur og oft hef ég verið alveg á mörkum þess að gefast upp,“ segir hann.

Velgengnin á Óróa var næstum því eins og hin áttin frá því sem hr. Z bjóst við. Segir hann að þegar lokið var við þá mynd voru voðalega blendnar tilfinningar í smástund. „Ég var hræddur um að ekkert væri að gerast í myndinni, að fólki þætti hún leiðinleg. Allt svoleiðis kom upp, þangað til við fórum svo loksins að fá hlutlaus viðbrögð og sérstaklega frá ungu fólki. Svo gekk myndinni bara ótrúlega vel, við fórum erlendis með hana á hátíðir og það var ótrúlega gaman. Best fannst mér að sjá hvernig viðbrögðin voru alltaf aðeins öðruvísi en hér heima. Í kanada voru fjölmargir sem fengu sjokk yfir alls kyns hlutum sem okkur finnst ekkert vera svo mikið mál.“

Sem leikstjóri í fullu starfi segir Baldvin að skerðing á fjárframlögum ríkisins til íslenskrar kvikmyndagerðar hafi óneitanlega auðséð áhrif og segir hann það tvímælalaust mikið áhyggjuefni. „Manni leiðist ofboðslega þegar fólk fer að bera saman list og heilbrigðisgeirann. Málflutningurinn þar finnst mér oft geta verið mjög ófaglegur,“ segir hann, „en kjarninn af því hvað er list er svo heimspekingsleg spurning en fólk pælir í rauninni aldrei í því hvað það gerir fyrir okkur að vera með afþreyingu, að vera með bíómyndir, leikhús, allt saman.“

Sammála/ósammála?