12 Years a Slave

12 Years a Slave er sennilega með vægðalausari og átakanlegri myndum sem ég man eftir að hafa unnið svona mörg stórverðlaun. Ef til er einhver grimmur, ógeðfelldur en þó vonarmikill millivegur á milli Passion of the Christ og saltaðra Spielberg-töfra þá gengi Steve McQueen þann veg en í nær kaldari áttina. Hvað þetta umfjöllunarefni varðar hefur þessi leikstjóri stigið hugrakkt skref, þó annar bíólistamaður hafi reyndar tekið það djarfara fyrir ekki meira en ári síðan. En það var bíó, hér er ekki ætlast til þess að hafa gaman af neinu.

McQueen gerir ekki bíó, heldur er hans ætlun að síast langt og lengi inn í hausinn á þér og honum tekst með óþægindum og subtexti. Þó myndirnar séu ekki orðnar margar þá hefur hann verið athyglisverður og krefjandi frá sinni fyrstu, og Shame er áfram hans besta. 12 Years a Slave á fyllilega átt skilið meirihlutann af þeim styttum sem hún hefur sópað inn, þrátt fyrir að vera Óskarsmynd eftir pöntun – en Óskarsmynd með tennur, klórför og flagnaða húð. Hún ber höfuð og herðar yfir mjög stóran hluta af kvikmyndum ársins 2013. Líka er hún ein tilþrifaríkasta leikaramynd þess árs og meðhöndlar áhrifaríku sögu þrælsins Solomons Northrup með smámunasemistöktum, en gengur kannski örlítið overboard í tilfinningastjórnun sinni til að vera meistaraverkið sem hún ætti að vera.

Ekki er neinn skortur á mögnuðum senum sem leggja áherslu á smáatriði leikara, tilfinninga eða hugarástands í óslitnum tökum. McQueen, meistari sálarþjáningar og líkamlegra erfiða, er þekktur fyrir einmitt þetta, að leyfa myndavélinni að doka við á leikurum sínum á meðan þeir kreista út því sem þeim er sagt. Chiwetel Ejiofor er alveg hreint fullkominn sem Northup og dælir út sorg, örvæntingu en jafnframt falinni von sem má lesa út úr honum án þess að senurnar stafi hlutina út. Engu síðri og ef til vill betri eru Lupita Nyong’o og algerlega taumlaus Michael Fassbender, sem aldrei stendur sig betur en þegar McQueen stýrir honum. Aðrir, frá Paul Dano (í hlutverki aumingjaskítseyðis enn á ný) til Benedicts Cumberbatch, eru flestir gallalausir og gera vel við það sem þeir hafa. Dano er sérlega viðurstyggilegur en ræfilslegur og valdalaus, á meðan karakterinn sem Fassbender leikur er ekkert síður ógeðfelldur en valdamikill, með skapvandamál og að mestu siðlausan heila.

Af annars öllum þremur myndum sem McQueen hefur gert hefur leikaravalið og nýtingin ekki slegið stökustu feilnótu en að þessu sinni myndast ein lítil undantekning í grúppunni, og það er Brad Pitt. Einnig er hann þekktur hér sem einn af framleiðendum myndarinnar og það segir eitthvað fyrir mér því eins fínn og hann er þótti mér hann kolrangur maður í frábæra, öflugt hlýja en kannski aðeins of vannærða rullu. Einhvern veginn sleppa menn eins og Fassbender, Cumberbatch og Paul Giamatti en þegar celeb-stjarna eins og Pitt stígur inn, þá sér maður engan annan en Brad Pitt, sérstaklega miðað við hvernig hann leikur þetta, eitthvað… off. Ekki síst þegar hreimurinn er farinn að koma með skugga frá Aldo nokkrum Raine.

Tónlistarhöfðinginn Hans Zimmer hefur sjálfur einnig átt betri daga, og krafturinn á skjánum verðskuldaði eitthvað aðeins mikilfenglegra – eða minimalískara – heldur en að heyra hann enn einu sinni stela frá sjálfum sér. Í þetta sinn eru það vissar nótur úr The Thin Red Line og Inception sem spilaðar eru aftur og aftur, og þótt ég myndi ekki gera tenginguna er hún bara einhæf og ekki nógu eftirminnileg af réttum ástæðum. Stundum er hún bara fyrir.

Umfjöllunarefnið og leikararnir eru samt sem áður ÞAÐ góðir að myndin er gjörsamlega ómissandi en eitthvað finnst mér über-aggressíva nálgunin berja aðeins of mikið ofan í fólk. Þessi ofuráhersla á mannvonsku hvítingjans hjálpar að gera sögulokin aðeins sterkari, en síðasti kaflinn er ekki alveg réttilega verðskuldaður þegar hann er svona úr stíl við nærri því allt sem á undan kom. Það er að vísu tilgangurinn en þarna leið mér mest eins og myndin hafi skipt um leikstjóra. Og miðað við alla þá grimmd sem fylgdi með úr alvöru sögu Northrup er ég reyndar hissa að sjá McQueen sykurhúða rétt aðeins það sem gerðist þarna í raun. Eitthvað segir mér samt að verðlaunaveitendur hefðu aðeins bakkað út með þorið sitt ef endirinn hefði verið öðruvísi trítaður en hann var. Heldur hefði ég ekkert sett út á það að leyfa sögunni að öðlast meiri þyngd í tímahoppinu ef hún væri aðeins lengri. Mín vegna hefði hún pottþétt þolað það. Ég get ekki alveg sagt að ég hafi beinlínis „fundið“ fyrir öllum þessum tólf árum.

Allavega, 12 Years a Slave er ekki flekklaus en gallar hennar draga ekkert ofsalega mikið úr kraftinum sem hún kemur með, þessari sérkennilegu fegurð sem tæknivinnslan finnur í ljótleikanum og ótrúlegu tengsl leikstjórans við fólkið á skjánum sem augljóslega hefur lagt mikið traust til hans. Þetta er kvikmynd sem skarar fram úr og skilur áhorfandann eftir með minningar og pælingar sem munu seint hverfa. Hvað sem McQueen gerir af sér næst, og hvaða leikurum hann mun líkamlega og andlega misþyrma, hlakka ég til að sjá það, eins blómalega og það hljómar.

atta
Besta senan:
Þær eru þrjár. Hengimann, þegar Fassbender yfirheyrir Northup og svipustundin mikla.

Sammála/ósammála?