Dallas Buyers Club

Trikkið við það að vera ekkert yfirgengilega fjölbreytt týpa sem leikari er að velja réttu hlutverkin sem spila með týpuna aftur og aftur en bara frá mismunandi sjónarhornum. Matthew McConaughey hefur masterað þennan galdur og öðlast gæðasmekk á handritsvali sem sjaldan sýndi sig áður en þessi áratugur byrjaði. Ekki hef ég þó rekist á marga sem hefur nokkurn tímann líkað of illa við hann og Texas-rætur hans hafa nýst honum núna frá öllum hliðum en samt kemur kappinn á óvart. Hann er ekki sá fjölbreyttasti þarna úti en maðurinn kann að leggja sig fram af bókstaflega öllum líkama.

Ég hafði hvergi séð hann betri áður en Killer Joe kom út, sama með Mud og fannst hann algjörlega trompa sig með 10 mínútna skjátíma í The Wolf of Wall Street. Í Dallas Buyers Club (sem var í raun gerð á undan Wolf, en jæja) er hann núna fullæfður í afslappaða kúrekanum sínum en núna 20 kílóum (!!) léttari, með alnæmi, fordóma, blörraðan sjarma og í sveittri neyslu. Allt þetta fylgir nánast öllum þeim standördum sem týpísk Óskarsrulla stendur undir, nema þetta er alls ekki hin týpíska Óskarsmynd, hvað sem það í rauninni segir, og Matthew McCon-Air hefur aldrei átt verðlaunin meira skilið, eða umtalið.

458404614_1280Hann finnur í sér mjög óaðlaðandi karakter sem vinnur sér að vísu fljótlega yfir á manns eigið band, og í mynd sem segir söguna mjög beint og veruleikatært með fókusaðri, fullorðinslegri nálgun. Ron Woodroof, sem Matti leikur, er keðjureykjandi, þröngsýnn hommahatari við fyrstu kynni og sagan rekur það í gegn hvernig hann glímdi við HIV og dauðinn nánast kominn til að hirða hann. Hann reyndi að hugsa að mestu um eigið skinn en lærði svo að hjálpa öðrum (ekki geispa!) og endaði með því að öðlast einhvern tilgang í lífinu, sem upphaflega leit aldrei út fyrir að svo gæti farið. Þessi þróun er býsna mögnuð, og sannfærandi alla leið. Lítið er verið að drama þetta upp, og þurfti þess heldur ekki. Heldur er hún samt ekkert niðurdrepandi í neinum köldum realisma. Merkilegt en satt, að þá er myndin nokkuð fyndin einnig. McConaughey væri ekki í gírnum öðruvísi.

Leikararnir halda öllu hátt á lofti, og gott handrit, en tilþrifin og samspil aðalleikaranna er það sem mestu máli skiptir. Það er mikil sál sem skín gegnum þá helstu, þó kannski taki tíma fyrir Matta að finna sína, en sú sem líklega talar best fyrir hönd áhorfandans er Jennifer Garner (rétt upp hönd sem man hvaða rómantísku mynd þau léku saman í!). Aldrei hef ég séð hana frábæra í mynd áður, eða þætti. Bara… ever, og jarðar þar af leiðandi þær fjórar góðu mínútur sem hún átti á móti Leonardo DiCaprio í Catch Me if You Can. Oftast er hún fín, yfirleitt krúttleg, en hér hefur hún eitthvað til að vinna með án þess að þurfa að gera alltof mikið. Hennar sympatík og samkennd gagnvart McCon-stantine og Jared Leto (velkominn aftur, mar!) er skrifuð í takt við hvernig áhorfandinn sér þá. Hún er yndi, en Leto er sérstaklega trúverðugur og framúrskarandi. Ég hef keypt þennan mann í öllu sem hann hefur leikið í áður en sjaldan betur en sem elskulegasta transa ársins, drengurinn alveg hverfur inn í hlutverkið.

Tekið hefur annars svakalegan tíma að koma Dallas Buyers Club upp á tjaldið, mörg ár jafnvel. Handritið fór í gegnum endalausar breytingar og framleiðendur, leikarar og leikstjórar flökkuðu því á milli eins og sprautunálirnar í sögunni. Í lokin var hún gerð fyrir sama og engan pening en þegar ég lít á hversu fullkomin „frammistöðumynd“ hún er, bæði fyrir McConaughey og Leto, þá finnst mér næstum því ótrúlegt að þessi sanna saga hafi ekki verið skrifuð með þá fyrirfram í huga. Raunasagan er merkileg, smekklega þjöppuð og kvikmynduð með ásættanlegum krafti, engum sturluðum samt, kannski því oft er svona stutt í léttari tón.

Þó myndin sé ekki endilega slípuð frá öllum hornum en leikurinn er gallalaus og stundum er það meira en nóg þegar efnið er svona sterkt og umfjöllunarefnið athyglisvert. Ein af 20 bestu myndum ársins 2013.

atta

Besta senan:
Breytt hjarta í búð

Sammála/ósammála?