Lone Survivor

Vitiði, Peter Berg þurfti ekkert að skammast sín svo mikið hérna hitt í fyrra þegar hann sendi frá sér Battleship, eina vanmetnustu sorpskemmtun sem hefur komið út í mörg, mörg ár. Alls ekki vinsæl skoðun en flestir sem berja Lone Survivor augum hljóta að sjá hana í alversta falli sem vitsmunalegt stökk upp fyrir leikstjórann frá rándýru bátabrellumyndinni. Þær tvær eru annars vegar blóðtengdar á vissan hátt því önnur væri ekki til án hinnar.

Lone Survivor er mynd sem var búin að vera á teikniborðinu hjá Berg í svolítinn tíma, áður en Battleship kom til greina. Stúdíóið leyfði honum að kvikmynda þessa sögu í skipti fyrir það að gera einn „blockbuster“ fyrir sig í staðinn. Hann stóð við sitt, báturinn sökk og fúlt finnst mér heldur fúlt hversu harkalega hann tók skellinn að sér sem sú mynd fékk en ég býst við að það góða sem kom út frá því að floppa með svona stórri mynd var vilji hans til að gera eitthvað smærra áfram í framtíðinni. Þá kom skrefið að grípa draumaverkefnið sem beið og gera eins stóra „litla“ mynd og hann gat; persónulega, átakanlega, intense, mikilvæga og grípandi. Þarna tæki ég samt burt eitt og hálft lýsingarorð miðað við útkomuna.

Berg hefur lengi slegist um það við Bay um hvor stendur sig betur í því að koma betur út í augum bandaríska hersins en að þessu sinni sést að verkefnið er leikstjóranum mjög kært og segir áhugaverða og spennandi eftirlifendasögu – en samt ekki ÞAÐ spennandi. Myndin er náttúrulega byggð á bók hermannsins sem hún fjallar um, Marcus Luttrell, og titillinn sér strax um að spoila henni fyrir manni betur en nokkur texti. En Berg virðist þó allavega hafa vandað sig, valið trausta leikara og með hermannahjartað á réttum stað.

Hængurinn er bara sá að Berg er enginn úrvals kvikmyndagerðarmaður, og Lone Survivor sannar mest af öllu bara hvað hann getur verið dúndurgóður hasarleikstjóri, sem eru góðar fréttir, nema hann reynir að vera aðeins meira. Þegar myndin reynir að vera „mikilvæg“ verður hún umtalsvert linari og meira í áttina að vera predikunarleg hetjudýrkun með söltuðum þjóðarrembingi. En þannig ættu flestir að sjá hana sem eru ekki í beina „‘Merica, F**k Yeah“ markhópnum.

Án þess að hafa lesið bókina finnst mér sömuleiðis mjög svo áberandi að brjáluð dramatísering hefur átt sér stað í þegar mjög merkilegri sögu – aðeins á völdum svæðum. Lokaþriðjungurinn er t.a.m. voða flýttur, í örvæntingarfullri neyð til að rampa upp spennuna og tjasla saman einhverjum klæmax. Ég er alls ekki á móti listrænu leyfi en viðbættu kaflarnir væru nokkrir nógu langsóttir ef þetta væri ekki partur af sannri sögu.

Fyrri hlutinn er nauðsynlega hægur en þurr og dæmigerður því persónufókus er ekkert voðalega mikill, og þýðir lítið að tengja andlitin við önnur nöfn en leikaranna, fyrir utan að sjálfsögðu Mark Wahlberg í titilhlutverkinu. Hann er frekar góður og hefði kannski átt leiksigur í öflugri mynd – þ.e.a.s. meira dramatískt fullnægjandi mynd. Þunnir prófílar breyta því ekki að allir aðrir standa sig meira en fínt, þar á meðal Taylor Kitsch, Emile Hirsch, Ben Foster, Eric Bana o.fl. Þeir fá verulega að grípa mann í þessari mögnuðu hasarmiðju sem hún hefur.

Þegar allt fer í fokk og myndin breytist í mini-Black Hawk Down, bara betri. Realismi fýkur stundum oft út af kortinu þegar Berg byrjar að lifa sig inn í ofbeldið en ljótleikinn kemur manni betur á staðinn, og þessi tiltekna endursögn leyfir honum að snúa út úr ýmsum klisjum stríðsmynda. Leikstjórinn sér jafnframt til þess að fundið sé vel við með sársaukanum í aðstæðunum, og þegar menn eru króaðir af er meira en bara kúlnahríðir sem geta hægjað á. Þessir tilteknu sérsveitarmenn fá einkarétt á orðinu grjótharðir. Ái.

Þetta er sérstök niðurstaða. Klárlega var hægt að gera kröftugri mynd, og úr þessari skítsæmilegu en flottu mynd sem eftir stendur er innifalin ein suddageðveik hálftímalöng stríðshasarmynd sem er næstum því peningana virði ein og sér.

Lone Survivor segir söguna sína með virðingu og fyrir Luttrell er þetta aðdáunarvert – en skelþunnt – minnismerki um hetjudáðir, bræðrabönd og lífsviljann (engar áhyggjur þó, ef maður fattar það ekki er þessu sturtað oní mann), almennt fínasta spennumynd sem kemur kjarnakaflanum glæsilega til skila og með mátulegri hörku. Þeim sem finnst það nóg sjá alls ekki eftir þessum tveimur tímum.

sex

Besta senan:
John Carter Must Die

Sammála/ósammála?