Where the Wild Things Are

Það er ómögulegt að taka 300 orða (ekki blaðsíðna, ORÐA…) barnabók og búa til 90 mínútna kvikmynd án þess að tuska hráefninu til, t.d. bæta við aukaplottum, breikka úr smáköflum, alls konar! En líður mér eins og Spike Jonze hafi bara lítið sem ekkert pælt í öllu svoleiðis og reyndi að vera eins trúr bókinni hans Maurice Sendak og hann gat. Sú niðurstaða virðist vera frábær og nett sérstök stuttmynd, en því miður dregin á langinn um heilan auka klukkutíma.

Ef orðið „meandering“ á einhvern tímann vel við kvikmynd, þá set ég það á þessa. Hún byrjar á hárréttu nótunum en síðan kemur út eins og öll þróun staðni í stað um leið og aðalkarakterinn Max fer og hittir þunglyndu og ekkert-svo-rosalega villtu skepnurnar. Þá verður myndin ekki aðeins einhæf, heldur viðburðarlítil, drollandi og inn á milli álíka skemmtileg eða hugljúf og hárköggull í auganu. Annaðhvort sjáum við Max og nýju vini hans vera að leika sér, rífast eða veltast úr depurð.

Ég endurtek: Þau leika sér… eða rífast… eða drekkja sorgum sínum með meiri sorgum. Án gríns, ekkert breytist eftir það og þannig heldur sagan áfram. Ég kann yfirleitt að meta það þegar einfaldleiki er rétt nýttur en þetta rúllar alveg fram af. Það er mjög takmörkuð framvinda, lítil sem engin persónuþróun, og, það sem verra er, hvorki söguþráður né kætandi andi til að halda athygli manns. Þemun og undirtónar eru eflaust eitthvað þarna í þessu sem fylgir þroskasögu Max, en til þess að maður eigi að nenna að stúdera þær þarf eitthvað annað til að grípa utan um líka. Kannski þarf ekkert endilega að kvikmynda allar barnabækur á jarðríki. Hefur einhver spáð í því?

Jonze reynir að láta okkur vera annt um persónurnar eða í það minnsta búa til spegilmyndir í gegnum þær sem allar tengjast Max á einhvern máta, og ég er viss um að þeir sem ólust upp við bókina eru þeir líklegustu til að finna fyrir léttu táraflóði, en það gerðist alls ekki í mínu tilfelli. Það sem frekar hélt takmarkaða áhuga mínum var útlitið, stíllinn og segjum fáeinir góðir brandarar. Ég er jafnvel hissa yfir því að geta ekki sagt neitt almennilega jákvætt um þá frábæru leikara sem lána raddir sínar því karakterarnir voru flestir svo hryllilega óþolandi, en enginn þeirra var eins slæmur og strákormurinn Max, þó það sé vissulega tilgangurinn í þroskasögunni Ég fatta þó ekki hvað Jonze sá svona fallegt við tónlistina sem hann notar. Hún setti eiginlega bara ennþá leiðinlegri svip á myndina. Sofia Coppola hlýtur að elska hana.


(Svo… mikið… ekkert!)

Jonze hefur lengi verið ráðgáta sem ég hef fílað meira heldur en ekki. Being John Malkovich var stórkostlega júník frumraun en Adaptation er nálægt því að vera hans ótoppandi meistaraverk. Í þriðju tilraun kemur síðan allt annar kvikmyndagerðarmaður (vonandi hefur það ekki endanleg áhrif á hans feril að slíta sig frá Charlie Kaufman). Hugsunin að taka barnabók og gera fullorðinslega barnamynd handa þeim eldri er athyglisverð þangað til orðafjöldinn í bókinni kemur aftur upp í minnið.

Það er spurning hvort Where the Wild Things Are sé nokkuð kjörin barnamynd, en ég held samt ekki, því einhvern veginn finnst mér hún vera of súr og óþægileg fyrir börn, og stundum jafnvel of áköf í tón (eins og t.d. þegar nokkur skepna að nafni Carol (halló James Gandolfini) tekur sín reiðiköst, eða þegar skepnurnar rétt svo kaffærðu Max í einni stórri hundahrúgu). En er hún þá fyrir fullorðna? Erfitt að segja.

Hún er svo þunn, sjarmalaus, tilgerðarlega teygð og niðurdrepandi. Einu hóparnir sem ég get ímyndað mér að eigi eftir að fíla hana eru þeir sem elska teygðar art-myndir og þeir sem lásu bókina í æsku eða fyrir fimm mínútum. Það er samt spurning hvort Jonze sé ekki bara til í að búa til sérstaka Director’s Cut-útgáfu sem væri þá ekki nema 30-40 mínútur í heild sinni. Þá yrði hún miklu betri og eflaust talsvert flottari aðlögun á bókinni.

Ég er heldur ekki að sjá það hvernig myndin gat kostað $100 milljónir. Í hvað fór þessi peningur?

fjarki

Besta senan:
Let the Wild Rumpus start!

… þó ég viti ekki alveg af hverju.


(Þessi grein er upphaflega skrifuð þann 19.11.2009)

Sammála/ósammála?