Her

Þótt ótrúlegt megi virðast er ástarsaga milli manns við hugbúnað með gervigreind (svona gíga-uppfærð, sexí útgáfa af Makk-dálætinu Siri) einhver sú jarðbundnasta og mannlegasta mynd sem Spike Jonze hefur gert hingað til. Líka sú hreinskilnasta.

Fyrir alla sem þekkja ekki manninn á bakvið vélina hljómar þessi mynd eins og brandari, eða í betra falli Arrested Development-brandari, og má bóka það að hún sé á köflum ruglað fyndin en lágstemmda dramað er það sem lætur hana virka. Með þessum óvenjulega en yndislega sjarma mun Her bókað opna aðdáendahóp Jonze í framtíðinni en ólíklegt er að hún vinni marga á sitt band sem voru lítið sem ekkert hrifnir af fyrri verkum hans. Ég tel samt ekki Björk-vídeóin og Where the Wild Things Are með, útaf ólíkum ástæðum, en sem eigin handritshöfundur gæti hann varla betur staðið á eigin fótum í þetta sinn.

Her hefur helling að segja um fólk, nútímasambönd, tæknina og flýtur á einlægri, einfaldri frásögn. Ég verð hissa af Jonze gerir einhvern daginn betri mynd heldur en Adaptation, án Charlie Kaufman, en Her er engu að síður unnin af blómstrandi væntumhyggju og hefur Jonze aldrei verið persónulegri með skrif á sögu, enda sú fyrsta sem hann hefur frumsamið frá byrjun til enda.

Hefði leikstjórinn gert þessa mynd eftir tíu ár væri hún samt álíka fersk, einstök og relevant í samtíma sínum. Handritið hugsar lógískt fram í tímann í tengslum við hvert samskiptatæknin stefnir en byggir svo skemmtilega úthugsaðan heim í kringum hana (takið t.d. eftir hvað allir eru alltaf einir í margmenni). Hún hittir alveg á naglann með hversu órjúfanleg tengsl við tæknióða fólkið myndum alltaf við græjurnar okkar. Það er að sama skapi með ólíkindum hvernig hún fær mann til þess að „investa“ í alvörunni með frumlegasta ef ekki súrasta skjápari kvikmyndaársins.

Annars hef ég, og eins með örugglega marga aðra, velt því lúmskt fyrir mér tenginguna á milli þessarar myndar og Lost in Translation (sem er önnur ljúf dramedía um einmanaleika og tengingar – og er æði). Það er skiljanlegt miðað við það að Jonze var eitt sinn giftur Sofiu Coppola, og hún skrifaði hann inn í sitt eigið handrit sem mjög önnum kafinn og fjarlægan maka – leikinn af Giovanni Ribisi. Í Her gerir maður ráð fyrir því að leikstjórinn hafi skrifað mikið af sjálfum sér í andfélagslega ljúflinginn sem Joaquin Phoenix leikur, sem er sjálfur nýskilinn og á hægum batavegi eftir hjónaband við spúsu sína sem rólega fór að fjarlægjast.

Allavega…

Kannski eru þetta óhjákvæmilegu afleiðingar þess þegar tveir þekktir og nokk svipaðir listamenn sundrast og skrifa sögur sínar í sitthvoru horninu. En þegar báðar eru settar saman er varla hægt að sjá ekki óviljandi þessi merki, án þess að þau þýði í rauninni neitt. En svo finnur maður alltaf nýjar litlar tengingar. Sama aðalleikkona er augljóslega í báðum myndum, sem eru undir sterkum austurlenskum áhrifum. Her gerist í Kaliforníu, en útiskotin voru öll tekin í Tokyo og Shanghai. Staðsetningarnar eru annars vegar það sem gefa myndinni ákveðinn „framtíðartón“ ef svo má segja. Tónlistareyrað sem hún hefur er ekkert síður aðlaðandi.

Ég kann sérstaklega að meta það í Her hvernig hún leyfir sér aldrei að dvelja of mikið á (semí-)sci-fi hlutanum, heldur dílar hún bara við þau element eins og ekkert sé hverdagslegra. Jonze talar aldrei niður til áhorfena sinna og hlutirnir eru aldrei varpaðir út í handritinu að óþörfu heldur bara layeraðir inn í náttúrulegan díalog eða koma eðlilega fram í gegnum önnur samskipti.

Phoenix hefur dílað við marga djöfla í lífinu en styrkleikar hans sem leikari hafa sjaldan verið aðdáunarverðari í sinni vinnu og eftir að eitthvað losnaði í hausnum á honum. Síðast var hann átakanlega góður í The Master og í þessari mynd tekur hann annan – og talsvert blíðari – snúning en gefur ekkert síður eftir. Phoenix er að mestu einn út alla myndina burtséð frá litríkum liðsauka sem kemur og fer í kringum hann, fyrir utan að sjálfsögðu „samleikinn“ sem hann á við röddina hennar Scarlett Johansson. Stýrikerfið Samantha, sem er annar helmingur rómantíkinnar, hljómar eins og hún en aldrei einu sinni sést leikkonan neins staðar. En samt finnur maður fyrir henni, aðallega í gegnum það hversu vel Phoenix nær að selja alla samveruna með hrifningu sinni. Svona frammistöðu má alls ekki vanmeta. Ekki samt pæla of mikið í því fyrirfram eða á eftir hvernig þau „geraða“, því þau gera það. Stunukvótinn sem frú Johansson hefur gefið handóðum unglingum á árinu 2013 verður makalaust langlífur. Sáu ekki annars allir Don Jon?

Amy Adams er alltaf dásamleg og vanalega ein sú snjallasta þegar kemur að hlutverkavali. Það er ekkert neikvætt um hana að segja í Her og litla kemistrían sem hún á með Phoenix er óskaplega trúverðug og sterk. Vandinn við hlutverkið hennar og hvernig það er skrifað er að það kortleggur nánast alveg beint fyrir manni hvert hún og myndin stefnir með hana, og það setur ákveðinn fyrirsjáanleika í hana. Ef út í það er farið er niðurstaðan á stærsta vandamálinu í lokin, eða betur sagt það sem verður um þróunina, pínu máttlaus og hefði mátt leysa með aðeins ósnyrtilegri hætti. Síðan dettur myndin örlítið á langinn þegar verður stöðugt sýnilegra hvert hlutirnir fara, en síðan þegar hún klárast er samt eins og flæðið hafi allt verið þess virði.

Chris Pratt þarf annars ekki að gera annað en að sporta sömu perramottuna og Phoenix og ganga í svipuðum klæðnaði að auki, og hann er lúmskt fyndinn, sama hvað hann segir. Tölvuleikjafígúran sem Spike sjálfur talsetur er líka stórsnilld („She‘s fat!“), Portia Doubleday er æði sem þátttakandi í einum óvenjulegasta trekanti allra tíma en því miður er enginn sem rokkar sinn stutta tíma betur en óséð Kristen Wiig á hinum endanum í símakynlífsatriði. Hilaríus!

Hver og ein þessara leikaraeininga kortleggja skýrt og betur út lífið hjá aðalpersónunni, Theodore. Hann er maður sem hefur þvingað sjálfan sig í félagslega og veraldlega einangrun, og á í einhverju basli með að tína sér saman aftur eftir skilnaðinn. Hann er eðlilegur maður með eðlilega galla en kostirnir eru magir; hann er næmur, kurteis og kvenlegur (eins og Pratt orðar það) enda starfar hann við það að skrifa persónuleg ástarbréf til ókunnugs fólks. Það er allt partur af mjög skerí raunsæisádeilu. En kannski vegna þess að söluvaran sem maðurinn laðast að sé einangruð á sinn veg á að hann auðvelt með að laðast að henni. „Stýrikerfið“ Samantha er svífandi og stöðugt þróandi, vaxandi meðvitund læst inni í hörðu drifi. Í gegnum hana lærir Theodore að verða aftur betri útgáfan af sjálfum sér og byrjar að sjá heiminn í nýju ljósi út frá sjónarhorni forrits sem vill endalaust læra um nýja hluti og stækka stafræna heilabúið.

Gegn öllum náttúrulögmálum er Her ein af betri ástarsögum sem hafa komið út í mörg ár; ljúfsár, sérvitur, fyndin og elskulega lítil. Hún er mynd um tæknina, samskipti, mynd um þörfina til að „tengjast,“ mynd um að læra og horfa áfram svo lengi mætti röfla áfram. Hljómar sjálfsagt allt mjög tilgerðarlega og leiðinlega, og mörgum á sannarlega eftir að finnast hún það, en hjartað og raunsæið verður hvort tveggja millimetrum stærra hjá þeim sem eru á hinu málinu. Tónlistin frá Arcade Fire er líka svolítið gúrme, gleymum því ekki…

atta

Besta senan:
Þriðja hjólið. Og kattarkonan.

Sammála/ósammála?