Jack Ryan: Shadow Recruit

Ef skimað er í gegnum þá bókatitla um CIA-greiningarmanninn Jack Ryan eftir Tom Clancy heitinn er strax auðséð að þeir svölustu hafa greinilega allir verið kvikmyndaðir. Glætan að verði t.d. gerðar hasarmyndir með nöfnum eins og Red Rabbit, The Bear and the Dragon eða The Cardinal of the Kremlin… Kannski spilast þetta eitthvað inn í ákvörðunina að frumsemja nýja sögu um karakterinn í stað þess að taka upp gamla Clancy-bók, en fáir geta hvort sem er sagt að það hafi verið einhver vælandi eftirspurn fyrir endurkomu Ryans. Og verður sjálfsagt aldrei.

Þegar hann steig fyrst upp á hvíta tjaldið var hann ungur, grannur Alec Baldwin árið 1990 (í klassíkinni The Hunt for Red October), eftir það leysti Harrison Ford hann af hendi og fékk meiri hasarfókus, bæði skiptin árin ’92 (Patriot Games) og ’94 (Clear and Present Danger) en hvarf svo þangað til ákveðið var að yngja hann mun meira upp í forsögu- eða óbeinni reboot-mynd árið 2002, The Sum of All Fears. Þá kom Ben Affleck og túlkaði manninn á því stigi þegar pólitísku ævintýri hans voru rétt að byrja. Þessar fyrstu þrjár voru allar í góðu lagi, sú fjórða ekkert sérstök og nú þegar rykið er löngu búið að setjast og karakterinn nánast fallinn í gleymsku hjá bíóáhorfendum nútímans er AFTUR ýtt á endurræsingarhnappinn, en svo mistekist. Vandræðalegt.

Ég fatta alveg tilganginn að „James Bond-a“ aðeins upp þessa seríu en kannski þurfti bara svona mikinn aukinn spennukraft til að gera Jack Ryan: Shadow Recruit að einhverju merkilegra og djúsaðra. Þessi njósnaþriller er svo dæmigerður að það er heilaskaðandi að kryfja hann of mikið, en í besta falli ásættanlegur; tæknilega vel unninn, ágætlega leikinn og reglubundin eftir pöntun. Þetta veltur helst á því hvort viðkomandi sé í leit að berþunnum pólitískum trylli með litlu „auka“ en skaðlausu afþreyingargildi, því ef svo, þá skilar Kenneth Branagh – sem leikstjóri – öllu sem hann ætlaði sér. Myndin er á móti auðgleymd, ekkert svo spennandi og hamrar sig niður með útreiknanlegum stefnum og klisjum.

Bíóhetjan Jack Ryan virkar ekki ef pólitíski umheimurinn í kringum hann er ekki uppfærður. Paramount-stúdíóið hefur reynt að breyta honum í bandarískt svar við Bond (eða Bourne) með Captain America blönduðum inn í ef hann hefði bara fengið hetjuvaxtarlagið en enga ofurkrafta. Hingað til hefur það samt ekki verið pínlegra en hér í hans tilfelli og Shadow Recruit fremur þau skýru hryðjuverk að ganga alltof langt með þjóðarhjarta Ryans í aðallega upphafs- og lokasenu myndarinnar. Myndin hefði bókstaflega engu tapað á því að sleppa þeim alfarið eða endurskrifa. Í rauninni er enginn sérstakur tilgangur í því að rekja origin-sögu Ryans vegna þess að hún kemur hvorki aðalsöguþræðinum við né kemur hún með athyglisverða innsýn inn í hann sem karakter. En þetta er nú maður sem vaknar með vonda tilfinningu í maganum þegar eitthvað hroðalegt hefur gerst í heimalandinu.

Það eru vottar af áhugaverðum samtölum og manneskjulegri karakterdýpt sem koma manni inn í hausinn á taflpeðunum sem stjórna plottinu, en þetta týnist að mestu í bröttu en standard upplýsingarflæði og enn meira standard lokakafla. Heldur má ekki gleyma drápsatriði sem virðist beint eiga einhverjar rætur að rekja til Casino Royale, sem væri minna mál ef Branagh væri ekki innst inni að reyna að gera eitthvað fullsvipað.

Chris Pine er ekkert meira en fínn sem Ryan, skárri en Affleck (þó hann hafi verið í aðeins sterkari mynd – pottþétt út af Morgan Freeman) en á lítinn rétt á samanburði við hina tvo. Pine reynir að setja sinn eigin stimpil á hetjuna, enda farið með hana í aðra átt en áður en leikarinn gerir lítið nýtt við sína hæfileika og gefur persónunni engin minnisstæð einkenni. Handritið býður heldur ekki upp á nægilega útgeislun fyrir hann og hvorki hann né kærasta hans, sem er leikin af Keiru Knightley, gefa myndinni púlsinn sem hún þarf. Bandaríski hreimurinn hjá Knightley sleppur en hlutverkið gefur henni bara tvær stillingar, mesta lagi.

Branagh kvikmyndar sjálfan sig í býsna svölu ljósi – sólgleraugu innifalin og allt – sem illmennið og kemur hann fínt út með það sem hann hefur, en bara ef það væri svo miklu meira. Kevin Costner er fantagóður þar sem hann er, fyrir utan það að gera ekkert sérlega mikið annað en að vera móralska fyrirmyndarfígúran, og gat þess vegan rétt eins verið nýstiginn af Man of Steel-settinu. Það gera í rauninni allir tiltölulega lítið í myndinni nema akkúrat Pine, sem hleypur af sannfæringu frá punkti A til B en án þess að maður efist um að hann nái ekki langsóttu markmiðum sínum.

Sem leikstjóri myndarinnar sinnir Branagh sinnir öllu sínu af temmilegum eldmóði en ekki alveg fundið milliveginn á milli þess að gera old-school þriller og bara þráðbeina klisju sem fær allt „lánað“ frá gamla lagernum. Með nýrri endurræsingu hefði þurft að taka meiri áhættu – sem aldrei varð úr. Myndin hefur flotta keyrslu og stíl og það er það sem bjargar henni frá því að eiga heima á sömu hillu og Alex Cross, Jack Reacher eða The Bourne Legacy, svo eitthvað svipað meti sé nefnt. Ég gef henni kannski forskotið fyrir ögn skarpari stefnu og betri spennutónlist en vanalega finnst í svona myndum. Hasaratriðin eru alltílæ, prýðilega samsett og ekki algerlega púðurslaus, en þegar spennuna vantar er auðveldara að dást bara að tónlist og tæknivinnslu en að sogast inn í þau.

Jack Ryan: Shadow Recruit krefst þess bæði að áhorfandinn noti heilann og gleymi honum síðan á öðrum tímapunktum. Hún gæti þjónað hörðustu Clancy-unnendum, og það er jákvæðasti tilgangurinn sem ég finn. Af þeim fimm myndum sem hafa verið gerðar um Jack kallinn er þessi sú latasta og sísta, og bæði hún og leikararnir í henni – sérstaklega þessi á bakvið tjöldin – áttu betra skilið en mynd sem þarf pínu að afsaka áður en hægt sé að mæla með henni handa nokkrum.

fimm
Besta senan:
Knightley og Branagh lesa í hvort annað.

Sammála/ósammála?