Hoffman farinn, Allen dauður?

Seinasta helgi var algjör ringulreið fyrir vissa kvikmyndaunnendur og frusu þeir flestir í sameiningu þegar barst út að Philip Seymour Hoffman hafi farist svo skyndilega, og enn svo ungur (já, ungur!). Sjokkið var ótrúlegt og enn ótrúlegra þar sem þetta kom rétt eftir að enn einu ógeðfellda ljósinu var varpað á Woody gamla Allen. Að þessu sinni einhverju sem hann getur hugsanlega aldrei framar stigið út úr.

Þetta með Allen hófst eftir að fyrrum stjúpdóttir hans, þ.e. dóttir hinnar ringluðu Miu Farrow, gaf út opið bréf þar sem hún greindi frá kynferðisofbeldi af hendi Allens. Hvort þessi Dylan Farrow sé metnaðarfullur lygari eins og leikstjórinn segir eða ekki er spursmál. En bréfið var opið, detailað og spyr maður sig auðvitað hvers vegna hún gengi svona langt með upplýsingar um sjálfa sig er markmiðið væri eingöngu það að stinga þegar gallað mannorð mannsins. Ég er yfirleitt þessi „saklaus uns sekt er sönnuð“ gæi og reyni að aðskilja listina frá göllum listamannana, sama hversu ógeðfelldum. Annars myndi ég aldrei horfa á myndir frá t.d. Lars Von Trier, Werner Herzog, Polanski og mörgum mörgum fleirum. Woody hefur alltaf verið perralegur, skrýtinn og pínu sjúkur en góðu myndirnar margar afar mikilvægar. Hins vegar fer það að blörra svolítið línuna þegar maður skoðar þetta tiltekna mál og sérstaklega þegar svona umræða myndast í kringum mann sem hingað til er ætlunin að hlæja af.

Það er erfitt að hlæja að honum þegar vitað er hann gat verið að misnota sjö ára stúlku, og þetta varpar allt öðru ljósi á dökka, „ófyndna“ tímabilið hans frá ’87 til ’93 (Dylan er fædd ’85). Tíminn hlýtur að leiða í ljós hvort einhverjir leikarar neiti að vinna með honum, ever. Hins vegar er hann tilnefndur til Óskars í ár (og á hann tilnefninguna næstum því skilið) og fara núna alls konar móralskar hugsanir að sveiflast þegar maður horfir á hann á hátíðinni. Ljótt dæmi allt saman, og núna verður enn erfiðara fyrir mig að verja góðu myndirnar hans við móður mína sem alltaf hefur kunnað illa við hann. Og ég sem ætlaði alltaf að sýna henni Midnight in Paris. Glætan að það gerist núna. „Hann er dauður fyrir mér,“ orðaði góðkuningi minn til að kóróna allt.

Svo komu fréttirnar af Hoffman, og sorgmæddara þykir mér að segja að þetta kom mér ekkert sérstaklega á óvart. Hoffarinn hafði lengi glímt við vímuefnavanda og kvöldið sem hann lést svo skyndilega var hann staddur í íbúð með 13 kíló af heróíni. Grey maðurinn, þar að auki eini leikari sinnar kynslóðar sem átti allan einkarétt á orðinu meistarinn (og Greifinn, skv. The Boat that Rocked). Eftir að hann lést sprakk Facebook feed-ið mitt með statusum þar sem sömu orðin komu alltaf aftur og aftur upp: „Einn af mínum uppáhalds.“ Innilega sammála.

Hoffman kynntist ég fyrst með asnalegu glotti í The Big Lebowski, eftir að Tara Reid bauðst til að sjúga Dúddann fyrir þúsund dali. Seinna var hann oft réttilega merktur sem „krípí, feitur gaur“ en reis að mínu mati fljótt upp úr því, en meira að segja þau skipti sem hann var typecast’aður var hann oftast frábær. Reyndar var hann alltaf frábær, og allir sem sáu sem flest með honum vita að allt þetta hrós er ekki bara sagt vegna þess að hann er nýlátinn. Hann var algjörlega einn af þessum 10 bestu starfandi í dag og meðal 5 á sínum aldri. Hann var ekki alltaf þekktur fyrir aðalhltverk en nafn hans var ákveðinn gæðastimpill og jafnvel tókst honum oft að bjarga sér út úr slakari myndum, og eignað sér t.a.m. rómantíska formúlumynd eins og Along Came Polly. Þar gerði hann eitthvað skemmtilegt með hlutverk (ekki-svo) týpíska „besta vinarins“.

Hans hápunktar voru ótrúlega, ótrúlega margir, og lengsta sem leið á milli Óskarstilnefninga hjá honum voru fjögur ár, og fyrir Capote-rulluna eina og sér – þar sem leikarinn refsaði á sér raddböndin – greip hann hvorki meira né minna en 23 mismunandi verðlaun. Þetta er örugglega eitthvað sem er efni í upptalningarlista en hans ógleymanlegu stundir eiga heima t.d. í (dragið nú andann djúpt) í Magnolia, Almost Famous, Doubt, Mary and Max, The Master og hans stærsti, magnaðasti, vanmetnasti leiksigur kemur úr Synecdoche, New York. Það kemur mér samt ekki á óvart hversu fáir hafa séð hana og margir hafa hatað hana, enda súr, þung hugleiðsla Charlie Kaufman um sköpun, dauðleika og þunglyndi. En algjörlega brilliant, og Hoffman fannst mér aldrei betri. Heldur skal ég samt ekki gleyma þeim þremur æðislegu mínútum sem hann stal í Ricky Gervais-myndinni The Invention of Lying.

Unnendur góðra leikara mynda sér ákveðnar tengingar við raunfólkið án þess að þekkja það neitt. Vitanlega get ég ekki ímyndað mér hvernig þetta stakk fjölskyldu Hoffmans (á öðrum nótum get ég sagt það sama um Allen), en persónulega tók ég þetta oggulítið nærri mér á svona virðingarleveli, og leitt er að fá ekki að sjá hann negla enn fleiri ótrúleg hlutverk næstu 10-20 árin en a.m.k. verður eitthvað hægt að sjá hann á næstunni, m.a. í Mockingay. Ef einhvern tímann er rétti tíminn til að gramsa upp góðar kvikmyndir sem fólk hefur aldrei séð með þessum leikara þá er það núna. Legacy-ið hans mun lengi lifa, og má ekki láta framhjá sér fara litlu titlana eins og Owning Mahowny, The Savages og Flawless – sem er ekkert sérstök mynd en hann er æði, dö…

Samviskusamlega getum við öll sagt að hann átti stórkostlegan feril. Það er draumur margra leikara að fá til sín díalog frá gæjum eins og Coen-bræðrum, PTA, Aaron Sorkin og Charlie Kaufman, svo fáeir séu nefndir, og enn meiri draumur að geta rúllað honum upp áreynslulaust. Skál fyrir miklum snillingi!

Allen aftur á móti þarf að svara betur fyrir sig.

Sammála/ósammála?