August: Osage County

August: Osage County er vond, vond mynd; fyrirlítanleg en of vel leikin til að kallast sorp. Skólabókardæmi um sjálfhverft fjölskyldudrama þar sem allir eiga bágt, allt er ömurlegt og fólk sem erfitt er að þola gerir ekki annað en að rífast og skjóta á hvort annað með brýndum orðum. Og þær örfáu persónur sem eru með hreinna hjarta fá að kenna harðar á því. Þetta er svo svakalega þurr fjölskylduvæla að hún gæti allt eins verið íslensk.

Það er meira en margt í henni sem minnir stórfurðulega mikið á Hafið frá 2002, nema þessi tekur aðeins fáránlegri stefnu sem hreinsar alla sál úr sögunni. Stóra leyndarmálið sem afhjúpast er sjúkt, ódýrt og sápuóperulegt, en í senn mígur það algjörlega á einu persónurnar sem áttu betra skilið. Smátt og smátt eftir þetta bíður maður bara tæplega þolinmóður eftir því að þessar konur hætti allar að garga á hvor aðra.

Myndin er skrifuð af Tracy Letts og byggð á hans eigin leikriti. Það er auðskiljanlegt. Samtölin eru þannig keyrð, hópurinn og sögusviðið svo þétt að létt er að ímynda sér þetta koma frá sviði. Kannski á þetta betur heima þar, ég las allavega einhvers staðar að verkið hafi upphaflega verið þrír klukkutímar. Hvaða fitu sem Letts hefur skorið af persónum sínum fyrir aðlögunina hef ég ekki hugmynd um, en þær sem eftir standa fá öll einhver springandi móment en grípa ekkert, sama hversu sannfærandi og trúverðugar þær eru. Það er einhver dökkur húmor í þessu en ef leitast er eftir því er mun, mun skynsamara að skella Killer Joe á skjáinn (þar er fjölskyldan a.m.k. svo sjúk og óviðbjargandi að maður gat hlegið að því), eða sytramyndina hennar Bug. Letts átti þar betri daga en togaði ekki beinlínis að sér sama klassaða Óskarshóp að sér og hann gerði hér.

Allir í heiminum elska Meryl Streep, og réttlætanlega. Aðeins hana er svona auðvelt að dýrka jafnvel þegar maður hatar karakterinn hennar svona sterkt. Allir leikarar eru óaðfinnanlegir með allt sitt, en það er hvort eð er ekki aðalvandamálið. Ánægður var ég einnig með Chris Cooper, Margo Martindale og (auðvitað…) Benedict Cumberbatch. Hvernig sem þessi fíni leikari finnur sér tíma til svefns er handan mínum skilningi. Dylan McDermott, Juliette Lewis (hjúkk, hún er þá fundin!) og Abigail Breslin eru einhliðari en drulla. Ewan McGregor og Julia Roberts eru að vísu fantagóð, en ekki veit ég hvaða brandari það er að tilnefna hana til Óskarsins, og hvað þá fyrir „auka“hlutverk þegar hún sést jafnmikið og Streep.

Roberts lék fyrir áratugi síðan í ekkert alltof ósvipaðri mynd með svona leikhúsbrag á sér um meingölluð, mannleg lygarakvikindi sem stakk hvort annað endalaust með leyndarmálum og dramaflækjum. Hún hét Closer, og fjallaði reyndar ekki um fjölskyldukrísur heldur flæktum samskiptum tveggja mismunandi para. Handritið á þeirri mynd sýndi miklu betur hvernig á að gera mynd rétt um andstyggilegt, eðlilegt fólk. Roberts var betri í henni, myndin var betri, og þá fyrst og fremst vegna þess að hún hafði margt, margt að segja um depurð, lygar og alls konar. Það eina sem Osage County kenndi mér/minnti mig á var að börn erfiðra foreldra sjá oft eitthvað af sjálfum sér í þeim. Og já, lífið er víst lengi að líða ef maður er óhamingjusamur. Taldi það vera gefið.

Allt sem reynt er að segja hér var mun betur tæklað í myndum eins og Lone Star og Sunshine State. August: Osage County vill vera athyglisverð og grimm stúdering á bitrum kvikindum, eymd almennt en það eina sem ég sá var köld froða með leikurum sem geta eitthvað, og meira til. Ég viðurkenni þó að ég rétt hékk á myndinni í fyrri hlutanum, líklegast út af samtölunum. Maður finnur einhvern veginn fyrir því, með góðum hætti, að skarpur, orðheppinn höfundur er að rífast við sjálfan sig á blaði. Sagan og persónurnar eru bara leiðinlegar hins vegar; leiðinlegar manneskjur í klassískri merkingu og ekki vitund áhugaverðar. Þegar þetta litla „tvist“ var komið inn í söguna sagði ég mig við skilið við allt og alla í henni. Bláendirinn er líka gagnslaus.

Í rauninni eru engin sterk skilaboð með þessu öllu. Myndin er bara ljótt og þunnt gervidrama sem vill svo til að inniheldur leikara sem gefa betur ranghugmyndir um merkilegheit eða hágæði. Hún er best geymd fyrir svartsýnustu saumaklúbbana.
fjarkiBesta senan:
Chris Cooper segir tíkinni sinni að hætta að gelta.

Sammála/ósammála?