Last Vegas

Þegar Morgan Freeman, Kevin Kline, Robert De Niro og Michael Douglas eru fengnir í það að slæpast eitthvað og gamlingjast saman á samkoman næstum því rétt á örlátri forgjöf í einkunn… næstum því. Fjórir Óskarsverðlaunahafar, tæknilega séð fimm með hinni ávallt brosmildu Mary Steenburgen. Verst er að myndin sem þau völdu, Last Vegas, er ekkert löðrandi í hágæðamerkjum. Uppfull af gervirjóma, drollandi stundum í misjafnlega fyndnu handriti og klisjum sem menn á þeirra aldri ættu að vera orðnir löngu vanir. En samverustund þeirra er nýtt í æð og hún er alls ekkert leiðinleg.

Freeman er eldhress og Kline sjá um fjörið og brandarana sem best má lýsa sem litlum sketsum á meðan hinir tveir axla sér tilfinningakjarnann – svokallaða – og síðan er það Steenburgen sem sér um að bæta við einhverjum smávegis aukasjarma eins og henni er stundum lagið. Stundum. Leikstjórinn Jon Turteltaub hefur annars vegar tekið skynsama ákvörðun að gera ekki endalaust alltaf sömu Disney/Bruckheimer-hasarmyndina sem hann var fastur í. Fínt fyrir hann að minnka aftur við sig.

Ég skil að vísu ekki af hverju sumir eru alltaf svona hamrandi á því að bera þetta saman við einhvern ellismella-Hangover, kannski eitthvað tengt því að ódýra, vinsæla Þynnkumyndin sýndi aldrei djammið beint. Ef Last Vegas á að kallast eitthvað svipað þá er þetta afslappaðri gerðin af henni, með færri skandölum (fylgir svosem aldrinum). En myndin er annars notaleg, með hrukkótt en hlýtt hjarta, ýmis góð móment og m.a. þá frábæru sjón að sjá Morgan Freeman spreyta sig á djamminu. Gefum honum kúl-stig fyrir það að kunna að höndla sig á dansgólfi á áttræðisaldri.

Þetta sleppur. Heppnin er með mönnunum, kannski ekki myndinni. Last Vegas er borðliggjandi dæmi um sófagláp til þess að njóta á lötum degi með núllstilltar væntingar og sveskjugrautinn í gripfjarlægð, litlu fernuna helst. En eins mikil dásemd og það er að horfa á þessa leikara myndi maður halda að mannskapurinn ætti eitthvað betra skilið, þangað til að maður hugsar um hversu lítið af góðum hlutverkum þeir hafa allir átt síðastliðinn áratug, nema Freeman, enda Guð.

sexBesta senan:
Rúmið snýst, en það er í trailernum. Andsk…

Ein athugasemd við “Last Vegas

  1. Er að mörgu leyti sammála þessu. Skora myndina þó upp í sjö. Stærsti gallinn við hana að mínu mati var sá að leyfa handritinu ekki að fara alla leið. Það koma nokkrar tilfinningasenur inn í þetta á þeim tímapunkti að áhorfandinn (allavegana ég) var farinn að vonast eftir að myndin færi út í hið óendanlega partýrugl sem hún stefndi í. Það að reyna að gera „mynd“ úr þessu var too litle too late og persónulega hefði verið heillvænlegra að hafa meira rugl, minna drama – úr því sem komið var.

Sammála/ósammála?