RoboCop (2014)

Ef fólk vill sömu myndina, eða réttar sagt enga endurgerð, þá þýðir ekkert að reyna að sannfæra það um annað. Það er frekar leiðinlegt fyrir fantagóðan leikstjóra eins og hinn brasilíska José Padilha (Tropa De Elite, báðar tvær) að vaða í sína fyrstu Hollywood-mynd sem fullauðvelt er jarða fyrirfram, og aldrei gefa neinn alvöru séns. Gamla RoboCop (’87) frá Paul Verhoeven er verðskuldaður gollmoli sem hefur og mun ávallt vera læstur í nostalgíuminningum margra. Flugbeitti ferskleiki hennar hefur leyft henni að eldast prýðilega í helst hugmyndum og afþreyingargildi, og það er einmitt þessi ferskleiki sem hindrar það að endurgerð geti nokkurn tímann toppað hana. Padilha fattaði þetta samt, og fór þess vegna sína eigin leið. Ég bjóst ekki við því, en ég fílaði þá leið.

Ef fáir hafa séð upprunann, er flestum sama, en ef eitthvað heittelskað er sett í nýjar umbúðir eru hnefar komnir hátt eins og sé verið að skipta út vörum. En miðað við seinasta skiptið sem einhver tók „nýjan“ snúning á mynd frá Verhoeven, er ekki déskoti skrítið ef einhverjir komi varla að RoboCop-endurgerðinni með opnu hugarfari eða faðmlagi. Um leið og barst síðan út hvert aldurstakmarkið yrði fór svartsýnin á fullt, og þessi Iron Batman-búningur var heldur ekki að vinna nein stig fyrirfram, þó hinn silfraði gerir það þau skipti sem hann sést. En skítt með það. Svarti búningurinn er ljótur, myndin er góð og effortið almennt á bakvið hana ekkert síðra. Hún er pínu bitlaus, sérlega aum og climax-laus í endann og verður aldrei nógu eftirminnileg þess vegna, en handritið er að megninu til traust, leikhópurinn fínn, hasarinn býsna flottur, brellurnar líka. Heilinn er ekki nema hálfur en þó í hleðslu allan tímann, og að minnsta kosti til staðar.

ironmanbatVerhoeven-myndin var svona „in-your-face“ gagnrýni á fyrirtækjafasisma en var á sama tíma sjúk og brenglað fyndin afþreyingarræma. Þessi skilaboð ganga enn í dag. Nýja myndin staðfærir ýmsar þessar hugmyndir í nútímann en bætir meiru á og byggir sig mest sem ádeila á fjarstýrðan stríðsrekstur (eða „drone warfare“, betur sagt). Hún sýnir popp-og-kók fjörinu aðeins minni áhuga heldur en Verhoeven gerði en kafar í staðinn betur út í sumar erfiðari spurningarnar, eins og pælinguna með hvar maðurinn endar og hvar vélin tekur við, tilheyrandi móralskar flækjur o.þ.h. Handritið ýtir þessu að megnu til hliðar þegar hasarinn tekur svo meira við í seinni helmingnum en effortið tryggir betra flæði þegar endurunnin formúla er komin á nýja teina.

Ef einhver ætlar að endurbyggja þessa maskínu vil ég persónulega frekar fá eitthvað sem er frekar langt í burtu frá fyrirmyndinni, þótt beinagrindin megi alveg vera notuð. Þetta er einmitt það sem leikstjórinn gerir, hann gengur á allt öðruvísi hugarfari og reynir að bæta upp fyrir skort sinn á blóðsúthellingum með því að kanna ný sjónarhorn á upprunalegu sögunni, fara öðruvísi að sumum hugmyndum og m.a.s. sum staðar útskýra þær betur og vinna úr þeim með lógískari hætti. Eins og ég segi, Nolan-nálgunin! En skringilega þykir mér það virka furðulega vel í þessu tilfelli. Ánægðastur er ég samt að sjá hvernig sagan leyfir sér að vera eins köld og hún þarf að vera, þrátt fyrir að Abbie Cornish og krakkinn slæpast þarna eitthvað aðeins fyrir, en ekki af ástæðulausu.

garyLeikhópurinn samanstendur að mestu af frægum peðum sem standa um og gera ekkert sérlega mikið en flestir skilja annars vegar eftir svip sem hjálpar heildinni, eins og með „nýliðann“ Joel Kinnaman (úr Snabba Cash og The Killing). Hann er ekkert lekandi af neinu kúli en gerir allt sem er til hans ætlast og mátulega sannfærandi. Gary Oldman, Michael Keaton, Jay Baruchel, og Jackie Earle Haley eru ekki eins auðgleymdir og hefði haldið, sérstaklega ekki Oldman og Haley. Samuel L. Jackson poppar einnig inn og út sem fjölmiðlamógull sem gefur myndinni kaldhæðnistón sem sækir svolítið í og minnir hvað mest frummyndina, ekki nema sé rætt um klassíska þemalagið, sem átti ekki alveg erindi inn í hana. Kannski er það því ég skil ekki alveg tilganginn í því að aðskilja sig svona sterkt frá því gamla en samt draga svo skýra athygli að því. Svona eins og leikstjórinn finni fyrir hvöt til að minna okkur einum of oft hversu góð hún var.

En sama hvað þeir segja sem hafa fordæmt ræmuna fyrirfram þá er nýja RoboCop alls ekki heiladauð endurgerð þótt hún líti að mestu út eins og akkúrat þessar týpur af myndum sem sú gamla gerði grín að. Og reyndar, jú, í ábyggilega fimmtánda skiptið í kvikmyndasögunni er hér enn og aftur svolítið módelað grunninn eftir Batman Begins, en bara rétt aðeins – óskylt Oldman. Myndin á annars ekkert erindi í sömu setningu og Total Recall með Kate Beckinsale, eða RoboCop 2 eða 3, nema sé þá sagt að hún sé talsvert betri. Munurinn á þessari mynd og lötustu endurvinnslunum er að í þessari virðist í alvörunni sem kvikmyndagerðarmaður með vit hafi náð ágætum tökum á efninu undir allri pressunni. Hún á ekki meira skilið en opið hugarfar og allavega tækifæri og í staðinn gæti bara komið hin prýðilegasta spennumynd með aðeins meiru.

thessi
Besta senan:
„Never let me see myself like this again“.

Ein athugasemd við “RoboCop (2014)

Sammála/ósammála?