Nymphomaniac: Vol. I

Að segja skoðun sína um fyrri hluta fimm klukkustunda gredduepík prakkaralega þunglyndiskóngsins Lars von Trier er svona eins og þegar sessunautur spyr í miðju bíóhléi: „Jæja, hvernig finnst þér hún?“ Oft getur verið leiðinlegt að svara henni því yfirleitt vill maður frekar bara halda áfram, klára og svo dæma heildina. En yfirleitt er það nú stærsta hrósið sem hægt er að gefa myndum, þegar þær eru stoppaðar og maður vill strax halda áfram og fá meira.

Þannig er raunin með Nymphomaniac og Lassi áttar sig á því að það er ekki lengdin sem skiptir endilega máli heldur notagildið. Svo framarlega sem hægt er að horfa aðeins framhjá ögrunaráráttu Danans og missa sig í þessum lauslætisópus hans um einmanaleika og sjálfshatur þá fljúga þessir fyrstu tveir tímar framhjá óvenju hratt hjá. Það hjálpar að vísu að vera ekki einn af þeim sem lætur sig bregða of mikið yfir holdi og kynlífi í kvikmyndum, því auðskiljanlega finnst hún í tonnatali hér – og þessi svokallaða „milda“ útgáfa af myndinni er nógu andskoti gróf eins og hún stendur.

Daninn hefur aldrei haft það í sér að vera sexý leikstjóri og þess vegna myndast hlutirnir frá þurrum og óaðlaðandi sjónarhornum til að vera meira óþægilega raunverulegir heldur en lokkandi. Einhvern veginn tekst að nálgast efnið með… hvað skal segja.. smekklegum ósmekkleika, einkennilega fallegum ljótleika í flottum, táknrænum stíl og talsvert miklum húmor til að hjálpa manni aðeins að losa í miðjunni á svona tragísku og alvarlegu umfjöllunarefni. Ég dirfist líka að segja ákveðið fræðslugildi, og hvernig tekst að vefja samlíkingar á milli t.d. flugnaveiða og kynbundinnar kvenhegðunnar er dæmi um hvernig handritið og samræðurnar geta verið talsvert meira örvandi heldur en allt samræðið.

Nymphomaniac er annars vegar þriðja myndin í þessum opinbera þunglyndisþríleik hans – eða „refsum-Charlotte-Gainsbourg“ trílógíunni eins og ég kalla hana – en alveg eins og með hinar tvær (s.s. Antichrist og Melancholia) kemur Lars með vægast sagt athyglisvert, einstakt, nakið og nagandi innlit undir svarta skýið sem svífur yfir hans höfuð. Sem fyrr gerir uppreisnarseggurinn í honum alfarið það sem honum sýnist og í þessu tilfelli verður myndin betri fyrir vikið og ef markmiðið er að hneyksla þá er það aldrei gert úr samhengi eða úr takt við lífsstíl eða tilfinningalega spíral aðalpersónunnar.

Andlega samband mitt við Trier sem kvikmyndagerðarmann rýkur stundum af aðdáun en hefur verið upp og niður í albesta falli varðandi gæði. En þegar mér finnst eins og hann sé ekki bara að reyna að gera mig reiðan af ástæðulausu hefur hann eitthvað merkilegt að segja, eins og hann gerir hér í gegnum persónuna Joe, sem á fimmtugsaldri segir bláókunnugum manni lífssögu sína af þeim ævintýrum og skaða sem fíkn hennar hefur dregið að. Endlaust logar á milli leggja hennar og finnur hún sig í stöðugri baráttu gegn ástinni og hefur oftar neikvæðari áhrif heldur en góð á alla í kringum sig með tilfinningalegu hlutleysi sínu, eigingirni og sjálfsþóknun. Það væri auðvelt að hata Joe ef hún sæi ekki meira eða minna um það sjálf fyrir mann, og þótt kannski ekki alltaf sé hægt að vorkenna henni heldur er það stúdering Triers á flækjum hennar í einföldu, einmana lífi sem er svo hvöss og grípandi. Stíllinn er líka frumlegur og eins og með húmorinn gefur hann myndinni villtari djús í gegnum hann heldur en ef öll myndin hefði verið með eins svip allan tímann.

Öll þyngd sem myndin kemur með andlega kemur vissulega beint út frá því að Lars er sjaldan þekktur fyrir annað en að ná því besta fram úr leikurum sínum, ef ekki skuggahliðar sem þeir vissu vart að þeir höfðu. Hann er kannski ekki með svo gott eyra fyrir hreimum og lýður þar Shia LaBeouf vegna þess að hann hljómar eins og hann steingleymi því stundum að hann eigi að vera breskur, nema hann sé bara orðinn svo ómerkilegur og flatur leikari að Lassi getur ekki einu sinni bjargað honum. Svipuð er sagan með Christian Slater, nema hann kemst betur undan. Þeir, eins og allir aðrir í þessum þétta og stórfína, tvístraða heildarhóp, eru annars bara mikilvægar hjálparhellur á meðan Gainsbourg og hin óþekkta (jafnframt óþekka) Stacy Martin henda sér út í mesta hugrekkið við það að túlka Joe á ólíkum æviskeiðum. Báðar tvær eru ótrúlegar, hvor á eigin hátt en deila þær færni fyrir sameiginlegum einkennum sem gerir það auðveldara að kaupa það að þær leiki sömu persónu. Í þessum helmingi fær yngri Joe mestu athyglina og sést því bókstaflega meira af Martin. Gainsbourg slakar á í bili. Hennar tími kemur.

Stellan Skarsgård á einnig vingjarnlegan og skemmtilegan samleik við Gainsbourg sem ókunnugi maðurinn sem hlustar á alla sögu Joe og myndar alls konar abstrakt viðlíkingar við smáatriðin úr henni. Hvað fyrri hlutann varðar er þó enginn sem toppar rafmagnaða kaflann sem Uma Thurman kemur fyrir í, og húmorinn sem hún hefur fram að færa í miðju tilfinningaáfalli er nánast eitthvað sem er eitt og sér þess virði að leggja í alla söguna fyrir.

Hvað sem það í rauninni segir þá er Nymphomaniac ein af betri myndum Triers. Rennslið, krefjandi leiktilþrifin, tónlistarnotkunin, stíllinn og óforskammaða einlægnin vinnur gegn því að stimpla hana sem klám eða eintóm ögrun, þó mörgum gæti fundist hún vera ekkert nema það. Leikstjórinn hefur oft gert þær erfiðari en aldrei mynd sem er (hingað til) svona skemmtileg, hugmyndarík, áreynslulaust fyndin, umhugsunarverð, og eftir þessa tvo tíma er ekkert að því að vilja og biðja um meira.

attaBesta senan:
Mrs. H. Allt hennar megin.

Sammála/ósammála?