The Lego Movie

Hvernig þetta kom allt til með að vera hef ég ekki hugmynd um. Á vissan hátt er ég öfundsjúkur út í alla þá krakka sem njóta The Lego Movie á ungum aldri því litadýrðin, flippið og heimurinn hefur svo sterkan aðdraganda fyrir þá. Þeir lifa sig allt öðruvísi inn í hann og snúa sér svo að leikföngunum eftirá með afli sem aldrei fyrr. En síðan þegar þeir verða eldri er miklu dýpra, steiktara og fullorðinslegra notagildi í boði. Og þegar börn, fullorðnir og m.a.s. unglingar eru farnir að hlæja á sömu sem og gerólíkum stöðum er bókað dæmi að hér sé um langlífa fjölskyldumynd að ræða.

Í annarri hendi höfum við hér stærstu „sellout“ bíómynd veraldar og um leið bestu leikfangaauglýsingu kvikmyndasögunnar. Þetta er eins og nýtt þróunarstig sem hræðir mig pínu því þetta getur opnað alls konar óhugnanlegri dyr fyrir enn meira áberandi vöru-spons í fullri bíólengd, gerð til þess eins að selja fleiri vörur. EN… í hinni hendinni er síðan ein hugmyndaríkasta og grillaðasta grínteiknimynd til margra ára og sjónrænt séð ein sú ótrúlegasta, og gæti varla logað af meiri frumleika í dyggu nálgun sinni.

Það að hún skuli vera alfarið byggð á 65 ára gömlu ofurmerki hefur ekkert með það að gera hversu öflugan mátt The Lego Movie hefur til að brúa fjölmörg kynslóðabil, heldur er það vegna þess að hún er endalaust kætandi, ótakmarkað hress, hnyttin, mergjað fyndin á köflum og skrambi vönduð. Óafvitandi tekur hún myndir eins og G.I. Joe, Battleship og Transformers gjörsamlega í nefið og sigrar til sín í leiðinni sönnu merkingu orðsins „dótamynd“. Ég veit ekkert í hvaða brengluðu vídd ég er staddur eða hvort það segi of mikið um gæðastand stórmynda þegar Legókubbamynd, með alvöru plotti, boðskap og ádeilu hefur stærri heila, hjarta og meira hugrekki heldur en margt annað sem kemst í líkingu við hana, og það er ósköp fátt. Afraksturinn hér er algjörlega eins og að horfa á blöndu af Toy Story og Robot Chicken, og það er nákvæmlega eins gott og það hljómar, eða betra.

Þetta er mynd sem hefði svo auðveldlega getað slitið sig frá öllu því sem gerir hana að svo miklu meiru en bara geðsjúkt flottri auglýsingu. Í staðinn er hún pökkuð nördagóðgætum, í kaupbæti skilaboðum um samvinnu og hvatninguna að losa sig undan föstum reglum og nýta sköpunargleðina til hins ítrasta. En umfram allt snýst myndin um ímyndunaraflið og listina að leika sér og þekkja sjálfan sig, tapa aldrei barninu í sér á meðan tekinn er glænýr snúningur á klisjuna um útvöldu hetjuna sem lifir óspennandi lífi og vefst seinna inn í magnaðara ævintýri. Síðan, án þess að gefa nokkuð upp, kemur óvæntasta trompspilið á lokahálftímanum, þegar byrjar að myndast aðeins kjarkaðri „tilgangur“ með þessu öllu.

Sagan tekur þarna krappa beygju í allt aðra átt sem getur aukið ánægju áhorfandans á myndinni alveg umtalsvert eða kippt hann meira út úr henni. Hún nefnilega pressir á vissa hnappa með svolitlum rembingi og ruglar nett í öllum tilsettum reglum, en réttlætir sig með þessari þematísku þyngd, og drepfyndna lokasetningin gerir þetta allt saman þess virði. Þessi þróun græjar myndinni líka extra sætt og magnað þor sem furðulegt er að aðstandendur hafi komist upp með, en sömuleiðis tryggir þetta það að myndina og yfirhöfuð umfjöllunarefni hennar má skoða í gerólíku ljósi þegar horft er á hana í annað sinn. Það þarf helst að gera það, því stöðugt er svo mikið í gangi í römmunum, og á svo miklum hraða, að heilinn grípur ekki allt í einni setu.

Þeir Chris Miller og Phil Lord (Cloudy… Meatballs, 21 Jump Street) eru svona eins og nördalegri, meira sykurhæper og hjartahlýrri týpurnar af því sem Zucker-teymið og Mel Brooks voru í kringum sitt besta. Nú orðnir þrefaldir sigurvegarar í geiranum að taka þunnar, asnalegar hugmyndir og búa til úr þeim stórskemmtilegar sketsamyndir með mikla sál. Greinilega eru þetta elskulegir gæjar sem leggja alltaf blóð, gleðitár og metnað í það sem þeir byggja, eða kubba. Spennutónlistin og samsetning ramma gerir auðveldara að gæða lífi í heiminn, og hasaratriðin eru ólíkt öðru en sést hefur annarsstaðar en í huganum. Bestar eru samt kubbasprengingarnar.

En mesta afrek Lego-myndarinnar, fyrir utan það að vera sprenghlægileg og æði, er hvernig animation-ferlið gerir heiminn og rússíbanann svo áþreifanlegan og uppfullan af smáatriðum, og blekkir þ.a.l. augað um að þetta gæti allt verið stop-motion í stað þess að vera að tölvuteiknimynd að megnu til. Það er að minnsta kosti vel haldið utan um Legó-lógíkina alla leið, því hver einasta sviðsmynd og allir partar á skjánum er raunverulega hægt að byggja úr dótinu sem er verið að selja okkur.

Útlitið tekur sig glæsilega út í bæði 2D og 3D útgáfum myndarinnar. Ástæðurnar eru borðliggjandi; önnur er litríkari en hin dekkri en poppar betur út og dregur mann betur inn í dótaparadísina. Ég get ekki lofað því að meðmælin séu þau sömu ef myndin er séð með íslensku tali, en allir sem kynna sér ekki myndina á því tali þar sem m.a. Morgan Freeman og Liam Neeson eigna sér einhverjar bestu rullur sem þeir hafa átt frá upphafi eru að missa af nákvæmlega því, og það er hellingur. Enn veit ég ekki hvort er fyndnara, sjónin að sjá þá brillera sem leikföng eða tilhugsunin um hversu skrautlega ruglaðar hljóðupptökurnar með þeim voru.

Neeson er fastur í essinu sínu sem vond lögga og góð lögga í einni og undantekningarlaust er allt fyndið sem Freeman gerir, segir eða hvernig hann segir það. Ekki svo langt á eftir koma Chris Pratt, Will Ferrell, Elizabeth Banks, Charlie Day og Alison Brie, þau eru öll frábær líka; öll með það innbyggt í sér að vera í takt við svona tón og þar að auki Will Arnett gæti hugsanlega – bara hugsanlega – verið minn uppáhalds Batman af þeim öllum. Í dótakassanum þykir einmitt fátt eðlilegra en að troða alls konar þekktum fígúrum saman (sem er vanalega ekki gert í bíói út af höfundarréttarflækjum) og það er ein af mörgum pælingum sem eru nýttar í botn. Mér finnst almennt erfitt að trúa því að það hefði nokkuð verið hægt að gera útpældari Legómynd en þessa.

Allir eru í áhættuhópnum að smitast af gleði og skemmtanagildi þessarar myndar. ALLIR, hvort sem þeir léku sér að Legói í gær eða þekkja einungis ljóta sjokkið að stíga með beru tánum á það. Þetta er mynd sem hoppar og hrópar allan tímann „Komd’að leika!“ og steiksjarminn sem hún hefur gerir það erfiðara og erfiðara fyrir mann að segja nei. Undantekningu mynda þeir sem högguðust aldrei úr Team-Playmo eða fúlir Skúlar sem þurfa að græja brosið sitt á liggjandi á skurðborði. Annars má ekki gleyma stuðlaginu sem límist við minnið eins og kubbur af sömu stærð. Þetta er bara allt svo klikkaðslega geggjað!

atta
Besta senan:
Spaceship!

2 athugasemdir við “The Lego Movie

  1. Gætir þú komist að því afhverju ekki er hægt að fá 3D sýningar með ensku tali. Mætti vera ótextaðar

  2. Því er auðsvarað. Sambíóin ákváðu bara að taka hana ekki inn á ensku og í 3D, kannski vegna þess að hún er einmitt textalaus (það böggar oft íslenska bíógesti).
    Einungis var haldin ein svoleiðis sýning á myndinni. Mikill glæpur, þó sýningin hafi verið góð.

Sammála/ósammála?