Out of the Furnace

Toppleikarar eru ekki alltaf ávísun á toppmynd en þeir geta svosem gert sitt og hvað til að gera þessar ómerkilegu aðeins eftirminnilegri, þó ekki nema rétt aðeins. Kannski hefði ekki þurft neina jarðýtu til að gera Out of the Furnace aðeins sterkari, ekki nema nokkur uppköst að handritinu í viðbót, betra flæði og aðeins öðruvísi andrúmsloft. Afraksturinn sem eftir situr mætti best lýsa sem vönduðum tómlegheitum sem andlega ætti að skilja eftir þrefalt rothögg en rétt nær að selja sig út fyrir blóðnasir og þreytutilfinningu.

Það er virkilega góð saga falin inn í þessari mynd, og athyglisverð þemun örugglega líka, en á meðan sóst er eftir einhverjum hráum Peckinpah-töktum skilar skjaldbökuflæði myndarinnar af sér mjög ófullnægjandi sögulokum, að hluta til þýðingarmiklum (svona ef maður rembist við það að lesa í senurnar) en ófullnægjandi. Fyrri helmingurinn skríður í gegnum allar uppstillingar bara svo hinn seinni geti komið plottinu í gang, en báðir helmingarnir eru ábótavant og langdregnir.

Inn á milli leynist eitthvað óvænt eða grípandi og einhver létt-kröftug karaktermóment þarna líka, og það dregur myndina úr auðgleymda svartholinu sem hún hefði getað endað í með síðri leikurum. Allan tímann eru leikararnir með fullan fókus að efninu og sumir rækilega búnir að tensa sig upp, helst þá senuþjófurinn Woody Harrelson og reyndar líka Casey Affleck. Christian Bale er þrusugóður því hann er Christian Bale og því má aldrei nokkurn tímann búast við öðru (T4 er undantekningin). Auðvelt er að ná sympatíu með honum, næstum of auðvelt, og hans samleikur við alla í kringum sig gefur myndinni örlítið vald. Willem Dafoe er sérlega flottur en hann og flestir aðrir nýtast ekki til fulls. Eins með Zoe Saldana (þótt hún eigi eina af áhrifaríkari senum myndarinnar), Forrest Whitaker, Sam Shepard. Ég hefði viljað lengri tíma með persónum þeirra en miðað við spennuleysi púlssins á þessum 110 mínútum hefði ég líklegast þá bara sofnað á endanum.

Leikarararnir eru ekki undirstaðan á neinum feilnótum, því maður þurfti ekki nema að sjá hina feiknagóðu Crazy Heart til að átta sig á því að þessi sami leikstjóri hefur greinilega allan áhuga á fólkinu sínu, en eitthvað óskaplega er hann óviss um hvernig mynd hann hefur verið að reyna að gera. Furnace er hálfunnið glæpadrama og líka sveittari, grimmari hefndarþriller með hægum bruna. Sagan heldur ágætum áhuga í fyrri hlutanum og kemur á óvart á réttum stöðum en aldrei fer hún upp um þann gír sem mann langar að hún geri. Hún heldur sultuslaka andanum sínum eins og hún vilji frekar hafa eitthvað að segja en að koma út með klærnar en þá er skilin eftir vannærð B-mynd sem haltrar leið sína út. Lokaskot myndarinnar er líka Tilgangslaust með stóru t-i, og eitthvað hálf asnalegt líka.

Out of the Furnace hefði átt að vera meira með allt þetta talent og mér líður eins og gritty „nútímavestri“ með brjáluðum Woody Harrelson og gæjum eins og Bale, Dafoe og Whitaker til aukastuðnings eigi að vera meira en bara svefnmeðal. Svefnmeðal með læstri skepnu sem aldrei fær að njóta sín til fulls. Casey er þar að auki drengjalegur maður sem ég hef oft kunnað að meta, örugglega meira svo heldur en bróður hans. Svona lagað á ekki að fara úrskeiðis en ef væntingar eru hreinsaðar burt er kannski að finna eitthvað meira hellað í þessu. Mér tókst það ekki.

fimm

Besta senan:
Bale neitar að smakka dópið.

Sammála/ósammála?