I, Frankenstein

Síðustu árin hafa mixast ótrúlega furðulegir, „póstmódernískir“ bræðingar á þekktum ritum eða goðsögnum, fæstir þeirra vel heppnaðir en fá prik fyrir visst ímyndunarafl.

Mjallhvít var nýlega gerð að brynvarðri bardagakonu, Abraham Lincoln slátraði vampírum, Hans og Gréta urðu að nornaveiðurum og nú er Frankenstein-skrímslið orðið að fjallmyndarlegum djöflabana sem yfirleitt gengur í slow-mo og hoppar heilmikið út um rúður. Ef kæmi út einhvern tímann saga um leynilögguna Drakúla sem eltir sérstaklega upp andsettar hafmeyjur nálægt Karabíuhafinu yrði ég ekkert voðalega hissa lengur. Ef ég tryði því að Mary Shelly hafi snúið sér við í gröfinni eftir hvernig líklurkur hennar kom út í Van Helsing þá væri hún komin nokkra auka hringi núna.

Æ, Frankenstein, djöfull glataður eitthvað. Hann vill svo mikið vera svalur og gagnlegur í nútímabúningi og hefði getað verið það ef einhver hefði komið að þessu með vissum ferskleika og metnað fyrir öðru en „gerum eitthvað svalt“ (…sem svo misheppnast gígantískt mikið). Það kemur reyndar ekki á óvart að hugmyndin komi frá manni sem átti mikinn þátt – fyrir framan og aftan vél – í Underworld-seríunni. Það er mikil þannig áferð á I, Frankenstein en reyndar ýmislegt sem hefur fengið ókurteisislega lánað frá tonn af öðrum myndum (segjum Van Helsing, Constantine, Legion, margt í þannig dúr) ef Paul W.S. Anderson myndi leikstýra því með öðru auganu.

frank1Myndin hugsar semsagt bara í hávaða, anime-pósum, hasarblaðaskotum, einhliða persónum og díalog á pari við þurrt döbbaða teiknimynd. Hún tekur sig svo heimskulega, ónauðsynlega, óskiljanlega alvarlega og fellur þess vegna grunnhugmyndin undan sinni litlu þyngd, þó hún átti í rauninni aldrei séns með svona ósannfærandi, tölvuleikjalegum brellum, og nóg er til af þeim. Djöflaförðunin er ennþá bjánalegri, miklu meira „campy“ heldur en núverandi tónn ætti að bjóða upp á. Tónlistin er líka bara röng, ranglega dramatísk, og get ég svarið það að hafi verið hreint og beint stolnar þarna heilu nóturnar úr (af öllum myndum) The Fountain! Mjög stutt, en samt er þetta enn ein sprungan í þessum skítaklumpi.

Aaron Eckhart leikur aðalhlutverkið, sem ég skil ekki. Kannski hefur hann elt Bill Nighy, sem hefur að öllum líkindum gert myndina sem vinalegan greiða gagnvart massatröllinu Kevin Grievoux. Hann er gæinn sem mætti misskilja að væri bróðir Michaels Clarke Duncan heitins, en bara helmingi djúpraddaðri. Sá maður skrifaði Underworld og I, Frankenstein er byggð á hans eigin myndasögu. Ég gef manninum það að flexa sköpunargleðina innan geira sem ég kann að meta en hallærisleikinn fellir allt hér og það eru feilspor leikstjórans að verki. Eckhart er ekki alkjánalegur en reddar sér ekki úr neinu og er næstum því flotta gæðaleikaranum sem hann á í sér til skammar. Með ýktari Two-Face rödd er hann kominn í sambærilega gröf og Josh Brolin þegar hann lék í Jonah Hex; ekki beint ömurlegur en einhæfur, flatur, vandræðalegur í enn vandræðalegra rugli sem virðist hafa ekki hlotinn mikinn stuðning framleiðenda, þvert á móti bara leiðindi (myndi ég giska, samsetningin ber þess merki um að einhverjir hafi rifist um lokaklippið).

Aðrir leikarar eru ekki upp á neina fiska. Nighy þykist vera í gírnum en er það ekki, Miranda Otto virðist hafa saknað þess innilega að leika í fantasíu og Jai Courtney hefur ömurlega gengið að landa sér einu góðu hlutverki. Yvonne Strahovski er sæt og mögulega eitthvað meira, en fær ekki að sýna fram á margt annað hér. Hún er bara fóður fyrir lélegan söguþráð. Það má næstum því sjá hvernig handritshöfundurinn og leikstjórinn Stuart Beattie reyndi að halda sig við afþreyingargildið en farið vitlaust að hér um bil öllu sem kemur ekki skotuppstillingum við. Það er eitthvað sárt við þá tilhugsun að þessi maður fór úr því að skrifa létt gæðahandrit eins og Collateral yfir í G.I. Joe: The Rise of Cobra og nú þetta. Það var víst einhver mynd þarna á milli sem hann leikstýrði einnig en meinta ágæti hennar hlýtur í dag að litast af hörmunginni sem I, Frankenstein er. Hans vegna vona ég að einhver framleiðandi hafi hemlað á betri getu fyrir heildarsýn hjá honum.

Ég hata þegar svona mikið gerist og manni er sama um það allt. Ekki er svo ólíklegt að þetta hefði virkað brútalt fínt í anime-formi með aðeins skýrari fókus og ekki undir hömlum PG-13 merkisins. Klippingin er drasl og plottið er of mikil ruglandi steypa sem meikar ekkert sense innan þeirra reglna sem myndin setur. Það er of mikil alvara, of mikill aulahrollur, ekkert fjör, enginn púls, ekkert vit og absolút engin ástæða til að leitast lengra en að flissa yfir trailernum og velta því fyrir sér hvernig hefði verið hægt að gera góða útfærslu á þessu. Þegar því er lokið má svo leggjast í bömmer yfir því hversu langt þetta er frá því.

tveir
Besta senan:
Fyrsti hasarinn var ágætur í eina mínútu áður en sömu trikkin eru endalaust endurtekin.

Sammála/ósammála?