Hundraåringen som klev ut genom fönstret och försvann

Mér líður eins og ég eigi að skammast mín smávegis fyrir að þekkja lítið til og hvað þá hafa lesið þessa stórvinsælu bók eftir Jonas Jonasson, sem á íslensku heitir fullu nafni Gamlinginn sem skreið út um gluggann og hvarf (en sem betur fer var titillinn þjappaður niður í bara Gamlingjann í auglýsingunum). Kemur mér alls ekkert á óvart að þetta sé ein alstærsta mynd Svíþjóðar. Hún er meinfyndin!

Í raun er þessi aldagamli svo fyndinn að ég er dauðfeginn að hafa kynnst honum á skjánum og tekið á móti vitleysufarsanum algjörlega hlut- og glórulaus. Efnistökin fylgja formúlum sem hafa nýst mikið vestanhafs en djóksnúningurinn hér vindur upp á sig ágætan ferskleika í gegnum magnandi þvæluna. Sumir brandarar eru fyrirsjáanlegri en aðrir en svarti húmorinn gengur almennt upp, og sömuleiðis þessi Forrest Gump-lega baksaga sem vefst þarna inn í. Dramatík er annars vegar í miklu lágmarki ef lengra er leitað með þá viðlíkingu. Ég kvarta svosem ekki. Ef myndinni tekst ekki að fá fólk til að skella reglulega upp úr þá er í það minnsta erfitt að horfa á hana án þess að líta út fyrir að vera með öfugt herðatré í kjaftinum.

Ég geri ráð fyrir að mikil þjöppun hefur átt sér stað með þessa sögu, þannig að augljóslega get ég ekki dæmt um neinn samanburð, en sem bíómynd er lítið út á flæðið að setja, svona þegar myndin er metin sem einföld og rugluð skemmtun sem best á að sjá í margra manna hópi. Það er léttur, ofsalega líflegur stíll og taktur á henni og miðað við þau ýmsu ótrúlegu sögusvið sem poppa upp – allt frá spænsku borgarastyrjöldinni til tíma kalda stríðsins – má segja að peningurinn sem fór í þetta hafi verið vel nýttur. Missannfærandi brelluskot og þannig lagað skipta minna máli í svona léttmeti. Gamlingjaförðunin er að vísu geggjuð en enginn er að fara að segja að lykilpersónan líti út fyrir að vera annað enn kannski sjötugt/áttrætt í mesta lagi. En skiptir það eitthvað frekar máli? Eiginlega ekki.

Robert Gustafson er kostulegur alla leið í hlutverki hins aldagamla Allans Karlsson, með réttu taktana og göngulagið á hreinu undir mikilli förðun, enda hvort tveggja selur karakterinn mest. Í endurlitunum er hann þó ekkert síðri (þar sem leikarinn fær að vera miklu nær sínum eigin (fimmtugs)aldri), jafnvel betri. Gustafson eignar sér myndina hvað mest þó allir leikarar séu skrautlegir og fínir, en fæstir eins eftirminnilegir og hann, þó Franco, Stalín, Einstein og fleiri geti verið nokkuð óborganlegir á skjánum. En fyrir utan slíkar gæja býr eitthvað aðeins í aukapersónunum sem verða á vegi Allans en ekkert voðalega mikið. Tilviljanakennda atburðarásin er hvort eð er svo upptekin við það að blanda saman létta grimmd við teiknimyndaofbeldi (getum kallað það „dökkt slapstick“) og þá er kannski ekkert skrítið að lítið sé verið að pása til að hlaða meiri persónusköpun í grautinn.

Gamlinginn stendur allavega fyrir sínu og spyr stundum margar skemmtilegar spurningar. Hann skilur ekkert kvikindislega mikið eftir sig en saga hans er sögð með réttum tón, mátulegu rugli og áhuga. Söguþráðurinn er uppfullur af endurtekningum og leysist upp í algjöran brandara og því er erfitt að segja til um hvort það sé nákvæmlega tilgangurinn eða hvort betur mátti nýta hann. En jákvæðustu meðmælin fylgja því sennilega hvað er bæði auðvelt að skemmta sér yfir myndinni og hve áreynslulaus hún getur verið. Væri hún gerð í Bandaríkjunum væri það örugglega ekki svo sjálfsagður hlutur.

thessiBesta senan:
Fíll.

Sammála/ósammála?