Saving Mr. Banks

Sögur um kvikmyndagerð geta ekkert síður verið grípandi efni í heilar bíómyndir og hér er sagt þrælskemmtilega frá fyrsta og einu stærsta tilfellinu þar sem bókahöfundur fór að skipta sér af bíóaðlögun eigins verks. Útkoman er eins og blanda af díteiluðu baksviðsefni og sjónvarpsmynd sem ætlar sér að stjórna hvernig þér á að líða, en yfir heildina glimrandi ljúft ástarbréf til Mary Poppins, einnar bestu (leiknu) Disney-myndar fyrr og síðar, sem nú er orðin fimmtíu ára gömul.

Saving Mr. Banks rekur söguna um hvernig Walt sjálfum Disney tókst – eftir 20 ára bið – að sannfæra hina vægast sagt óhaggandi P.L. Travers að fá að kvikmynda þessa sögu með þeim hætti sem hann vildi, sem er einmitt klassíkin sem við öll þekkjum í dag. Mest af því sem fólk hefur neikvætt í heiminum að segja um stefnur Disney-mynda er sama og sagt í handritinu í gegnum hana Travers. Hann vildi söng, meiri töfra og teiknimyndafígúrur, allt þættir sem hún mótmælti með krafti og þótti gleðidýrkun og dramafilteringar hans óraunhæfar og söluþefurinn fráhrindandi. Eitthvað er þarna komið inn á þá sterku „fjölskyldu“-tengingu sem höfundur getur myndað við sína ástsælustu sköpun, en augljóslega er ekki mikil spenna í loftinu þar sem við vitum nákvæmlega öll hver vinnur þennan slag. Sanna sagan er ótrúleg samt, og vissulega gerð aðeins ótrúlegri með listrænu leyfi.

Myndin er björt, fyndin, skemmtileg og lúmskt heillandi eins og hún stendur. Einkennilegt en ekki óskiljanlegt þykir mér samt hvernig hún puntar upp á söguna um Travers, Poppins og framleiðsluferlið með svipuðum „flöff“ hætti og þegar Disney breytti sjálfur efni höfundarins, m.ö.o. snýst þetta meira um feel-good sjarmann heldur en eitthvað örlítið meira skerandi. Ég kann samt að meta hvernig strúktúrar og músíkhápunktar myndanna speglast. Það ætti að vera launandi að smella þessum blóðtengdu myndum saman í maraþon-kvöld en bestu partarnir í Saving Mr. Banks verða hins vegar aldrei mikið meira en áminning á það af hverju gamla Poppins-myndin er svona mikill æðibiti. Það er gallinn við það að gera þessa sögu í formi fögnuðs, þó klárlega megi færa rök í staðinn fyrir því að hún verði eitthvað huggulegri.

Emma Thompson er að öðru leyti alltaf meiriháttar og flytur sympatíska sál í fýlusnobbið sem Travers getur oft á tíðum verið. Tom Hanks er sömuleiðis flottur, fyrirsjáanlega viðkunnanlegur en umfram allt heillandi, fordómalaus Disney, og í sameiningu er verður aldrei annað en gaman að horfa á þau stanga sköpunarhugmyndum sínum saman. Colin Farrell tilheyrir fortíðarsögunni sem beinspeglar skáldskapinn á marga vegu. Hann er sannfærandi sem fyllibytta en gefur myndinni sína mestu tilfinningaþyngd, en hún er miður ekki mikil, bara oggulítið væmin. Aukaleikarar hafa allir einhverju við að bæta, frá Jason Schwartzmann til B.J. Novak eða Paul Giamatti, sem hefur ekki fengið að vera svona elskulegur í mörg ár.

Þar sem þetta er Disney-mynd í húð og hár kemur ekki á óvart að hún lætur frontmanninn aldrei koma út í neikvæðu ljósi (og getur fólk s.s. gleymt því að nokkuð sé gefið í skyn um meinta gyðinga- og kvenhatur hans), og burtséð frá því að laumureykja – m.a.s. off screen! – er ekki einn galli sem maðurinn hefur þótt hann jaði kannski ekkert við það að vera ómannlegur. Auðvitað á þetta ekki að vera sagan um Walt en plöggilmurinn er þarna til staðar. Það er annars erfitt að horfa upp á einhvern kvikmynda þennan kafla í lífi Travers (og eitthvað af baksögu hennar) án þess að hlæja að smámunasemi hennar og prinsippum öðrum megin, vorkenna henni síðan á meðan slaufuendir er í aðsigi svo stúdíóið og Mary Poppins líti alltaf örlítið betur út.

Saving Mr. Banks er allavega heil matskeið af sykri, kímni og sjónvarpsdrama sem rennur beint ofan í maga og eitthvað aðeins í gegnum sálina. Fyrir minn smekk tekur hún of mjúka nálgun á þessa mögnuðu baksviðssögu um afar athyglisverða kellingu. Gengið er heldur langt í táknrænum krútt-áherslum með hvernig Travers byrjaði smám saman að taka Mikka Mús meira í sátt (bókstaflega!), sem hún gerði svo innilega ekki í raunheiminum og var aldrei nokkurn tímann ánægð með lokaafraksturinn á Poppins (og er líklegt að hún hefði aldrei stutt hugmyndina að gera þessa mynd heldur – kaldhæðnislega). En þessi staðreynd skiptir heildarmyndina litlu máli því inn við beinið snýst hún fyrst og fremst um konu sem lærir að horfast í augu við fortíð sína, sleppa henni og taka með opnari augum á móti framtíðinni. Mjög kjút – og kjút er gott.

thessi

Besta senan:
Sungið með flugdrekalaginu.

Sammála/ósammála?