Non-Stop

Það má ímynda sér margt verra en að horfa á flugvélatrylli með Liam Neeson í burðarhlutverki, svo framarlega sem hann hrynur ekki í sama letigírinn eins og í Taken 2-ullabjakkinu. Hér er lítil hætta á því en ég myndi ekki gera ráð fyrir neinni „Air Force Neeson“ eða „Taken on a Plane„. Það væri óskandi.

Í Non-Stop sýnir Neeson enn eitt skiptið að hann virðist aldrei geta notið flugferða eðlilega (sjá The A-Team og The Grey). Hérna lifir hann sig að hluta til inn í vanabundna hlutverkið sitt en sjálfsstýringin fylgir eflaust með þegar nagli er skriðinn yfir sextugt og farinn að endurtaka sig talsvert. Þegar sögusviðið er hólkur í mörgþúsund feta lofthæð segir sig kannski sjálft að slagsmál eru oftast frekar fá og í þröngum rýmum (vont fyrir aumingja kamerugæjann). En hérna sér maðurinn um að ganga faglega fram og til baka, SMS-ast ákaflega, stara grimmt á skjái, á farþega, ræðst á suma, yfirheyrir aðra og allt með geltandi alvöru í mannlega gallaðri hetju. Þetta gengi væntanlega betur upp ef myndin væri ekki svona kómískt langsótt og stöðugt toppandi sig í fáránleika.

Það er erfitt að segja nákvæmlega til um hvað það er sem hefði gert Non-Stop að góðri bíómynd því það sem heldur henni saman eru aðallega heimskuholurnar sem eiga að gera hana skemmtilegri, en verður hún svo í staðinn bara aulalegri. Þetta á auðvitað ekki að vera neitt annað en fljótt, svalt og heilalaust afþreyingarbíó, og Non-Stop er það sinn hátt. Söguþráðurinn virkar bærilega áður en svörin skýrast, og þau eru miður flest afar fyrirsjáanleg. En þá verður ljóst að hann hangir allur á absúrd tilviljunum sem mergjaðslega heppið illmenni hefur þurft að reiða sig á til að fáránlega flóknu áformum hans tækist. Ég hélt að ég hefði slökkt á heilanum en samt komst ég ekki hjá því að hlæja með innri röddinni yfir stefnunum sem myndin tekur. Til að kóróna það allt er skondin Íslandstenging þarna líka.

Hasarinn í lokin er skemmtilegur á sinn yfirdrifna hátt (þegar sést almenniega hvað er í gangi) og svo ljúft vandræðalegur á sama tíma. Aukaáherslan á lítið samband sem Neeson myndar við unga flughrædda stelpu er krúttlegt innlegg, en gerir lítið annað en að tefja. Myndin er alveg góðum 10 mínútum of löng eins og stendur. Þegar spennumynd gerist nánast öll í einni flugvél virkar hún yfirleitt best á þéttari tímaramma, svona góð leið til að hindra það að hugurinn pæli aldrei óviljandi of mikið í smáatriðunum sem fela ekki vott af trúverðugleika í sér. Að öðru leyti er tæknileg vinnsla í faglegri kantinum og leikarar gera ýmsir sitt og hvað til að detta ekki í of mikla gleymsku, þar á meðal Julianne MooreMichelle Dockery og fleiri. Lupita Nyong’o fékk aftur á móti hræðilegan díl. Stúlkan er enn nýkomin í sviðsljósið eftir leiksigur í 12 Years a Slave og hlýtur hér ekki nema nokkrar setningar á meðan hún felur sig úr fókus.

Spænski leikstjórinn Jaume Collet-Serra hefur sýnt ýmsa hæfileika á ólíkum sviðum í allt frá Goal II til hinnar hálf-vanmetnu Orphan eða Unknown (sem er talsvert betri og harðari spennumynd heldur en þessi). Hann vinnur greinilega vel með Neeson, passar að hann lúkki vel og hefur alls konar fjölbreytni í sér. Collet-Serra er annars vegar einn þessara leikstjóra sem rís alveg og fellur með efninu sem hann velur. Hann virðist vera fagmaður með einfaldan smekk og veit alveg hvernig myndir hann gerir og handa hverjum. Non-Stop flýgur í nákvæmlega engar nýjar áttir en hún sóar að minnsta kosti ekki tímanum þó hún mátti fara betur með hann og skerða smá. Ég myndi ekki hvetja of marga til þess að horfa á hana í miðju flugi en sjálfur myndi ég ekki hika við það ef ekkert betra væri í boði.

fimm
PS. Er leyfilegt að vera pirraður út í trailerinn fyrir að sýna næstum alla myndina þegar plakatið spoilar hana jafnmikið?

Besta senan:
Örugglega einhver hótunin.

Sammála/ósammála?