300: Rise of an Empire

Ekki tókst mér alveg á sínum tíma að gerast partur af karlmannlegu hrópunum og brjóstkassahamrinu sem tilheyrði hæp-lofi fyrri 300 myndarinnar, svo hafa skal það í huga að ég kem að þessari framhalds-hliðar(for)sögu með aðeins kaldari augum heldur en þeir sem telja hana vera með því harðasta í veröldinni.

Af þessum tæpum tveimur tímum hún rann á var ekki nema kannski mesta lagi hálftímalöng sjónræn töff-fullnæging samanlagt en annars sandpappírsþunn, einhæf, teygð og óviljandi hlægileg í samkynhneigðu undirtónunum sem hún ætlaði sér ekki að senda en gerði óvart. Ágæt afþreying þó, og miklu skemmtilegri til áhorfs eftir að Michael Fassbender varð frægari.

300: Rise of an Empire er sérsniðin í drasl handa öllum sem elskuðu hina, þannig að hér má gera ráð fyrir meira af því sama en þó stærra og aðeins kjötaðra, og með flottari endi. Þetta er mynd sem veit hvað hún er og skammast sín lítið fyrir það, og þegar hestur er farinn að sjást hlaupa og hoppa á milli brotinna báta í miðri logandi orrustu er nokkuð ljóst að söguleg nákvæmni megi drulla sér burt. Stílíseringin er áfram svo poppandi að næstum því væri hægt að segja að söguþráðurinn skipti engu máli eða persónurnar, en það er ekki rétt. Ef ekki er meira á bakvið allt adrenalínflóðið, testósterónið, stökkin, hrópin, bringurnar, six-pökkin, tölvugerðu blóðsletturnar og sverðasveiflurnar þá situr maður flatur og yppir öxlum.

Á marga vegu er þessi samt töluvert betri en sú fyrri en dregst hún einnig niður fyrir það eitt hversu grimmt Gerards Butler er saknað (þó svo að hann hefur leikið í meira en 10 slökum myndum sl. áratug). Það öskrar hreinlega bara enginn í fantasíu-Grikklandi eins og Leonidas og one-linerarnir hans voru almargir gull („There is no reason we can’t be civil.“). Þessi Sullivan Stapleton er ásættanlegur ef ekki þurr staðgengill en þessi mynd hefur almennt ekki alveg sama húmor og sjónræna ferskleika ef út í það er farið.

Þegar Zack Snyder færði ramma Franks Miller beint upp á skjáinn var pölpí flutningurinn eitthvað sem hafði lítið sést til áður. Í dag er búið að nauðga þessum visúal-töktum óskaplega, einna helst þessum hráu litapallettum og „fyrst slow-mo, svo hratt“ effektinum, frá eftirhermum eins og Immortals til Spartacus-þáttana. Ég get sagt reyndar sagt að Rise of an Empire er viðburðarríkari og hraðari en fyrri. Hún endar svosem ekki á því að vera mikið annað en andskoti flott hreyfimyndaalbúm þar sem stílgeðveikin og ýkta ofbeldið tælir aðeins en skilur svo lítið sem ekkert eftir sig, en hún þjónar alveg sínu.

Þátttaka Butlers – eða skeggnagla af svipuðu kalíberi – hefði auðvitað gert tiltölulega ómerkilegt framhald aðeins merkilegra. Fyndið er að Snyders er ekki eins mikið saknað. Ég skal gefa einmitt þessum leikstjóra það (þ.e. Noam Murro, hinn sami og gerði mjeh-moðið Smart People, af einhverjum ástæðum), honum tekst alveg óaðfinnanlega að apa eftir upprunalega stíl fyrri myndarinnar. Það er eins og væri hægt að telja sig trú um að Snyder hefði leikstýrt þessari, fyrir utan það að hérna koma konur alls ekki eins illa út; samtölin eru allavega nógu steríl, yfirborðskenndin svo ráðandi og lúkkin saumast alveg saman, bíðandi eftir að eitthvert nördið klippi báðar myndirnar saman í eina stóra í lappanum sínum.

Snyder er reyndar annar þeirra sem skrifaði Rise of an Empire og er helsti framleiðandi hennar, þannig að hún er greinilega mjög blóðtengd honum, en töff, sniðugt og öðruvísi er að vísu hvernig honum tekst að taka dass af prequel-sögu, skapa svo atburðarás sem gerist samhliða sögu fyrri myndarinnar og bæta síðan beinu framhaldi ofan á. Að minnsta kosti get ég sagst hafa séð miklu metnaðarlausari framlengingar heldur en þessa.

Flestir leikararnir njóta þess að stilla sér upp, spenna vöðva og höggva burt frá sér allan andskota, en ef hinn áfram hallærislegi Rodrigo Santoro (flottur gæi, glatað illmenni – sem betur fer í algjöru aukahlutverki) er tekinn úr leik er erfitt að muna eftir flestum til lengdar sem heita ekki Eva Green. Kynþokki hennar, ómetanlegu (teiknimynda)augu og dóminerandi bardaga- og herkunnátta ber höfuð og herðar yfir allt, allt annað í myndinni og gerir hana aðeins ágætari. Þessi kona leikur sér með lostalegri lyst að þessu hlutverki og virðist beint vera stigin upp úr blaðsíðum Millers (eins gott líka, hún verður í sambærilegu hlutverki í væntanlega Sin City framhaldinu). Ég man heldur ekki hvenær ég sá seinast svona reiða og kjánalega frábæra kynlífssenu seinast. Green er öllu vön.

300: Rise of an Empire veit hvað hún er, mætti vera betri en hefði getað orðið mun verri. Hún ætti samt að virka á markhóp sinn og þó tilgangslaus sé er ekki ógilt afþreyingargagn í henni, eins og með hina. Illkvendið rétt bætir upp fyrir Butler-leysið þegar upp er staðið.

sex
Besta senan:
Baksaga Artimesiu, og dýrslega kynlífssenan með henni.

Sammála/ósammála?