Nymphomaniac: Vol. II

Í fyrri helmingnum á Nymphomaniac var fullnægingarþörfin hjá hinni vægðarlausu Joe komin fljótt út í öfgar en sjálfsskaðinn hélt sér aðallega í höfn. En eins og fylgir öllu frá Lars von Trier þegar kona er í aðalhlutverki má gera alltaf harðlega ráð fyrir auknum refsingum, andlegum og líkamlegum, í hennar garð þegar líður á seinni hlutann. Unaðurinn er að baki og þá er bara sársaukinn eftir, og fleira kinkí-dót.

Það fannst mér nógu hæpið að stimpla hinn hlutann sem erótískt klám en viðkomandi er hreinlega álíka sjúkur og Lars ef sú lýsing á að gilda um þennan. Þessi eintök af Volume I og II sem fóru í víðar bíódreifingar voru klippt af framleiðendum án þátttöku Triers og hafa reynt að tóna niður þetta subbulegasta. Seint verður hægt að segja að myndirnar sem eftir standa séu mildar og hvort FLEIRI skot af kynfærum og hossi skili af sér einhverju betra kemur væntanlega í ljós þegar über-útgáfan verður formlega gefin út. En óneitanlega fær maður tilfinninguna eins og Lassi sé aðeins að hluta til með prakkaraskapinn sinn sýnilegan, eða bara rétt svo með broddinn inni. Hvað söguna sjálfa varðar er enn ca. klukkutími af efni sem vantar og er jafnlíklegur til að styrkja stærri pakkann og skaða. Í sínu dónalega ritskoðaða formi er Nymphomaniac annars vegar mjög ofarlega á lista með því persónulegasta og athyglisverðasta sem ég hef séð Danann koma nálægt.

Að upplifa villta og póetíska Serðisjúkling Triers í sinni réttu mynd hefur reynst undarleg og böggandi bið, en bara svo vegna þess að það sem maður hefur séð er (semsagt enn) hættulega, ógeðfellt grípandi og svívirðilega frábært. Það sýður örlítil snilld úr heildarpakkanum, þó feilsporin séu talsverð einnig, en samt er varla furða að mér líður enn eins og ég sé ekki enn búinn að sjá myndina eins og leikstjórinn sjálfur kláraði hana. Yfirleitt þegar maður gerir sjálfum sér það að leggja í verk eftir þennan mann er eins gott að fara alla leið, þó lokaútgáfan sé fimm skrattans klukkutímar.

Ég hef aldrei kallað mig aðdáanda Triers en enginn getur kallað sig sannan kvikmyndaunnanda sem dáist ekki smávegis af betri verkum hans án þess að þurfa að tapa sér í þeim. Eitthvað er það samt við það hvernig hann hellir sér ofan í líf Joe og hennar rútínur sem kemur tilgerðarlaust í veg fyrir að myndin verði leiðinleg eða niðurdrepandi af engri ástæðu. Hann þræðir kaflana sína vel, velur réttu lögin og sinnir samlíkingarhugmyndunum skemmtilega sem og siðferðis(-og fræði)lega vegasaltinu.

Virðist sem að leikstjórinn hefur skrifað mest af sjálfum sér í báðar persónurnar Joe og Seligman, blessaða gamlingjann sem hlustar á sögu hennar, leikinn af Stellan Skarsgård. Ólíku sjónarmið þeirra kastast fram til að vekja áhorfendur til umhugsunar um aðeins erfiðari málefni. T.a.m. er krassandi umræða sem kemur upp í tengslum við barnaperra, svo enn fleiri trúarveltur og ýmsar aðrar flippaðar allegóríur við brókarsýkina.

Volume I ríghélt sínum dampi en spurði á móti fleiri spurningar heldur en hún gat svarað. Volume II er vitanlega dekkri, meira ‘röff’ en nú þegar sést hvernig búið er að tjalda (klipptu) sögunni upp er sumt látið hanga í loftinu, sem mögulega væri hægt að leysa með fleiri senum. T.d. er fókus á móður Joe sama og enginn, hlægilegur þegar flott leikkona eins og Connie Nielsen fær nákvæmlega ekkert að gera. Hún rétt stoppaði við seinast en týndist alfarið hérna.

Stacy Martin fjarar einnig fljótt út. Hún tileinkaði sér yngri nymfuna í fyrri hlutanum en með töluvert lágstemmdari mætti heldur en gildir um Charlotte Gainsbourg, sem er talsvert færari um að bera Lars von Trier-mynd á öxlum sér. Martin leit svolítið út fyrir að deyja úr leiðindum að megninu til en veit ég þó ekki betur en að það sé meira eða minna tilgangurinn. Joe er nógu einmana og tilfinningalega lokuð fyrir á barnsaldri, og lítið batnar það með aldrinum. Hún á enga nána vini, ekkert hobbí og hefur ekki einu sinni persónuleikann eða nennið í margt slíkt, eins og speglast í steindauðu íbúð hennar. Gainsbourg er ótvíræð stjarna seinni hlutans. Eldri Joe er orðin skemmdari og óútreiknanlegri. Hún Charlotte hefur svosem sprengt sig út áður á kameru með svona miklu afli, sömuleiðis í stellingum sem segja meira en þúsund orð, en tök hennar á Joe og hversu brútal og áhugaverð þróun hennar verður toppar þunglyndisþríleik Triers með besta hlutverkinu af þessum þremur.

Það rífur í trúverðugleikann þegar myndin reynir að skipta leikkonunum út, og eiginlega meira svo þegar Gainsbourg er farin að deila senum með Shia LaBeouf, sem á að vera á svipuðum aldri en breytist ekkert útlitslega burtséð frá hárgreiðslunni. Það er ekki fyrr en mikið síðar þar sem kominn er nýr leikari í stað hans og á þeim tímapunkti er voða erfitt að tengja saman andlitin við nöfnin. En eins og Buffið er nú duglegt að gera sig að fífli eða athlægi þá nær maður að venjast þessum hreimsskiptingum hans. Feillinn lendir aðallega á leikstjóranum fyrir að velja ekki annan leikara eða skrifa karakterinn inn sem Ameríkana eftir ráðningu. Mia Goth, Willem Dafoe og Kate Ashfield eru hörkugóð með það litla sem þau gera en Jamie Bell er klárlega sá sem mest ber af í þyngri atriðunum sem pollslakur, skipulagður sadisti. Eitthvað segir mér að Trier hafi einnig sett eitthvað mikið af sjálfum sér í hans hlutverk. Best skýrist það þegar drengurinn er farinn að lemja óvitið úr aðalleikkonunni.

Það þýðir ekkert að meta Volume II sem sjálfstæða einingu og eina vitið tel ég vera að gefa sér tíma og taka þær í einni maraþon-lengju. Uppbygging myndarinnar telur sig eflaust vera stjórnlausari en hún er en fylgir býsna eðlilegum dramastrúktúr og þess vegna kemur engan veginn á óvart að myndin byrji með meiri orku og skemmtanagildi en hægir síðan á sér og byrjar að pússa hnefann fyrir magahöggin sem bíða. Jákvætt er hins vegar að þó grimmdin sé komin á nýtt stig eru enn tækifæri sem leikstjórinn notfærir sér til að halda í sjúka húmorinn sinn áfram, allt frá djarfri tilvísun í eitt þekktasta atriði Antichrist til tveggja blökkumanna sem rífast um hvor á að vera hvoru megin í Oreo-trekanti með Joe lokaða inná milli.

Nymphomaniac tekur ekki eins margar áhættur og pyntingargrauturinn Antichrist og hana skortir dáleiðsluna sem fylgdi Melancholia. Aftur á móti kemur Trier með býsna magnaða jafnvægisblöndu af því besta sem ég hef séð frá eiginleikum hans. En það er eins með smekkleysuna, sjálfshatrið, lostann, stílinn, Daninn rúllar þessu upp. Allt svo gefandi, „fræðandi,“ fyndið og refsandi til skiptis. Fíla það.

atta

Besta senan:
Set mitt fé á seinustu tvær mínúturnar.

Sammála/ósammála?