One Chance

Það er ákveðinn vá-faktor sem fylgir því að horfa á klippuna þar sem illa tenntur bílasímasölumaður að nafni Paul Potts stígur fyrst á sviðið í Britain’s Got Talent, slökkti síðan á allri neikvæðni í nokkrar mínútur, eignaði sér salinn, skjánna og bleytti augu milljóna áhorfenda þegar hleypist úr honum óperuröddin. Mér er svosem sama um þættina en mómentið (sem og baksagan og velgengnin sem tók við) var ótvírætt eins og eitthvað úr bíómynd; uppskriftabundinni lítilmagnasögu nánar til tekið, en feitt jákvæðri og með mikið (söng)hjarta.

Simon Cowell var eflaust sammála þessu og gerðist þess vegna einn framleiðandi One Chance, sem segir ansi hreint merkilegu sögu Potts – frá æskuárum og upp að klæmax-punktinum mikla – með upplífgandi sjarma, slatta af væmni og gert með þessum crowd-pleaser hætti sem má oft búast við af Weinstein-bræðrum. Erfitt er að ímynda sér aðra nálgun svosem, þó svo að allt hafi farið í gegnum þessa klassísku sykurhreinsun. Jafnvel þótt alflestir viti nákvæmlega hvernig þetta endar stendur myndin alveg ljómandi vel fyrir sínu og ætti að gera það ennfremur ef heppinn áhorfandi nokkur rekst á hana án þess að hafa vita neitt um Potts eða hvaða þáttur BGT er. Það að söngvarinn skuli hafa lifað í klisju gerir bara sögulokin hérna þeim mun hlýrri á sálina. Ég var hársbreidd frá því að kveikja á gleðitárunum þegar að stóru stundinni kom. Það má.

Paul hefur vottað fyrir það að endursögnin sé nokkuð nákvæm og átti  hann vægast sagt erfiða leið frammi fyrir sér með þetta talent sitt frá upphafi. Alinn upp í umhverfi þar sem hvergi neinn deildi áhuga hans fyrir óperugali, stanslaust stríddur, oft fyrir árás og alltaf í baráttu við stressið. Þarna er grjótharður grunnur fyrir skilaboðin sem verið er að senda um að fylgja alltaf draumum sínum, vera samkvæmur sjálfum sér og nota óttann til að sigrast á honum. Paul myndi aldrei orða það þannig sjálfur en eineltisfórnarlambinu tókst þarna rækilega að sigra fantana í lífsleiknum. Ég hvet svosem fólk til þess að kíkja á viðtöl við hann og reyna að neita því að þarna skíni ekki hin blíðasta mannvera í gegn. Að sögn var það hans beðni að halda myndinni nær gríni heldur en drama, en ég held að hún hefði getað grætt tonn á því að skima ekki yfir helstu hindranirnar svo snögglega, mest svo í seinni hlutanum þegar strögglið er farið að ýta honum lengra og lengra frá því sem hann langar mest til að gera.

Ég hef ekki séð James Corden oft leika í myndum, og áður en ég sá hér hvað hann er mátulega klaufskur, auðmjúkur og ótakmarkað viðkunnanlegur var ég ekkert að sakna hans. Aðallega mundi ég eftir honum fara aðeins í taugarnar á mér í grínkjaftæðinu Lesbian Vampire Killers og síðan töluvert meira í The Three Musketeers (sorpsnilldinni frá Paul B.S. Anderson). Hans frammistaða og þeirra í kringum hann gefur myndinni allan þann hjartslátt sem hún þarf, en kemur hins vegar lítið á óvart að ákveðið var að halda í gömlu upptökurnar af söngvaranum í stað þess að láta Corden reyna á það.

Alexandra Roach er indæl og með útgeislun í hlutverki kærustu/eiginkonu Pauls, Colm Meaney hefur margoft leikið þetta ruddahlutverk sem hann er aftur kominn í en bara vegna þess að hann kann allar stillingarnar á því og er því ekkert nema hægt að hrósa honum. Julie Walters og Mackenzie Cook voru annars vegar best í hlutverki mömmu hans og besta vinar. Reyndar á sjálfur Simon Cowell sérstaklega eðalgott performance, beint tekið úr klippunni þar sem óvænta hrifningin skilar sér ákaflega í gegnum póker-feisið hans. Leitt bara hvað sjónvarpsskotin eru í áberandi lakari gæðum heldur en þau leiknu sem eiga að blandast við.

Leikstjórinn David Frankel hefur komið að alls konar sjónvarpsþáttum (m.a. Sex and the City, Band of Brothers og Entourage… hvílík blanda) en sest svo að gamanmyndum með melódramatískum hversdagsleika og yfirleitt mjög skýrum boðskapi og jafnvel einhverju táratogi, eins og Marley & Me. One Chance væri eintómt en einlægt samansafn af ljótum tilviljunum og vondum klisjum ef sannsögulega vægið hefði ekki flutt hana svona langa leið, þó ýmsir tengipunktar séu að öllum líkindum skáldaðir og stafi oft órunhæft mikið út. En fyrir utan það allt er vart hægt að standast jákvæðu straumana. Stundum gæti ekki verið þægilegra að eiga svona litla mynd við hendi; súper-krúttlega og nokkuð hvetjandi.

thessi

PS. Ég vildi að ég vissi hvaða tappakvikindi datt í hug að setja lag eftir Taylor Swift í lokin á mynd sem óbeint fjallar um alvöru músík.

Besta senan:
The Biggest Talent byrjar. Trúðasýningin flott líka.

Sammála/ósammála?