Nebraska

Því fleiri myndir sem Alexander Payne gerir, því skýrari og skýrari verður lífssýnin hans, þessi beiska en samt svo fyndna, athyglisverða og næstum því farsakennda. Stúdering hans í Nebraska á trúgjörnu gamalmenni og blákalda sveita-norminu festir á sig svarthvíta, talsvert lágstemmdari og þurrari mynd heldur en fyrr hjá Payne, en eins og með allar er mjög persónulegur bragur á henni.

Leikstjórinn svíkur alls ekki þá sem hafa fylgt mörgum gullmolunum sem hafa skilað sér frá honum en Nebraska nær að mínu mati ekki alveg hæðum Sideways, The Descendants og ekki alveg About Schmidt heldur. Engin skömm í því samt, þær eru allar æðislegar, en kannski er það því mér finnst hann hafa of mikið sameinað allar þessar myndir á ýmsum levelum og kemur þ.a.l. með lítið sem virkaði ekki örlítið betur annars staðar. Maðurinn hefur margt þýðingarmikið en ekkert voðalega dramatískt grípandi að segja. Annars gengur myndin á lúmska húmornum og brillerandi, einbeittri kölkunarframmistöðu frá Bruce Dern. Enn á ég eftir að sjá leikara koma allt annað en eðlilega út með fullkomnum hætti í myndum eftir leikstjórann. Stoltur má hann sömuleiðis vera af því að vera kominn fullan kynslóðarhring með leikarafeðginin. Hún Laura Dern prýddi fyrstu myndina hans, Citizen Ruth, af mikilli dásemd. Nokkuð vanmetin sú.

Nebraska er svo gríðarlega lágstemmd og hefur þar af leiðandi enga burði til að reyna að stjórna manni tilfinningalega og myndar þess vegna svo kammó anda í þessum þurrleika og leikur sér svolítið að honum, en aftur á móti eflaust fratleiðinleg mynd fyrir þá sem vilja meiri púls á tveimur klukkutímum. En hún stendur fyrir sínu fyrir það að vera mannleg, gáfuleg og þroskuð með skemmtilega litla fjölskyldudýnamík að vopni. Ánægjulegt er líka að sjá Will Forte sultuslakan, eðlilegan og leika semí-áhugaverðan karakter loksins. Stacy Keach (muniði eftir Titus??) er alltaf í stuði og með mottubrosið sitt á hreinu en í uppáhaldi hjá mér af öllum er June Squibb, og snillingurinn sem hún er vekur upp hugsun mína um hvort About Schmidt hefði virkað betur sem dúó-mynd ef hún hefði ekki horfið svo snemma úr henni. Konan er meiriháttar og lífgar verulega upp á allar aðstæður.

Skyldi það gerast að einhver ruglist til að glápa á Nebraska án þess að vits nokkuð um hana er tekið skýrt fram með hundgamla opnunarlógóinu að hér er eitthvað af eldri skólanum og gefst tónninn beint með litaleysinu (sem ég er reyndar ekki svo sannfærður um að hafi verið þörf á) svo áhorfandinn geri sér grein fyrir skriðinu og umfjöllunarefninu. Andrúmsloftið er að vísu komið í dottandi overdrive með tónlistartrakki sem er létt, passlegt og í lagi en endurtekur sig í mauk með sömu stefjunum. Payne veit samt hvað hann er að gera með þessu múdi sínu, en ég veit að hann getur meira og betur. Góð mynd engu að síður.

thessi
Besta senan:
Squibb tekur létt harðhausakast á ættingja sína.

Sammála/ósammála?