Winter’s Tale

Akiva Goldsman hefur verið aðallega þekktur sem handritshöfundur og framleiðandi og eftir að unnið við sagna- og kvikmynda(og sjónvarps-)gerð í rúm tuttugu ár sest hann áhugasamur og kátur í leikstjórasætið með frumraun sinni á hvíta tjaldinu, en gæti orðið smátími þangað til að hann ætti að prófa það aftur.

Heilum sautján árum síðar tókst honum aldrei endanlega að hrista af sér skömmina sem fylgdi því að vera titlaður fyrir handritið á Batman & Robin. Seinna náði hann svo að græja sér (óverðskuldaða!) Óskarsstyttu og setti nafn sitt á marga hittara, öðlaðist þá meira og meira „kred“ í bransanum með hliðarskammti af frægum félgöum. En með fyrstu tilraun sinni til að sanna sig sem eitthvað meira stútar hann hvað af því góða sem var eftir af mannorðinu. Winter’s Tale er svo snilldarlega slæm að hún hefði aðeins getað verið unnin af amatör-leikstjóra, gæðaskertum framleiðanda og meðalgóðum handritshöfundi í besta falli, upp á sitt versta. Þetta skrifast nú allt á sama manninn.

Merkilega náði einn maður að taka svo margar skelfilegar ákvarðanir (í forvinnslu, á tökustað, í klippiherberginu, með brelludeildinni) með ekkert nema hlýjar ásetningar í huga. Einlægni verður óafvitandi að húmor og allir töfrar og mystík sem sóst er eftir breytast í móment sem valda vægum sjokk-svipum. Myndin tekur sig óskynsamlega alvarlega, býður upp á áskrift að aulahrolli og væmnin sem kæfir hana jaðar við persónulega áskorun (og nógu væmin er hún til að War Horse myndi hlæja), ef ekki æfingu í hvernig skal gera fræga leikara að fíflum haldandi að þau séu að gera góða mynd fyrir mann sem á sér öflugt tengslanet.

Goldsman hefur lýst þessari glansandi prumpfantasíu-ástarsögu sem ‘ævintýri fyrir fullorðna’ (en ekki í sömu merkingu og t.d. Backside to the Future) . Sum staðar er myndin kölluð A New York Winter’s Tale, til að forðast eðlilegan rugling við Shakespeare-söguna. Vel gæti ég trúað því að þessi 800 blaðsíðna bók sem hún er byggð á kemur þessari hlægilegu koddaælu til skila betur á blaði. Goldsman er þekktur fyrir það að bæði klúðra fínum bókum og betrumbæta nokkrar bærilegar. Hér hefur hann greinilega tekið stórt kvikindi og hakkað því á röngum stöðum með óskipulagðri nálgun. Sumir þræðir í þessari sögu eru ruglingslegir og ófókuseraðir, að þannig leyti að ég var alveg týndur á tímapunkti. En eina leiðin til að blekkja fræga leikara í hörmung af þessari gráðu er að eiga inni stóran greiða hjá þeim. Winter’s Tale er þessi vandræðalega mixtúra af tímaskekkju, furðulegheitum, leiðindum og hver einasta manneskja á skjánum nær óskiljanlega að halda andliti.

Fyrir utan Colin Farrell og Downton Abbey leikkonuna Rebecca Brown Findlay hafa þessir helstu unnið áður með Goldsman og væntanlega fundist hann eiga eitthvað inni hjá sér. Russell Crowe og Jennifer Connelly voru t.d. í A Beautiful Mind, Will Smith í I Am Legend og William Hurt var ekki látinn gleyma stórvirkinu sem var og hét Lost in Space. Allir sem einn eru hlægilegir vegna þess að samtölin eru glötuð og leikstíllinn enn verri hjá þessum blessaða „leikstjóra“. Ef fantasíusjarminn fylgir ekki svona týpu af myndum er restin svo góð sem glötuð. Leyfist mér þó að benda á það fljúgandi töfrahestur stelur einn senunni. Crowe er jú, reyndar alveg yfirburðavondur og hef ég ekki hugmynd um hvort hann sé að setja upp írskan framburð með alvöru eða til gera grín að hreimnum. Will Smith fer nota bene með hlutverk Djöfulsins í nokkrum atriðum, og sjónin og hallærisleikinn gæti ekki trompast nema sonur hans hefði leikið þetta.

Winter’s Tale er fyndinn viðbjóður, lítur oft ásættanlega út en samt er svo erfitt að meika hana. Þegar það er fljótt orðið guaranterað að sé nákvæmlega engin leið til að sýna sögunni tilfinningalegan áhuga hellist bara yfir mann hver soraþróunin á eftir annarri. Myndina skortir allt pósitíft í efnistökunum nema krútthjarta, en þegar sagan verður orðin svona fíflaleg er ég annaðhvort kominn inn í óbeina paródíu eða vondan hrekk. Vissulega þakka ég henni svosem fyrir hlátursköstin en á móti líður mér eins og myndin (og þar af leiðandi herra Goldsman) hafi sigrað mig, því þegar ég fékk loksins leið á því að bregða yfir því hve slæm hún var, fattaði ég þá að ekkert væri hægt að gera annað en að leyfa henni að klárast. Átakanleg en óvenju lærdómsrík seta.

tveirBesta senan:
„What have you gotten me into, horse?“

Sammála/ósammála?