The Congress

Oft eru Hollywood-leikarar búnir að hrósa nýjustu (Mo-Cap) byltingarþróunum hjá tölvudeildum bransans og djóka síðan með það að einn daginn verður varla þörf á þeim lengur, sem væri fyndnara ef það væru ekki einhver sannleikskorn í því. Kannski mun iðnaðurinn einn daginn þreytast endanlega á stjörnustælum, sett-leiðindum, neyslunum og ekki síst öllum óhjákvæmilegu hrukkunum þegar forrit geta séð um svo margar ‘reddingar’ þegar kemur að bíóstjörnum. Kannski er Hollywood ein stór uppsigling að fasisma.

Leikstjórinn Ari Folman, maðurinn á bakvið íraelsku, Flash-teiknuðu heimildarperluna Waltz with Bashir, veltir hér grimmt fyrir sér þessari pælingu. Stillir hann henni svo upp sem frumlegan grunn fyrir breiða og abstrakt sci-fi ádeilu á samfélag, iðnaðinn, fólk, tækniþróun, útlitsdýrkun, ímyndardýrkun og síðan magnast þetta upp í einfaldlega kexruglað sýrutripp, með dökkan kjarna og tilfinningaríka sál. Hana er svo að finna í sögu sem leggur undir sig persónulegri hugtök eins og tengingarleysi og eftirsjá. Kemur kannski engum á óvart að svona mynd er alls ekki allra.

Ekkert er svosem nýtt við það að blanda saman læv-aksjón og teiknimynd, en þessi 50/50 mixtúra þykir mér eitthvað extra spes. Skiptingin er fjarri því að vera gallalaus en upplifunin sem á móti kemur er frekar einstök. Mögulega hefði betur stemmt við innihaldið að skipta yfir í tölvu(…en ekki 2D-)grafík en svipur Folmans er sterkur og fyrir mitt leyti erfitt að standast góðar handteikningar núorðið.

Staðlaði titillinn lofar þó ekki beint einhverri maníu við fyrstu sýn, en The Congress fer létt og rólega af stað en kemur því fljótlega til skila hversu snjallt og öðruvísi handritið er. Myndin er alveg höfðingjalega frábær fyrstu 45 mínúturnar þegar hún er öll leikin. Myndatakan er góð, litirnir og skotin hugsuð út, leikararnir eru snillingar og efnið hættulega tælandi. Mo-Cap atriðið í lokin á þessum fyrsta (segjum) þriðjungi er eitt og sér ógleymanlegt. Fyndið, sorglegt, og verður seinna aldrei toppað á tilfinningaleveli.

Svo byrja áhrifin svo að kikka inn, með fullu afli. Þegar teiknimyndin tekur við er skiljanlegt að hrifning fólks getur skotist hratt í aðra eða hina áttina. Aldrei kemur samt upp sú tilfinning eins og maður sé dottinn inn í einhverja allt aðra sögu. Aðra týpu af mynd, jú, en sagan heldur alltaf sínu striki og verður síðan enn villtari í pælingum sínum þegar lengra líður á hana og tripp-tilfinningin nær einhvers konar geggjuðu hámarki áður en slakað er síðan á undir rest. Folman gerir hvern einasta ramma að einhvers konar listaverki og passar að halda augunum uppteknum, með súrrealísma sem minnir á tíðum á Ralph Bakshi.

Yfirhöfuð kemur leikstjórinn með eitt kjarkaðasta effort sem ég hef séð lengi, bæði með skotunum sem myndin kemur með á iðnaðinn (ætli Miramax og Paramount séu fúlir?) og bara almennt gegnum leikkonuna Robin Wright. Þetta er hennar mynd og satíran öðlast mun sterkara bit með því að hún skuli leika „ýkta“ útgáfu af sjálfri sér – þ.e.a.s ef við ímyndum okkur það öll að hún hafi óskiljanlega hrapað með ferilinn eftir Forrest Gump. Wright er býsna ótrúleg og fær gott til að spila með á móti frá Harvey Keitel, Danny Huston (alltaf traustur! alltaf), Paul Giamatti (hann líka!) og fleirum. Það má samt ekki vanmeta það sem Wright og aðrir – en hún sérstaklega – leggja á sig fyrir teiknimyndaatriðin. Jon Hamm er nokkuð fínn þarna með sína karlmannlegu rödd.

Í þessari sögu vefjast saman mörk raunveruleikans og fantasíu, og samkvæmt henni er ekkert í heiminum sem meikar sens, því allt er hvort sem er í hausnum á okkur. Hugmyndirnar eru póstmódernískar og djúpar en ekki allar grandskoðaðar nóg. Sóst er eitthvað lauslega í bókina The Futurological Congress eftir Stanisław Lem (hinn sami og samdi Solaris), sem var m.a. einn af tugum fyrirmynda The Matrix. Í seinni helmingnum byrjar hins vegar myndin að leysast örlítið upp, kannski vegna þess að hún kýs að tapa sér meira í sjónræna montinu. Á efnislegu stigi kemst hún upp með það en heildarupplifunin er of ójöfn til að geta stimplað sig almennilega inn tilfinningalega þegar vissir hápunktar koma, og því er þetta meira mynd til að dást meira að yfir heildina heldur en að hleypa tárunum út fyrir.

Markmiðin sem The Congress setur sér eru aðeins hærri heldur en hún nær en hvernig hún háttar þessu létta skilaboða-mændfokki er nógu merkilegt til að gera hana umræðunnar virði. Unnendur fríkaðra teiknimynda og yfir höfuð kvikmynda sem hugsa öðruvísi ættu allir að gefa henni séns. Það er alltaf gaman að vera ein sinnar tegundar og þessi mynd er það án spurninga.

thessi
Besta senan:
Mó-kappið.

Sammála/ósammála?