Dead Snow 2

Það er afskaplega erfitt að koma út af ræmu eins og Dead Snow 2 og segja að hún gerði ekki meira eða minna allt sem er til ætlast af henni, geiranum sem hún tilheyrir og fyrst og fremst hugmyndinni. Vandinn er bara sá að extrím splatter-geðveiki er eitthvað sem hver áhorfandi annaðhvort rúllar með eða ekki.

Tæknilega séð ætti engin heilvita manneskja að slysast til að horfa á mynd sem heitir Dead Snow 2 (með áherslu á töluna) þegar hún fjallar um nasista-zombía sem seinna komast í enn blóðugri slag við Sovét-zombía. Hún er gerð fyrir þá sem vita hvað þeir eru að sækjast í og markmiðið er að launa þeim með limlestingarnammi og öðru endalausu rugli.

Framhaldsmyndin er sú betri að mínu mati því hún er fjörugri og strax með athyglina á því sem hún vill vera frá byrjun. Sú fyrri fannst mér á tíðum breytast í það sem hún ætlaði sér að gera grín að. Þessi heldur betri dampi, hún er meira samkvæm sér sjálfri og fær að leika sér talsvert meira, enda fjölbreyttari sögusvið og þrjúhundruð sinnum fleiri fórnarlömb í boði. Kominn er líka meiri persónuleiki í uppvakninganna, væntanlega tengt því að þeir eru skyndilega farnir að tala við hvorn annan. En skyldi það samt gerast að “splat-stick“ unnandi (eða einhver sem kemur bara til að skoða landslagið eða statista sem hann þekkir) ætli sér að vaða beint í þessa án þess að hafa séð hina þá er þægilega vel séð um að rifja hana upp á örskömmum tíma, með öllum bestu skotunum í þokkabót.

Leikstjóranum Tommy Wirkola er sannarlega ekkert heilagt þegar kemur að ógeðinu og í Dead Snow 2 er verulega haldið utan um þær framhaldsreglur að gera allt stærra og meira yfirdrifið. Það væri ávísun á overkill, sem myndin er kannski nú þegar, ef Wirkola hefði ekki sömuleiðis ákveðið að halda í Evil Dead-hefðina og keyra upp allan húmor og grípa í sadistakennda subbufarsann við hvert tækifæri. Og props til aðstandenda fyrir að breyta Eyrarbakka í vígvöll fyrir eitt hugmyndaríkasta blóðpartí ársins. Það er hins vegar undir öðrum en Íslendingum komið að meta hvort landið standi sig til fulls í hlutverki Noregs. Kópavogsturninn og Bónus drápu þarna svolítið galdurinn fyrir mér.

Það kemur á óvart hvað margir leikararnir gera sig hérna. Sést því miður aðeins á aðalleikaranum Vegar Hoel að liðin eru fimm ár síðan sú fyrsta var gerð þó svo að atburðarásin hér tekur við bókstaflega sekúndu síðar. Skiptir samt engu máli, þetta er ekki rétti staðurinn til að spá í svoleiðis hluti. Maðurinn er farinn að sýna meiri lit, meiri húmor og breytist í dásamlega fyndna aulahetju, umdeilanlega norska svarið við Ash.

Martin Starr kemur líka prýðilega út og sér til þess að gera myndina aðgengilegri fyrir Bandaríkjamenn en stelpurnar sem fylgja með honum eru að nærri öllu leyti pirrandi og draga alltof mikið af senum niður með ofleik og rembingi. Fljótlega var ég farinn að vonast innilega að þær dræpist sem fyrst, en fyrir hvert skipti sem þær gera myndina aðeins verri, þá kemur Hallvard Holmen henni beint aftur á sporið. Hann stelur bæði öllum sínum senum og sennilega allri myndinni („Sleik meg langt inni gutte fitta mi!“ <— BEST!) sem kærulaus lögreglustjóri sem er svo innilega ekki nenna djobbinu sínu, og Amrita Acharia, mesta augnakonfekt myndarinnar, er ómissandi við hans hlið. Erfitt er að setja út á aðra því þeir virðast gera nákvæmlega það sem þeir eiga að gera, en Kristoffer Joner fær extra kredit sem varnarlaus ‘krútt’-uppvakningur.

Ef það er eitthvað sem þarf að viðurkennast, sama hvort sem maður fílar þessa mynd eða ekki, það er hversu fáránlega vönduð hún er… innan sinna marka. Ef fólki býður við henni er það að hluta til vegna þess að förðunin og er – sem fyrr – ógeðslega sannfærandi, eins með búninga og flestar brellur. Wirkola nýtir sér líka aukna fjármagnið sem hann hefur með betri kvikmyndatöku og stærra tónlistarscore-i (með orkestru og læti!) sem gefur þessu öllu réttan tón. Gríntónlistin heldur sér líka alltaf í höfn svo myndin verði aldrei of alvarleg, og ef út í það er farið get ég varla ímyndað mér að nokkur bíómynd finni sér betri nýtingu á laginu Total Eclipse of the Heart. Ég held að eitthvað í mér hafi dáið smávegis úr hlátri.

Það að enginn skuli hafa nálgast þennan leikstjóra fyrir misheppnuðu Evil Dead “endurgerðina“ er mér algjör ráðgáta. Dead Snow 2 er yfirhöfuð á meðal metnaðarfyllri og skemmtilegri splatt-veislum sem hafa komið út lengi og viðbjóðslega fyndin á réttum stöðum, sem hlýtur að senda mér skilaboð um hversu sjúkur andskoti ég er. Hvort hún eigi erindi á meðal þeirra klassíkera sem hún sækir mestan innblástur í er mjög hæpið en ég er nokkuð öruggur um að Wirkola nái að gleðja fyrirmyndirnar sínar, hvort sem það er Sam Raimi, Peter Jackson eða Romero. Bókaður ‘költari,’ og möst að sjá í réttum félagsskap.

thessiBesta senan:
Misheppnað hjartahnoð.

Sammála/ósammála?