Muppets Most Wanted

Bannað er með lögum að líka of illa við Prúðuleikaranna, og eitt helsta einkenni þeirra er hvað þeir eru alltaf duglegir að gera grín að sjálfum sér og rjúfa fjórða vegginn. En varla er það samt sniðug hugmynd að taka það skýrt fram í byrjun framhaldsmyndar að slíkar eru aldrei eins góðar og forverarnir, eins satt og það yfirleitt er, ef restin gerir svo ekkert annað en að sýna hversu rétt hún hefur fyrir sér.

Reyndar er þetta partur af ofsalega fyndnu opnunarlagi sem leyfir myndinni að réttilega djóka með sinn eigin gróðatilgang, en ég efa að tilgangurinn hafi verið sá að gera þetta að einum stærsta hápunktinum. Fyrir mér er alltof ljóst að endurræsingar-/aðdáendamyndin sem sló svo merkilega í gegn fyrir nokkrum árum hafði ýmislegt sem Muppets Most Wanted hefur ekki, og trúlega hefur það mikið með brottför Jasons Segel að gera.

Ef við segjum að The Muppets hafi séð um að bjóða Kermit og vinum aftur velkomna þá er það hlutverk þessarar myndar að viðhalda ferskleikanum svo þeir deyji ekki aftur út. Kannski er ósanngjarnt að bera nýju myndirnar tvær of mikið saman þar sem titlarnir eru orðnir 8 í allri seríunni (Treasure Island er þar í mesta uppáhaldi, þó hún sé kannski ekki í takt við það helsta sem Prúðuleikararnir standa fyrir). En Segel barðist samt svo umhyggjusamlega fyrir því að halda upp á gamla Jim Henson-andann og þess vegna er svo leitt að sjá tilraun nr. 2 ná engum brjáluðum hæðum, án þess að ég fari að kalla þetta stuðlausa setu. Leikstjórinn er sá sami og Nicholas Stoller reynir að spjara sig með handritið án gamanleikarans en hugmyndaskorturinn skín fyrst og fremst í gegnum það hvernig þeir ætla sér svo greinilega að gera að gera uppfæðra útgáfu af The Great Muppet Caper.

Hin myndin gekk kannski fulllangt í nostalgíukastinu sínu en hún hélt allan tímann uppi vissum neista. Í Muppets Most Wanted er minna um hlýju og meira gengið út á pjúra sprell og skemmtanagildi en söguþráðurinn er úldinn, frekar óspennandi og reynir á það litla trúverðugleikaskyn sem er í boði (mikið rétt, ÞÓ svo að þetta séu brúður!). Einhverjum datt í hug að láta myndina snúast um það að Kermit eigi sér vondan, rússneskan Robert De Niro-legan tvífara sem skiptir um stað við hann og sendir þ.a.l. þann góðhjartaða í gúlag-búðir, bruggar eigin plön, tekur það að sér að stýra genginu. Hér um bil allir láta blekkja sig án þess að spá í nýja hreimnum eða móralnum hans. Dýri er undantekningin. Eins gott. Hef alltaf kunnað vel við Dýra.

Ég bið ekki um raunsæi, bara flipp en þetta dansar við ákveðin mörk, fyrir utan það að skila af sér einfaldlega krakkalegri mynd. Ekki einu sinni Svínku, kærustu Kermits til margra áratuga, tekst að sjá neitt alltof athugavert við loddarann. Ég gat ekki annað en spurt sjálfan mig hvort froskurinn væri ekki bara betur staddur framvegis án svokallaðra vina sinna sem sjá sama og engan mun á skiptingunni. En myndin sem betur fer viðurkennir að Prúðuleikararnir eru flestir nautheimskir. Mér hefur þó aldrei, eftir öll þessi ár, tekist að átta mig almennilega á sambandi Kermits og Svínku; hvort hún elski hann fyrir það sem hann í rauninni er (því oftast veður hún yfir hann), hvort þetta snúist bara um hennar athyglissýki eða hann sé bara kúgaður í sambandið af eintómri meðvirkni. Sjálfsagt spilar beikonblætið einhvern þátt þarna líka.

Þrátt fyrir að sé hoppað yfir fimm lönd, nokkur skartgripaarán, ýmis söngatriði og einhver aukaplott er þessi mynd að reyna of mikið með of litlum sjarma. Aðeins frábærir brandarar, fyndin gestahlutverk og góð lög hefðu átt möguleika á því að bjarga henni og allt er eitthvað sem mátti betur gera. Þetta væri vissulega ekki alvöru Muppets-mynd ef plottið skipti of miklu og hún ætti ekki sína spretti en þeir brillera nú fáir, og eins með gestaleikaranna. Ricky Gervais og Tina Fey eiga það bæði í sér að vera fyndnari heldur en þau eru, eins og þau hafa margsinnis sýnt fram á. Ty Burrell úr Modern Family kemur reyndar kostulega út með þunnt grín á móti skallaerninum góða.

Lögin eru flest öll fjörug en fæst þeirra eftirminnileg eða elskuleg. Það er aðallega bara þessi opnun – og reyndar yfirheyrslan! – sem er toppurinn, en framvegis ráðlegg ég myndum að breyta aldrei um nafn í miðri eftirvinnslu þegar þegar búið er að skjóta heilt byrjunarlag þar sem allt annar titill er kynntur. „The Muppets… Again“ hefði alveg virkað, hví að breyta?

Muppets Most Wanted gerir í rauninni það sem hún á að gera, en bara ekki nógu skemmtilega og vantar meiri hnyttni. Hún er nógu fjörug til að renna þægilega hjá en breytist stundum í langa bið eftir betri bröndurum og jafnvel tónlistarnúmerum. Sumir sprettirnir eru frábærir, þeir fáu sem eftir standa, en félagarnir eiga betra skilið yfir heildina. Segjum ágætis-‘meh’. Yngri hóparnir eru örugglega á öðru máli.

fimm

Besta senan:
Christoph valsar.

Sammála/ósammála?