Noah

Þegar virðulega klikkaður kvikmyndagerðarmaður veður í eina elstu (dæmi)sögu mannkynsins er það sér á báti næg ástæða til þess að opna augu og eyru. En nánar til tekið þegar syndaflóðið og örkin hans Nóa er til umræðu út frá sjónarhorni trúleysingja með mjög máttuga rödd er það nokkuð læst að niðurstaðan verði sérdeilis úr takt við það sem hefur verið kennt í barnamessum. Í staðinn verður hún bara hvassari, bitastæðari og persónulegri í epíkinni fyrir vikið.

Líklega hefur biblíusaga aldrei verið flutt á bíótjaldið af jafnmiklu hugrekki, en það allra jákvæðasta sem ég get sagt um Noah er að hún er hreinræktuð Darren Aronofsky-mynd út og inn, eða eins nálægt slíkri og nokkurn tímann hefði verið leyfilegt að gera fyrir þennan fjandsamlega háa pening – og með þessum aldursstimpli. Því verður maður að velta pínu fyrir sér hvað hefði gerst ef stúdíóin hefðu leyft honum að ganga alla leið þegar hann var orðaður við t.d. Batman, The Wolverine og nýju RoboCop.

Áhuginn að segja örsöguna um Nóa hefur blundað í Aronofsky í einhverja áratugi og eiginlega er bannað að segja að honum hafi ekki tekist að henda henni upp með því að synda gegn meginstraumnum. Þessi mynd er þegar of sérkennileg til að allir gætu fílað hana en alltof athyglisverð og áhættugjörn til að snúa baki við. Má alveg segja að ég sé sjálfur óttalega dæmigerður trúleysingi en vel gerðar og innihaldsríkar stórmyndir með speki, trúarþema og siðgæðisvitund gera sig hreint ágætlega fyrir mig og þessi er með þeim betri.

Snákarnir fengu miða í ferjuna, ekki Sam JacksonNoah er náttúrulega hamfaramynd – og fjallar tæknilega séð um fyrstu hamförin – en á ýmislegt sameiginlegt með The Last Temptation of Christ og The Fountain (vanmetnasta og fallegasta mynd Darrens án efa) en bara með meiri fantasíu og þar inniföldum föllnum englum, eða risavöxnum, sexhentum, tölvugerðum grjótskrímslum betur sagt. Þeir líta smávegis út eins og þeir séu nýstignir úr biblíu-Miðgarði, en það er jákvætt. Sýnishornin hafa samviskusamlega sleppt þeim og lofað einhverju talsvert flatara, en á bakvið alla epíkina liggur lítil og persónudrifin famelíusaga með þriller-elementum sem bæta stöðugt ofan á vaxandi tilfinningaþyngdina. Aronofsky hefur svosem áður verið sturlaðri í lokaatriðum sínum en svíkur þó lítið með það sem hann hefur þegar kemur að dramatískt fullnægjandi sögulokum. Ef það er eitthvað sem ég hef út á að setja þá er það hvernig tekur flæði myndarinnar smátíma að finna taktinn í fyrstu köflunum og virkar það örlítið rykkjótt af sökum þess. Eftir allar kynningarnar heldur hún flottu róli.

Mér finnst erfitt að neita því að hér er að finna eina tilþrifaríkustu frammistöðu sem Russell Crowe hefur gefið á ferlinum í þessari móralsbaráttu sinni við vægðarlausa Skaparann (…kaldhæðnislega, eftir að hafa nýlega drullað á sig á móti asnalegum Lúsífer í Winter’s Tale). Titilkarakterinn er vægast sagt athyglisverður og verður oft svo dökkur að má spyrja sig hvort hann sé í raun og veru „hetja“ myndarinnar, eins og má finna fyrir því í gegnum helsta óvin hans og hversu auðvelt er að réttlæta afstöðu hans. Crowe er dauðaalvarlegur en þrælmagnaður í hlutverkinu; stóískur, kvalinn, hlýr, sympatískur en svo skepnulega kaldur líka.

Sumir aðrir ofgera ákveðin augnablik eða verða furðulágstemmdir annars staðar í ljósi ógeðfelldra aðstæðna en heilt yfir er erfitt að segja neitt of slæmt um nokkurra manneskju á skjánum enda Aronofsky þekktur fyrir að ýta leikurum sínum aðeins við brúnina til að sjá hvað býr í þeim. Flestir eru ásættanlega frábærir, Emma Watson er sú eina sem nær ekki alveg að finna sig strax. Ray Winstone er aftur á móti geggjaður sem umræddi óvinurinn.

Clint Mansell þrykkir alveg réttu epík- og tense-tilfinningunni inn í tónlistina. Er það mér annars algjör mystería hvað þessi mikli snillingur vinnur alltaf frábærlega með Darren (þó ég efist um að hann toppi nokkurn daginn tónlistina sína úr The Fountain) og sama má segja um kamerumanninn Matthew Libatique. Það eru margir rammar og þónokkrar senur í Noah sem eru lítil meistarastykki út af fyrir sig eða dásamlega abstrakt tilraunir, ekki síst þegar rennt er í gegnum sköpun alheimsins. Myndin dregst niður fyrir dýrabrellur sem eru ekki alltaf nógu sannfærandi, sem er skiljanlegt miðað við annað magn brellna en að öðru leyti er eins grípandi og þessar milljónir kaupa.

Ég gef mér einnig það að landslagið okkar mikla (ekki landskynning, athugið það) hefur hvergi fyrr sest betur að í kvikmynd í svo stóru hlutverki, líka þar sem ég er sannfærður um að fólk muni lengi ræða og þrasa um þessa mynd um komandi tíma – annað en… segjum Oblivion, Walter Mitty eða Prometheus. Umhverfið og náttúran gefur sögusviðinu og andrúmsloftinu mikinn frumtímablæ og karakter. Settin og búningarnir eru í toppmálum en sjá aðeins um helmingsvinnuna. Ísland sér um að selja þetta allt.

Þráhyggja spilar alltaf heilmikinn þátt í Aronofsky-myndum. Hann ávinnur sér alveg sinn rétt á því að koma með sína villtu metafóru-túlkun á þessari sögu og öllu sem er henni tilheyrandi, með tilhneigingu til að vekja til umhugsunar frekar en að ögra, predika eða snúa út úr, jafnvel þó hún detti kannski stöku sinnum í einhverjar þær gryfjur. Ég mæli samt ekki með því að staldra of lengi á syfjaspellsumræðunum sem er rétt þarna daðrað við.

Strangtrúaði áhorfandinn verður bara að eiga það við sig ef hann líkar ekki við meðhöndlunina eða er ósammála svörum eða „uppfærðu“ skilaboðum leikstjórans, en eins og önnur hver samtímamanneskja myndi gera neyðist hann svolítið til að kafa út í alls konar spurningar um mannlega eðlið, sem fylgir því að gera gamla Nóa að allt öðrum týpískum bíókarakter. Hversu grimmt er t.d. fyrir sálina hjá einum réttlátum manni að framfylgja skipunum Guðs þegar það felur í sér að horfa upp á fjallahæðir af fólki steindrepast fyrir framan hann? Hvernig metur hann muninn á réttlæti og náðun? Hve mikið lengra þarf hann síðan að ganga? Hvað þarf til að geðveikin taki nánast yfir? Getur verið að Skaparinn sjálfur sé eitt óhugnanlegasta ‘bíóillmenni’ þessa árs?

Skáldaleyfið finnur sér a.m.k. mikilvægt gildi í þemunum sem notast er við og nálgun sem er hörð, ákveðin og áhrifarík í því sem hún er að gera, og í grunninn trú frásögninni í stærra samhengi. Inn í þetta tvinnast síðan (ekki-svo-falin) leyniskilaboð um offjölgun, grænmetisát og umhverfisvernd, en allt matreitt með svo mikilli tilfinningageðveiki og sjónrænni aðdáun. Það hversu margir munu deila um myndina er bara tákn um það hversu undarlega rugluð sýnin hjá leikstjóranum er, eða augljóst merki um heilagt gildi hráefnisins. Að mati margra getur hún verið eitthvað of artí og kjánaleg á köflum en ég get vottað fyrir það að ef þessi mynd er gerð fyrir þig, þá er hún líka ALGJÖRLEGA fyrir þig!

atta

Besta senan:
Sköpun alheimsins, eða stóra confront’ið (þau eru nokkur).

Sammála/ósammála?