The Grand Budapest Hotel

Wes Anderson kann að koma á óvart – m.a.s. þegar hann er alltaf eins. The Grand Budapest Hotel hefur býsna kunnuglegan væb við sig, þ.e.a.s. þessa þematísku og sjónrænu fylgihluti sem þú færð með myndunum hans. En meiru bætir hún við og vantar ekki það að hún hefur svo dýnamískt einstakan svip. Heldur er aldrei nokkurn tímann leiðinleg mínúta í fjöllaga flippinu sem hún er.

Anderson er kominn í einhvern hágír með frumlegu fortíðarþrá sína en samtímis aldrei fundið skemmtilegri nýtingu á þessu vægast sagt persónugerða mótífi hans, þessu sem auðvelt er að benda á og gera grín að. Þetta er allt þarna: þráhyggjan að planta öllu og öllum í miðjuna á römmunum, ofvirka symmetrían, útvöldu litirnir, sérstæði arkitektúrinn, tónlistarstíllinn, leikstíllinn, kaflabrotin… lengi má halda áfram, og Budapest er nokkrum fjölskyldukrísum og einu barnaleikriti frá því að vera hin „ultimate“ Wes Anderson-mynd.

The-Grand-Budapest-Hotel-WeLiveFilm-Review-1

Myndin dregur fram margt það besta úr Wes sem hann hefur upp á að bjóða, og notkun á músík, módelum og „málverkalandslögum“ auðvitað meðtalin. Áður hefur hann átt til að detta í ‘smöggið’ en nú er það eingöngu sjarmi. Hann stígur lengra en áður frá súrum hversdagsleika og gefur í sjentilmannalega skrípaleikann í staðinn en með dökkum áherslum og undirtónum. Það er aðeins minni melankólía í Budapest heldur en mörgu öðru sem hann hefur gert – og þegar hún loksins bregður fyrir er það næstum því úr tónalegu samræmi við afganginn – en þess í stað er hún nærri því stanslaust kostuleg, þvílíkt lífleg, hröð og skemmtileg, trúlega líka sú allra fyndnasta sem hann hefur gert. Hinar allar eru næstum því farnar að lýða fyrir það núna að bjóða ekki upp á rafmagnaðan og skilyrðislaust DÁSAMLEGAN Ralph Fiennes, en héðan í frá heimta ég að hann verði nýr fastagestur í komandi myndum leikstjórans.

Fyrir utan minniháttar leiksigur í In Bruges er sjaldan tengt betri Fiennes-bróðirinn við framúrskarandi gamanleik, en hann er oftast tilþrifaríkur þegar hann fær svigrúmið og karakterinn til þess að sýna það. Hér sést svo greinilega hversu einbeittur leikari hann getur því kómíska tímasetningin er ekki bara masteruð, heldur býsna aðdáunarverð. Hann fer með línurnar eins og þær voru skrifaðar fyrir hann með hann í huga, að því utanskyldu að hinum krónískt kurteisa Mr. Gustave, sem hann leikur, er einhver stórkostlegasta sköpun Andersons til þessa.

GrandBudapestStill__209-1

Fiennes er svo frábær að þessir 20 þekktu aukaleikarar sem skjóta upp kollinum skipta nánast minna máli en bókstaflega hver og einn er skemmtilega staðsettur og hefur eitthvað við puntið að bæta. Wes virðist vera gæddur einhverjum guðgefnum sannfæringarkröftum til að fá alla heimsins leikara til að koma út að leika með sér, þó sumir eigi ekki nema einhverjar sekúndur í einu hér, eða svo gott sem. Eflaust eru það Willem ‘The Foe’ DafoeSaorise Ronan, gullmennið Jeff Goldblum, Adrien Brody og Harvey Keitel sem grípa eftirminnilegustu aukahlutverkin, án þess að gleyma sögumönnunum Tom Wilkinson, Jude Law og F. Murray Abraham. Ungi stubburinn Tony Revolori stendur sig rúmlega fínt með sitt umbeðna svipbrigðaleysi, og alltaf jafn yndislega hlutlaus á móti Fiennes.

Farsagangurinn er einn og sér nógu heillandi upp á meðmælin að gera en sést einnig langar leiðir að sagan hefur ótrúlega hlýtt hjarta. Aðeins vissir geislar af þessari hlýju skila sér síðan þegar myndin pakkar sig saman í restina með andlegu fjarlægðinni sem hún skapar. Kemur hún væntanlega út frá þessum smámunasama fókus sem er stilltur á leikmynd, uppsetningu og stílbrögð. Wes reynir öll trikk til að búa til einhvern sérvitran kraft – og skiptir jafnvel yfir í svarthvítt en fjarlægðin helst alltaf sú sama. Ýmislegt þarna er samt svo drepfyndið en leikstjórinn kippir stundum mottuna undan með léttu sjokki (í boði herra Dafoe) og það gefur tóninn fyrir þennan steikta ófyrirsjáanleika sem hún hefur.

Frásagnartaktíkin hjá Anderson er óhefðbundnari en nokkru sinni fyrr. Uppbygginguna má líkja við að taka babúsku í sundur. Fyrst er stúlka sýnd opna bók, síðan tekur höfundur bókarinnar við og segir sögu um sjálfan sig í fortíðinni þegar hann hlustaði sjálfur á sögu annars manns, og þar hefst loksins sagan um Gustave. Myndatakan aðstoðar þó við að láta hvert tímabil skera sig út. Ég er persónulega mishrifinn af svokölluðum ‘aspect ratio’ skiptingum í miðri mynd en hérna virkar býsna fínt að stökkva úr letterboxi yfir í standard breiðtjald og á endanum í 4:3 ferkantinn, og setjast að í því ágæta formi, þýðandi það að myndin tekur sig eflaust fáránlega vel út í túbusjónvarpi.

The Grand Budapest Hotel er til skiptis ákveðið listaverk og dýrindis vitleysa, mynd sem er svo sérsniðin og hugsuð út innan marka sinna að þú finnur nánast fyrir gangverkjunum hringsnúast áreynslulaust fyrir framan þig. Þar fyrir utan er myndin skreytt út í eitt eins og rándýr terta (eins og hótelið sjálft í raun) og rennur fallega steikin niður eins og fágætur og ávanabindandi konfektmoli. Gott í’essu! Næstum brill.

atta

PS. Kemur það nokkrum á óvart að Wes skuli vera miðjubarnið af sínum systkinum?

Besta senan:
Flóttinn úr fangelsinu og allt með’því.

Sammála/ósammála?