Harrý og Heimir: Morð eru til alls fyrst

Það verður seint hægt að segja að flutningur Harrýs og Heimis upp á bíótjaldið haldi ekki í sínar föstu hefðir og skili ekki öllu því sem hann lofar. Hvort dýnamík og húmor þeirra félaga sé skelþunnur, hrukkóttur, gamaldags (…með stolti?) og eigi best heima í styttri innslögum er vissulega allt önnur umræða, og hana ætla ég ekki að loka fyrir.

Í sameiningu hafa þeir Karl Ágúst, Siggi Sigurjóns og Örn Árna haldið utan um þessar sketsafígúrur sínar og alltaf verið samkvæmir sjálfum sér, og/eða uppfullir endurtekninga með ‘film noir’ djók-óði sínum. Einkaspæjararnir byrjuðu fyrst í útvarpi fyrir 26 árum síðan og hafa flakkað á milli alla miðla og var bara sá stærsti eftir. Kalli skrifar handritið, Örn heldur föstu rullu sinni sem sögumaður og Siggi sér um að spökulera yfir sig á meðan allir þrír sjá um hugmyndirnar. Það flæðir allt sem fyrr í orðagríni, fyrirsjáanlega kímnislausri heimsku og áhuganum að rjúfa fjórða vegginn eins oft og má komast upp með, og virkar það í vissum skömmtum.

Harry og Heimir: Morð eru til alls fyrst‘ á sér mesta erindi sitt til yngstu áhorfenda, einnig þeirra sem halda utan um nostalgíuminningar og eldri kynslóðarinnar sem enn hefur ekki tekist að fá leið á Spaugstofunni. Myndin er engin æfing í eðalflippi, heldur bara fyrirsjáanlega flippuð ofsaþunnildi en með þó eingöngu markmiðið að koma áhorfendum í betra skap. Það er eitthvað um rembing og ofmat að hálfu aðstandenda en svona heilt yfir þyrfti maður ansi vel æfðan fýlusvip til að kalla þessa setu einhverja tímasóun, enda ekki nema rétt svo 80 mínútur – með frumlega innbyggðu hléi.

narrator

Í rauninni er þetta fyrsta íslenska myndin sem er hreinræktað grín síðan Jóhannes kom út og því minna sem sagt verður um hana, því betra (eins með Ófeig). Ég þakka líka fyrir það að ég hef séð langtum pínlegri hluti gerast þegar risaeðlur spreyta sig á bíótjaldinu svo dyggir aðdáendur gleymi þeim ekki. Það vinnur með Harry og Heimi að reyna ekkert að vera akkúrat í takt við tímann en þeir hefðu umhugsunarlaust mátt hugsa örlítið meira út fyrir rammann. En þegar maður hefur haft það að atvinnu svona lengi að halda í úreltan húmor er kannski ekki við mörgu öðru að búast. Auk þess … ja … þetta er Ísland!

Grínið sækist vissulega mest í gamlar amerískar spæjarasögur og að kópera stíl vestræna ævintýramynda en þrátt fyrir það er öruggt að útiloka það að hér er ekki beinlínis bíómynd sem er að fara að fljúga út fyrir klakann okkar. Þar af leiðandi sitjum við svolítið upp með þessa séreign okkar og ber þess vegna að koma fram við hana sem peningamaskínu sem veit handa hverjum hún er. En til að tryggja það að húmorinn detti ekki í einhvern vanhugsaðan og ekki-nógu-fjölskylduvænan ellismellagraut að hætti Ágústs Guðmundssonar var tekin sú sniðuga ákvörðun að grípa leikstjóra Sveppatrílógíunnar, og sér hann um að djúsa nægum ærslagangi og orku sem ætti að halda krökkunum kátari.

Bragi Þór Hinriksson er reyndar ekki alveg þessi týpíski leikstjóri eftir pöntun þó svo að hann vinni oft undir stjórn dreifingaraðila. Fyrir miklu, miklu meiri pening gæti hann hugsanlega einn daginn búið til alvöru feik-Hollywood bíó, í stað þess að módela sig svona svakalega grimmt eftir formúlustrúktúrum með grátlega lélegar brellur við sína hönd. Allt það er svosem partur af gríninu, en að búa til brandara úr því hve lítið framleiðslufjármagnið er breytir því samt ekki að ódýri bragurinn er allt annað en sjarmerandi þegar ‘sögusviðið’ stækkar og stækkar. Kemur þetta þar af leiðandi meira út eins og afsökun í dulargervi í stað þess að ganga upp sem djókur. Ég gef Braga að vísu það að hann finnur alveg rétta „andrúmsloftið“ – og fær þar að auki hrós fyrir það fyrst og fremst að reyna að búa til andrúmsloft í þessum stíl – og greinilegt er að þetta er maður sem þekkir sig eitthvað til um kvikmyndir.

darri

Þetta er í raun og veru bara eins og Sveppamynd fyrir stærri aldurshóp, á góðan hátt og slæman. Myndin er þó trú uppruna sínum (aftur… bæði á góðan hátt og slæman) og nýtur góðs af geysilega bröttu rennsli og aukaleikurum sem hafa miklu við að bæta, hvort sem það er bráðfyndinn Ólafur Darri að sýna hvernig rétt skal drekka kaffi úti í fjöllum eða Svandís Dóra að ýkja þann þrælfína kynþokka sem hún hefur. Karl Ágúst og Siggi Sigurjóns keyra sig á mjög takmörkuðum stillingum, eins og fylgir svona einhliða kómík (sem súmmar sig upp í tveimur orðum: „Þegiðu Heimir!“) og þó reyndir séu í henni hefðu þeir mátt leika sér aðeins meira með þessar fígúrur. Örn Árna er hins vegar í mesta stuðinu, sem bæði sögumaður og aðrir karakterar.

Mér finnst stundum rosalega erfitt að hlæja endalaust að sömu bröndurunum aftur og aftur, eða þegar formúla húmorsins verður svo lúin og útreiknanleg. Lukkulega er brandaramagn myndarinnar svo gríðarlega mikið – og stundum fjölbreyttara en mann grunar – að ef einn steindrepst við fyrsta flutning er alltaf stutt í annan, og þegar myndin er svona á kafi í eigin meðvitund er hressandi þegar henni gengur að hitta í mark. Harrý og Heimir eru í sínum fínasta gír, þeir taka sig ágætlega út á stóra skjánum og sökum ömurlegrar samkeppni er myndin þeirra orðin núna ein sú fyndnasta frá okkur í áraraðir. Ég gef henni líka smá klapp fyrir að kynna mér fyrir hugtakinu „Continuity tourette“.

fin

Besta senan:
‘Alltaf er nú sopinn góður’

Sammála/ósammála?