Captain America: The Winter Soldier

Steve Rogers er oft miskilið ofurmenni, og ef það er eitthvað sem Captain America: The Winter Soldier sannar, það er að hægt er að gera honum spennandi skil og mikilvægt gildi í nútímanum án þess að þetta þurfi að koma hrottafenginni fánaaðdáun við. En ef kafteinninn og ofur-frisbíinn hans er ekki álitinn eitthvað svalari en áður eftir þessa mynd þá verður þeim barasta ekkert bjargandi sem enn líta á hann sem púkalegan, hoppandi skátadreng. Að þessu sinni er nefnilega bæði svolítið hert á því hversu klikkaðslega töff túrbóhermaður hann er og líka hversu hreint réttlætishjarta hann hefur – miklu meira svo heldur en Superman þessa dagana!

The Winter Soldier markar þriðja ævintýri dátans í fyrstu sjálfstæðu framhaldsmynd sinni, sömuleiðis níunda innslagið í Marvel-bíóheiminn sem endalaust stækkar til að minna áhorfendur á það að allt þetta títanískt flotta sem er búið að bjóða upp á er bara enn rétt svo upphafið að hasarepíkinni og brellunamminu sem bíður við næstu lotur. Það fer þó ekki á milli mála að þessi mynd er annars fókusaðri og á langflestan hátt betri bíómynd heldur en sú upprunalega sem Joe Johnston leikstýrði. Og af þessum níu MCU-myndum hingað eru skilyrðislaust bestu hasarsenurnar í þessari. Ekki þær stærstu endilega eða skemmtilegustu (enn vantar einn Hulk upp á það), en líklega flottustu og kröftugustu, fyrir það sjálfsagt eitt að innihalda slagsmál, skothríðir, eltingarleiki, fótgangandi eða á bílum, og alls konar sem margt er skotið utandyra af gamla vananum en ekki greinilega fyrir framan ber, lituð tjöld. Munurinn getur verið lúmskt dýrmætur.

captarChris Evans er augljóslega vanari rullunni en fyrri daginn og á sama tíma enn öruggari með sig en áður. Gaman er líka að sjá hversu vel hann parar sig platónískt upp með Black Widow-hörkupíunni henni Scarlett Johansson. Plottið byggir allt svo mikið á hugmyndunum um traust, svik og siðferðislega gráu svæðin. Það er útaf því sem kafteinninn og ekkjan virka svo vel saman; hann er alltaf læstur með sínar jarðbundnu siðareglur en hún aðeins óútreiknanlegri og meira líbó með þau mörk. Anthony Mackie er líka ferlega svöl viðbót og Samuel Jackson fær loksins að leyfa Nick Fury að opna sig meira og leyfa honum að njóta Jackson-leikans í honum. Ég tek alltaf meira af Fury fagnandi. Það sama er erfitt að segja um Cobie Smulders, en hún sleppur hjá að sinni.

Aðkoma Roberts Redford aðstoðar síðan með það að stýra þessu framhaldi í átt að allt öðrum geira en forverunum. Verst er að Reddarinn er heldur stirður og óeftirminnilegur en passar samt þar sem hann er. Vetrardátinn hefði mátt fá meiri tíma á skjánum en gerir meira en gott úr augnsvipnum sem hann hefur og notar hann undir ákveðna dulúð. Það sem gengur líklega best upp í Winter Soldier er hvernig handritið setur alltaf persónurnar fram yfir sprengjurnar og hasarinn kemur aldrei án þess að söguþráðurinn kalli eftir honum. Lokaþriðjungurinn dettur í nokkuð standard en vandaðan klæmax-pakka. Frá mínum enda er engin brjáluð spenna í efninu því það er merkilega lítið í myndinni sem kemur hreint og beint á óvart, eins mikið og reynt er að ná akkúrat þannig áhrifum, en keyrslan, tónninn og hápunktarnir bæta það upp. Lyftubardaginn mikli og tilheyrandi flótti kemur þar sterkur inn.

Það er eiginlega með ólíkindum hvað traust Marvel framleiðenda á Russo-bræðrunum til að leikstýra þessu hefur skilað sér. Ég minni á að seinasta bíómynd þeirra var hin furðuómerkilega You, Me & Dupree en þar á móti áttu stóran hlut í litlum gimsteinum eins og Arrested Development og Community, og sýndu þeir þættir fram á skarpt vit og fylgir það hér með (ef við gleymum litlu plottholunum í smástund, en þetta er nú myndasögumynd!) og tökin þeirra á pratískum hasar og litlum persónumómentum eiga flottan forgang yfir allt annað, þó aðeins senan með asnalega farðaðri Hayley Atwell hafi verið eilítið kjánaleg en vel viljug eins og allt annað. Meðhöndlunin á samsetningu hasarsenana og þriller-bragurinn gerir bræðrunum annars vegar kleift að setja algjörlega sinn svip á myndina.

Svipað og þegar Shane Black komst upp með það að gera Iron Man ‘Three’ að ’90s spennumynd með stimpli sínum á bakvið allan súperglampinn þá tekur þessi mynd einnig sinn eigin vinkil á sitt ævintýri (eitthvað sem Thor 2 hefði mátt gera sjálf), nú með því að setja saman ofurhetjumynd við nokkurs konar nútíma Bourne-týpu-þriller með pólitískt “edge“ í anda The Paralax View eða All the Presidents Men. Sumir hafa einnig líkt henni helling við Three Days of the Condor en hana sá ég því miður aldrei (skamm, ég!). Það virðist allavega ekki vera nein horbjóðslega mikil tilviljun að Redford hafi verið dreginn um borð í þessa.

Á Marvel-mælikvarðanum er The Winter Soldier skemmtilega dökk, fyndin í sprettum og helsvöl líka. Samsæriskeimurinn er góður og teinarnir eru lagðir fyrir spennandi áframhald. Umfram allt stendur þessi ræma næstum því á eigin fótum með eigin sögu og innihald í stað þess að vera bara enn einn stiginn í áttina að næstu Avengers-mynd. Litla aukabrotið í miðjum kreditlistanum – af tveimur – sá nú ágætlega um það sjálft. Annars frábær spennumynd í heildina og stappfull af litlum, földum aðdáendagóðgætum. Marvel gæti varla verið að stafla upp betri nördum til að hlaða upp næstu bylgjum. Kemur næst í ljós hvort James Gunn sé einn af þeim.

atta
Besta senan:
Hermar’ á flótta.

Sammála/ósammála?