Divergent

Ef málið snýst ekki um skort á fjölbreytni hjá markhópnum þá er ekkert skafað undan staðreyndinni að Divergent er klárlega sín eigin útgáfa af The Hunger Games, þ.e.a.s. ef hún væri eingöngu fyrir Twilight-aðdáendur (s.s. þá – eða þær – sem hafa enn ekki vaxið upp úr vitleysunni og lært að hlæja að henni eins og bókahöfundurinn gerði sjálfur).

Hér er saga sem pakkar sig með markmiði að byggja samfélagsádeilu í kringum stóran, grimman eftirstríðs-framtíðarheim, sagður frá sjónarhorni sterkrar kvenhetju, eins og Suzanne Collins gerði, en lætur sig algjörlega dreyma um að bera fram eins spennandi sögu með eins eftirminnilegum karakterum, þemum og uppbyggingu. Hungurleikarnir voru býsna ófrumlegir fyrir, en tókst þó frábærlega að vinna úr því sem haft var.

Divergent er sjálfstæð heild á sinn hátt, með nóg pláss fyrir meira, en kemur satt að segja út eins og langur tættur pilot-þáttur. Stílískari en margt annað, aðeins athyglisverður í skömmtum en miðað við fyrstu myndina í tilplönuðum þrí… fjórleik (þar sem enn og aftur verður mjólkað meiri peninga úr bókarbeljunni með því að búta lokasöguna í tvær myndir) fer þetta batterí varla af stað með svo miklum hvelli.

Þessi aðlögun dregur eðlilega eftir sér ýmsa kosti og erfir marga galla sem fylgja frásögninni sem kemur frá höfundinum Veronicu Roth. Með öðrum orðum getur myndin aldrei ætlað sér að ná einhverjum topphæðum þegar hráefnið er minna til fyrirmyndar og meira í því að stela frá því sem unglingum finnst svo ógeðslega heitt. Góðu fréttirnar eru að ýmsar áhugaverðar pælingar leynast annars vegar í þessu og þó gildunum sé hrópað aðeins framan í mann eru þau ansi jákvæð og athyglin á aðalpersónuna Tris er mátulega sterk. Það er marghliða fígúra í henni, eða í versta falli bútar af slíkri.

Tris á það sameiginlegt eflaust með flestum lesendum sínum að hún er enn að reyna að finna sjálfa sig og hver hún er áður en fleiri lífsins ævintýri taka við og allt það. Tris er hógvær, hugrökk og stöðugt vanmetin af öllum í kringum sig, og þó Shailene Woodley dropi ekki alveg af fasta sjarma sínum hér þá passar hún í aðalhlutverkið. Tris er pínu áhugaverð, en samtölin mættu alveg verið sterkari. Það hefði eitthvað aðstoðað senurnar með Woodley og Theo James. Þau mynda mátulega kemistríu og sér hann sérstaklega um vissa hlýju sem myndar gott mótvægi við dystópíuna. En þó krakkar séu kannski ekki drepnir í bílförmum á opnu túni er Divergent alveg notalega grá stundum.

Hápunktarnir koma flestir frá köflunum þar sem Tris gengur í gegnum þjálfunarbúðirnar í nýja fylki sínu, en þeir eru ekkert sérlega margir, án þess að það þýði endilega að myndin sé eitthvað drepleiðinleg. Frekar myndi ég nota lýsinguna „þolanlega óspennandi.“ Hins vegar, þegar þjálfuninni er lokið fer asnagangur sögunnar að fjara út í meiri steypu. En marga vankanta sem fylgja sögunni og stefnum hennar hífast upp þegar leikararnir eru greinilega svo grafnir í hlutverk sín, hvort sem það er nett lúðalegur Jai Courtney, þurr og ákveðin Kate Winslet eða Miles Teller (mótleikari Woodley úr hinni dúndurgóðu The Spectacular Now) að fylgja góðum venjum með því að vera sjálfumglaður og montinn. Aukapersónurnar eru þó almennt ekki upp á marga fiska.

divergent-movie-beatrice-2f-wallpaper-hd-celebrity-picture-shailene-woodley-divergent-hd-wallpaper

Leikstjórinn Neil Burger hefur gert ýmist kvikmyndaáhugafólk glatt með vanmetnum myndum eins og The IllusionistLimitless og Interview with the Assassin. Með Divergent er mest allt edge’ið hans búið að víkja frá. Hann sýnir hversu vel hann getur látið geislað af leikurum sínum í flottum umhverfum, í vissum tilfellum tekst honum einnig að gera atriði betri sem virka aulalegri á blaðsíðu en á skjánum – og reyndar oftar öfugt – en ósköp lítil tilraun er gerð til þess að dýpka fantasíuheiminn og kannski reynt að botna meira í honum (hvernig tókst t.d. svo asnalega fáum íbúum í Chicago að reisa þennan títanískt háa vegg sem umkringir borgina??). Má alveg finna fyrir því að margar blaðsíður vanti, en ég græt þeirra varla miðað við hversu löng og stundum klígjulega langdregin myndin er nú þegar. Ekki væri það eins mikið vandamál ef upplýsingaskilin væru betri.

Divergent gæti ekki betur passað sem einmitt þessi fullkomni millivegur ef einhver biður um eitthvað heilbrigðara og svalara heldur en Twilight og ekki eins brútalt og áhugavert og Hunger Games. Ef ekki var nóg af rómantík í öðru en of mikið í hinu, þá smellpassar þessi. Eins með hasar, persónusköpun og nákvæmlega allt annað. Þetta gæti hugsanlega tekið einhvern spennukipp í næstu lotu en bjartsýnin er ekkert yfirvegandi vitandi það að hún er í sameiningu gerð af mönnunum á bakvið R.I.P.D. og Winter’s Tale. Væri ég hins vegar af gagnstæðu kyni og öðrum megin við fermingaraldur væri hljóðið í mér eflaust pósitífara.

fimm

Besta senan:
Hugrekki mætir hnífakasti.

Sammála/ósammála?