The Amazing Spider-Man 2

Núorðið er þetta bara allt partur af norminu sennilega en leikstjórinn Marc Webb var séður með ýmsum svartsýnum augum þegar hann tók við verkefninu að endurræsa súperseríu þegar ekki voru liðin nema fimm ár frá því að hún kláraðist seinast.

Ég get skilið að mörgum þótti tilgangslaust að sjá Spider-Man ganga strax í gegnum upphafssögu sína aftur, en með þessari semí-realísku nálgun hjá honum, bæði alvarlegum en léttum stíl, þótti mér hann alveg sýna að hann var ekki eingöngu ráðinn í djobbið útaf hentuga nafninu sínu.

Webb tekur aðeins öðruvísi vinkil á The Amazing Spider-Man 2, og gengur lengra með það að vekja upp þann fíling eins og myndasaga sé beint vörpuð á skjáinn, ef ekki sjúklega flott teiknimynd. Aðeins einhverjir bútar þarna á milli sækja í alvarlega andrúmsloftið sem áður var en þess í stað er bragurinn yfirdrifnari, skrípalegri eiginlega. Síðan vefst þarna inn rómantísk unglingadramedía og þá eru komnir nokkrir mismunandi tónaboltar sem erfitt er að halda á lofti í mynd sem er þegar maukpökkuð. Hún reynir að segja sína eigin ‘sjálfstæðu’ sögu, fara út í ýmsar baksögur og sömuleiðis stilla upp ýmsum þráðum fyrir næsta framhald. Þannig að, já, smávægilegur tónaruglingur er alls ekki það helsta sem þessi mynd þarf að hafa áhyggjur af.

Þrátt fyrir að fyrri myndin hafi verið óbein endurgerð á upprunalegu Sam Raimi-myndinni, þar sem sveiflað var oft í gegnum nákvæmlega sömu plott- og þróunarpunkta í sögunni, naut hún annars vegar góðs af þessu svalara, dökka yfirbragði. Persónulega fannst mér hún vera endurbæting að nærri allan veg (kannski því ég var aldrei svo hrifinn af gamla smellinum til að byrja með), fyrir utan líklega tónlistina. Samt, eins mikið og þessi nýja ‘númer tvö’ óskar eftir því að vera eins þétt og frábær og, segjum, framhaldið sem Raimi gerði, en endar með því að vera næstum því eins kjánalega troðin og heimskulega reiknuð út og veraldarvonbrigðin sem sú þriðja var, nema með betri leikurum, örlítið minni kjánahrolli og sterkara sjónarspili og sveiflum milli stórbygginga. Það segir sig sjálft kannski miðað við þrepin sem tölvubrellur hafa stigið síðan 2007.

Sagan má vera góð en erfitt er að gera góða mynd þegar frásagnargallarnir eru út um allt. Í stórri poppkornsmynd á svoleiðis ekki alltaf að skipta máli, svo lengi sem stutt er í fjörið. The Amazing Spider-Man 2 hefur sína skemmtilegu spretti, örfá góð lítil móment, stórar, miklar brellur en er sumt sem Webb ofgerir og hangir þetta mest allt á ábyrgð latra handritshöfunda. Þegar ein mynd reiðir sig svona fjandi mikið á asnalegar aulaskýringar og lausnir er auðvelt að kippast beint úr heilalausa stuðinu ef augun ranghvolfast ósjálfrátt, sama hversu öflug tölvuvinnan er.

Einnig virðist alveg vera sama hversu miklu er troðið í þessar 140 mínútur, það er alveg pláss fyrir einhver létt leiðindi, oftast smærri senur sem eiga að vera sjarmerandi og/eða grípandi á einhvern máta. Fer það svo út um gluggann með lummulegum, ofureinföldum díalog sem gerir allt klisjukenndara og meira óspennandi. Síðan er reyndar ágætt lítið atriði þar sem sjálfur Spidey bjargar stríddum krakka, en reynist það svo vera falinn stökkpallur fyrir eitt af vandræðalegustu mómentunum seinna meir. Handritshöfundar fyrstu myndarinnar sluppu ekkert óskaddaðir heldur, en þó margfalt betur og þess vegna er þeirra mikið saknað hér. Afleysingjarnir Roberto Orci og Alex Kurtzman eru annars þekktir fyrir bíómyndir sem sækjast í töff, hugmyndarík atriði og sýna karakterfókus áhuga en þegar kemur að því að púsla saman frásögn er það venja að saumarnir sjáist ásamt stórum, tryllingslega heimskulegum plottholum.

normarry

Fyrri mynd Webb hafði sannarlega sinn skerf af tilviljunum en þessi gengur ýmsum fetum lengra yfir strikið því hún reynir að halda utan um svo margar persónur, aðstæður og uppbyggingar án þess að misstíga sig. Exposition-dömpið kemur nógu fíflalega út á tíðum en verra er það þegar karakterar mætast eða poppa algjörlega upp úr þurru þegar plottið kallar á þá, eins ónáttúrulega og það kemur út (köllum þetta „Oh Hai Mark“ syndrómið).

Að öllum flækjum frátöldum er leikhópurinn frábær, og flestum tekst bara nokkuð ágætlega að halda andliti þegar línurnar eru stífar eða þvingaðar. Andrew Garfield smellpassar áfram í titilhlutverkið og enn tel ég mig ekki einu sinni hafa heyrt sannfærandi rök fyrir því að Tobey Maguire sé framúrskarandi Kóngulóarmaðurinn, en í ráðaþroti og tilfinningahræringu er Peter Parker orðinn eðlilega alvarlegri en tapar þó aldrei tökunum á því að vera djókandi eða ruddalega kaldhæðinn. Leikarinn klæðist nýja, betri, klassískari búning sínum rjúkandi af sjálfstrausti og deilir frábærri kemistríu með Emmu Stone, sem er skörp, krúttleg og nógu heppin að fá að vera áfram þátttakandi í einhverju í stað þess að falla í klisjugryfjuna að vera eingöngu spriklandi og gólandi í klípu, eins og gerðist yfirleitt með Kirsten Dunst.

Samt, eins góð og þau eru, og eins sæt og þau eru saman, er Webb alltof upptekinn að öllum uppstillingum sínum til að gefa skjásambandi þeirra tíma til að anda út og ná betri fótfestu. Sagan í heild sinni er hlaðin ýmsu drama en hefur næstum enga þyngd við sig, og það á ekki síður við tengsl milli hetjunnar og Harry Osborn, leikinn af Dane DeHaan. Persóna hans hefði þurft meiri tíma en DeHaan stelur nær öllum atriðum sínum og vinnur frábærlega úr því sem hann hefur. Hann virðist vera fæddur í það að leika þjáðan og einangraðan dreng með illskufræin í sér, og sigurframmistaða leikarans úr Chronicle bergmálar talsvert í Osborn. Sally Field ber einnig af, fyrir það að vera hlý og indæl sem fyrr, kannski ögn knúsanlegri.

Jamie Foxx reynir með besta móti að gæða örþunna, skærbláa illmenni sínu rafmagnað líf, eins og Electro verður nú heldur misheppnaður yfir heildina. Kosturinn er sá að hann virðist vera beint stiginn úr teiknimynd en glímir við þann galla að það vinnur myndinni lítið í hag á þessu sviði. Hann lafir á milli þess að vera ögn svalari en Mr. Freeze og lúðalegri, krakkavænni Dr. Manhattan. Baksagan hans á að vera sympatísk en skilar sér kjánalega og gerir karakterinn bara sorglegri og minna ógnandi þegar lengra líður á, þó hvatinn hans sem skúrkur er eiginlega enn bjánalegri. Það sem gagnast Electro mest er að vera undirstaða flottra en yfirleitt tómlegra hasarsena. Chris Cooper vannýtist einnig í persónuhrúgunni og Paul Giamatti, eins ýktur og hann er, skilur mann eftir viljandi meira. Svosem er það tilgangurinn.

b13

Þegar James Horner sá um tónlistina síðast tókst honum ekki alveg að búa til nógu minnisstæðar nótur og hvað þá þemalag, að öllum líkindum vegna þess að hann stelur alltaf frá fyrri verkum sínum. Hans Zimmer leysir Horner skítsæmilega af. Hann notar aldrei gamlar nótur og byggir þ.a.l. lítið ofan á þær (hvers vegna eru svona fáar ofurhetjumyndir sem pæla í tónlistar-continuity??), sem er svosem í lagi, en þessi orchestru-raftónlistarblendingur, þessi sem gegnir hlutverki innri raddar skúrksins, er sniðugur en handónýtur og dregur alltof mikla athygli að sér. Eins og tilhugsunin að mixa saman Zimmer og Pharrell Williams sé ekki nógu furðuleg fyrir.

The Amazing Spider-Man 2 hittir beint í mark þegar hún tekur sínar sveiflur upp í allri dramatísku ringulreiðinni. Hallærisleg, jú, en á sama tíma er myndin björt, litrík, full af orku og geislar á vissum stöðum þó lokaniðurstaðan sigrist ómögulega á stærri vandamálum sínum. Webb er klárlega með hjarta og tæklar sjónarspilið eins og spennandi, pakkaðar teikningar sem kæta augun. Framtíðarstefna seríunnar er að sama skapi forvitnileg en þetta innslag ber öll þau merki um að hafa verið tjaslað saman í svolitlu flýti. Hún gerir sitt gagn hjá sumum aðdáendum, einna helst þessum yngri en mínar vonir bindast við það að sú næsta verði betri. Leitt samt ef ekki verði gerð nein breyting á handritsstaffinu aftur.

Mín vegna mátti líka verulega draga úr þessum æpandi Sony-auglýsingum!

fimmBesta senan:
DeHaan Begins.

Sammála/ósammála?