That Awkward Moment

Ljúft getur það verið þegar frekar slöpp mynd gerist örlítið þolanlegri og jafnvel centimetrum skemmtilegri þegar réttu, hressu leikararnir fá tækifæri til þess að flippa aðeins og vera væmnir og huggulegir (þó kannski ekkert alltaf brjálæðislega viðkunnanlegir). That Awkward Moment hefur nákvæmlega ekkert nýtt eða eftirminnilegt fram að færa annað en líklega sjónina með nöktum Zac Efron að míga lárétt yfir klósettskál, en má hugsa sér margt illþolanlegra en að horfa á Efron, Miles Teller og Michael B. Jordan, þrjá góða gæja á beinni uppleið í bransanum, selja sannfærandi vinskap og fara einhvern milliveg með að vera eins og í Swingers handa stelpum eða Sex and the City fyrir ‘gaurinn’.

Efron hefur lengi haft meiri útgeislun heldur en fólk hefur gefið honum kredit fyrir, kannski vegna þess að úrvalið hjá honum hefur verið í heildina þurrt, fyrir utan tvær eða þrjár. Gæinn veit allavega hvaða styrkleika hann hefur og skeinir sér með sjálfsöryggi og röff módelkarisma sínu. Hann yrði þó löngu kominn út af sporinu með að vera óþolandi ef hjá honum væru ekki hinir álíka góðu Teller og Jordan (sem var frábær í Fruitvale Station – sem alltof fáir sáu). Skvísan hún Imogen Poots hefur einnig verið lengi svolítið á radarnum mínum og alltaf skilið eitthvað eftir sig (hún stal t.a.m. heilli mynd af Steve Coogan nýlega sem – aftur – fáir sáu, The Look of Love). Stúlkurnar eru að vísu allar (s.s. Mackenzie Davis, Kate Simses og Jessica Lucas) myndarlegar, sannfærandi en fá mismikið að gera. Hér er bræðrareglan mest dóminerandi, og það víst tilgangurinn.

Kemistría er alls ekki það sem vantar í þessa mynd, það er meira bara hversu dæmigerðar, oft heimskulegar, ósannfærandi aðstæður byggjast í kringum persónurnar (merkilegt er líka hversu mörg lítil vandamál hlaðast upp í söguna af asnalega ótrúverðugum ástæðum, eða standard samskiptaleysi…), og dæmigert er eina tungumálið í boði í þessum testósterónheila.

Vandræðalegu mómentin í That Awkward Moment eru alltof mörg til að ég geti í alvörunni náð að tengja titilinn við eitthvað eitt þeirra (þó vinnsluheiti myndarinnar hafi verið ‘Are We Officially Dating?’ – lítið skárra). En jú, reyndar á þetta að vera vísun í ákveðið stig þar sem áhugalaus eða sambandsfóbískur karlmaður er spurður hvort sportsamfarirnar séu að stefna í eitthvað alvarlegra. Tríóið sem myndin fjallar um lofar sér því að ganga alls ekki yfir þá línu, sama hvað, en allir áhorfendur vita betur en þeir; það að þeir eiga eftir að hlaupa í gegnum marga akra af klisjum og mýkjast upp.

Ef eitthvað er sem lætur þessa mynd skara eitthvað örlítið fram úr léttgrófum rómantískum gamanmyndum, með sérstaka athygli að kynlífi, er það þá hvernig hún leyfir sér að reyna að hafa eitthvað að segja, hvort sem það er þá um sambönd, húkk-öpp, viss ‘mótrök’ karldýrsins og fleira. Ekki er hún eins klár og hún heldur (fyrir utan kannski drullugóðan bónusbrandara í tengslum við Morris Chestnut), lendir samt stöku sinnum á þrælfínum samræðum eða litlum lúkufyllum af óvæntum uppákomum, yfirleitt ódýrum. Þetta fittar bara ekki saman við rútínurnar þegar þær reiknast allar út löngu áður en karakterarnir eru komnir sjálfir að lausnunum. Það er einföld einlægni í handritinu en ekki síður keimur af kvenfyrirlitningu. Húmorinn virkar stundum, en þegar hann gerir það ekki verður hann – auðvitað, hvað annað? – vandræðalegur og sjarmi sögunnar leysist fljótt upp í tilgerð, m.a.s. áður en fyrri helmingurinn er hálfnaður.

Takturinn á myndinni er huggulega rólegur miðað við allan rembinginn, gredduna og sjálfumgleðina, og hann rís og fellur með þessum heppilega gíruðu leikurum. Kannski, á ofsalega dramatískt rólegu kvöldi – ef öllum bestu myndum þínum hefur verið rænt (og flakkarinn étinn af stórum úlfi) – má alveg mæla með That Awkward Moment, þá undir þeim kringumstæðum að viðkomandi gerir sér fyrirfram grein fyrir klisjukransinum og sækist ekki eftir neinu langvarandi. Trúlega er hún líka bara föst á milli markhópa; ekki nógu grínlega gróf fyrir suma og fullhæg og væmin fyrir aðra. Vandró…

fimm
Besta senan:
Kokk-teillinn kætti mig.

Sammála/ósammála?