(Bad) Neighbors

Ég held að það sé ekki fræðilegur séns að sitja með dómharðan fýlusvip í gegnum svona partí/slapstick-mynd eins og þessa ef þú ert í rétta hópnum fyrir hana. Þegar fyndnir leikarar, þar innifalinn nýr og endurbættur Zac Efron, koma sér saman í kynslóðastríð á sitthvorri nágrannalóðinni eru kröfurnar hvergi stilltar á neitt annað en húmorinn og hvernig gengur að halda grunnhugmyndinni á lofti.

Til þess að forðast óskiljanlega algengan rugling við áströlsku Ramsey-Street sápuna hefur myndin hlotið vonda nafnið Bad Neighbors í sumum Evrópulöndum (en tengist þó lítið Jim Belushi-myndinni frá 1981 með sama nafni). En alveg sama hvað hún heitir festir hún sig óneitanlega við fyrirsjáanlegt, áhættulaust form á meðan hún leyfir sér að vera eins laumulega gróf og hún vill vera. Léttilega má sigrast á hindrunum formúla þegar næst svona mikil orka út úr góðum hópi, en sem ákveðinn bónus hefur myndin einnig líka tvennt sem lætur hana skara svolítið fram úr sínum djammóða, einfalda geira.

Í fyrsta lagi er (Bad) Neighbors ekki á meðal alflestra nútíma, spunaglaðra gamanmynda, sem Seth Rogen hefur t.d. leikið í, sem er ekki u.þ.b. korteri lengri en hún þarf að vera. Kannski væri sagan önnur ef Judd Apatow hefði troðið sér í þetta en virðist sem að leikstjórinn Nicholas Stoller hafi lært heilmikið eftir hina vikulöngu The Five-Year Engagement. Hérna er hann miklu nær húmornum sem naut sín í hinni vanmetnu Get Him to the Greek, nema þjappaðri, bjartari og hressari. Hlátursköstin koma sparlega en þessar litlu 90 mínútur fljúga hjá og er varla nokkur flöt eða vandræðaleg sena sem er ekki í takt við sprellið. Af sýnishornunum að dæma lítur út fyrir að ýmsum senum, m.a.s. nokkrum stórum, hefur verið sleppt og fókusinn er af sökum þess pínu flýttur en grætur þess varla neinn þegar rennslið helst og djókarnir aursins virði. Trailerarnir sýndu nógu mikið fyrir, en ekki það besta.

Í öðru lagi, svo því verður ekki gleymt, sýnir þessi mynd aðeins meiri áhuga á karakterum sínum heldur en mætti kalla sjálfsagt, eins raunveruleikadauð og hún er og á að vera (ímynda má sér ef loftpúðar væru SVONA miklar dauðagildrur!). Persónusköpunin hefur lítinn tíma til að sækjast í eitthvað kjöt en handritið hefur undarlega mikið um fólkið sitt að segja. Þetta fylgir víst alltaf með hjá Stoller alveg frá og með Forgetting Sarah Marshall að búa til alvöru manneskjur úr persónum sínum, sama hversu fyndnar eða einslitar þær eru. En engu að síður eru grínmyndir með svona mörgum typpabröndurum venjulega ekki svona gjafmildar á að sýna hjartað í sér, eða að minnsta kosti vit í vitleysunni.

bad_neighbours_thumb (1)Efron er köttaða stjarnan á svæðinu, alveg merkilega frábær, hér með búinn að taka kátan hringsnúning á High School Musical-týpuna sína og jarða hana. Að mínu mati er þó Dave Franco ekkert síður brillerandi sem hans hægri hönd og aðalbróðir, með umtalsverðan ‘hæfileika’ („It’s a blessing and a curse!“). Rogen er annars í Rogen-íska essinu sínu, Rose Byrne hefur aldrei verið fyndnari og leggur á sig alls konar fjanda í senum sem hún sinnir hetjulega. Þau Rogen mynda gott teymi, og afskaplega trúverðugt, viðkunnanlegt par í þokkabót. Ungbarnaframmistaða gerist heldur ekki betri eða krúttlegri heldur en hjá tvíburunum sem skiptast á að leika krílið þeirra sem fær alveg nægan skerf af bröndurum á eigin kostnað, þá aðeins þegar myndin er ekki búin að gleyma barninu. Fullt, fullt af öðrum vinalegum andlitum skjótast upp og allir sem einn smitaðir af því sem ég ímynda mér að hafi verið afbragðsgóður mórall á setti, sem heppilega breiðist út fyrir skjáinn.

Heilt yfir þétt, sumarleg, óþekk og heimskulega fyndin. (Bad) Neighbors er klár stemmari í margmenni og bætir að mestu upp fyrirsjáanlega rútínufaktor sinn með fjörugum atriðum, smáum eða háværum, því í rauninni er plottið bara afsökun fyrir sífellda en skemmtilega spunakeppni með tilheyrandi ærslagangi. En eitthvað lumar hún á sér fleiru, og af ýmsu þarna verður lengi hægt að kvóta í áfram.

thessi
Besta senan:
Þær eru tvær. Segi ekki frá. En Franco er í báðum.

Sammála/ósammála?