Vonarstræti

Fyrir fjórum árum, þegar Baldvin Z steig fram í sviðsljósið með óvæntum Óróa var orðið nokkuð fljótt áberandi að hér væri kominn kvikmyndagerðarmaður með vit, hjarta, öflugan skilning á umfjöllunarefni sínu og talent fyrir tilgerðarleysi. Margir upprennandi leikstjórar – sérstaklega hér á skerinu – láta sig lengi dreyma um svo vel heppnaða frumraun í fullri lengd eins og realíska unglingainnlitið reyndist vera, þar sem sérstæður vókall Baldvins blæs svo vel í gegnum einlæga dramatík og húmor á milli til að létta af.

Íslensk kvikmyndagerð tekur núna nýtt skref í rétta átt, því með Vonarstræti hefur tekist að fanga samskonar áhrif með, e.t.v. kröftugri, ögn skýrari og miklu persónulegri. Ef til er eins konar læstur grunnur fyrir „týpískt íslenskt“ bíó, þá röltir þessi í gegnum ansi marga kunnuglega punkta, en ef mætti merkja Vonarstræti sem óttalega týpíska mynd frá eyjunni þykir mér hún vera frekar höfðingjalegt dæmi um hvernig er hægt að taka eitthvað dæmigert og láta það heppnast með prýðindum.

bach

Eftirsjá, einangrun, fjölskyldukrísur (vitaskuld…), m.a.s. uppeldi, leyndarmál og fortíðardraugar eru tæklaðir á melankólískan máta án þess að jaða við ofsaþunglyndi. Innblásturinn frá Alejandro González Iñárritu er svo mikill að hann er áþreifanlegur, en með aukinni hlýju í kuldanum sem gefur Baldvini sérstakt tilfinningavald. Létt samfélagsrýni lætur sömuleiðis vel um sig fara innan um öll þemun.

Þriggja-karaktera-krossgötubyggingin er auðvitað ekkert að finna upp hjólið á ný, en forminu eins og það nýtist hér gengur vel að koma manni í hausinn á sögupersónunum án þess að þurfi að öskra allt með hástöfum eða segja meira en þarf. Þessar þrjár helstu, Eik, Móri og Sölvi, eru lagðar út sem þrívíðar, trúverðugar, misgallaðar manneskjur sem feisa fortíð, nútíð og framtíð á ólíku leveli. Kontrastinn í tengingu þeirra er líka úthugsaðri en maður hefði haldið.

Leikhópurinn er í heild sinni áhrifaríkur, glæsilega skipaður (barnaleikarar m.a.s. býsna fínir!) en kjarnaþrenningin er svo gott sem framúrskarandi.  Hera Hilmars fer auðveldlega með það að græja sér sympatíu áhorfandans og stuðning. Hin brotna en þursasterka Eik er sú sem sér að mestu um hjarta og sál myndarinnar og koma nokkrar af ljúfari senunum frá henni og samskiptunum við langhrjáða fyllibyttuskáldið Móra, sem Þorsteinn Bachmann túlkar hann alveg hreint óaðfinnanlega. Hann er andlega og útlitslega sokkinn í bitastæðu rulluna án þess að vanti í hann húmorinn eða samkenndina.

reis

Þorvaldur Davíð er lítið síðri þó Sölvi sé kannski ekki eins spennandi einstaklingur og hin tvö, en hann ljær hlutverkinu allt sem það þarf. Kristín Lea, Lilja Guðrún, Sveinn Ólafur og Teddi Júl eru fantagóð í smærri en ekkert síður mikilvægum hlutverkum og Valur Freyr Einarsson einnig fangar sína óþolandi týpu með bestu lyst í algeru ‘standout’ aukahlutverki. Hans vegna styð ég það í botn að Eddan myndi búa til flokk sem héti „Mest sannfærandi skíthæll ársins.“

Gaman er líka að nefna það að Vonarstræti er fyrsta íslenska myndin þorir að taka þann séns að vera yfir tveir klukkutímar að lengd, með tillit til þess að gefa persónunum og framvindunni meira svigrúm til þess að anda. Þetta þýðir að hún er lengsta íslenska mynd ALLRA TÍMA… ef við teljum það ekki með að soragimsteinninn Glæpur og samviska toppi hana um aðeins eina mínútu. Annars hef ég aldrei skilið þessa áráttu í okkar bíómyndum að reyna stöðugt að troða öllu í einn og hálfan tíma (væntanlega því það er „öruggara“?), þ.e.a.s. þegar þær eru ekki að vesenast við að fylla upp í slíka lengd. Lengdin hjálpar Baldvini óskaplega, og persónulega hefði ég ekki kvartað undan örlítið lengri tímaramma til að koma meiru fyrir.

Það er smá taktleysi í flæði myndarinnar á fyrsta hálftímanum, í kringum helstu kynningarnar, en um leið og persónusköpunin nær fótfestu í sögunni og allt lagt á borð verður hún hægt og rólega meira og meira grípandi því lengra sem á hana líður. Yfirhöfuð er sagan einföld, lágstemmd, frekar vandlega vafin og hressilega hreinskilin (ekki eingöngu í garð útrásarvíkinga – þó megi þeir titra smá). Vonarstræti er einmitt þessi mynd sem léttilega hefði verið hægt að klúðra með ósannfærandi, leikhúslegum díalog, en á endanum er það galdur trúverðugleikans sem siglir ræmunni í höfn og gerir lokaþriðjung myndarinnar, þegar hinir óhjákvæmilegu dramatísku hápunktar skella á, svo ljúfsáran og nett kröftugan. Leikstjórinn virðist einnig átta sig á því að það eru litlu augnablikin sem geta oft gert svona tegundir mynda stórkostlegar.

stree

Heppilega, eins og margir vita, ganga tilviljanir oft mun betur upp á Íslandi en í mörgum öðrum myndum. Vonarstræti byggir sig heilmikið í kringum svoleiðis, þó þær þjóni samt alltaf ákveðnum þematilgangi og ramma karakterana skemmtilega í þetta fiskabúr sitt. Baldvin styttir sér sumar leiðir í frásögninni (sérstaklega með óvæntri söguþróun hjá Eik alveg í lokin) en misstígur sig sjaldan þannig að það komi út eins og ‘redding’ á handritsvanda. Ef eitthvað er það bara merki um að hér hefði alveg mátt segja frá meiru. Annars er úrvinnslan, hvort sem hún kemur klippingu, myndatöku eða tónlist við, alveg að gera sig þegar kemur að því að innsigla rétta raunsæismúdið.

Feilspor myndarinnar eru kannski nokkur en sverta lítið á þegar upp er staðið, trúlega því það er enginn vottur af miskunnarlausri tilfinningastjórnun, bara pollslakt áreynsluleysi með fullorðinslegri einlægni, dýparmerkjum og leiktilþrifum verður ábyggilega áfram talað um hérlendis á næstu árum. En hvað sem það þýðir þá er Vonarstræti að mínu mati langbesta mynd Íslendinga frá aldamótum.

atta
Besta senan:
Eik ‘feisar’ sitt.

Sammála/ósammála?