Oldboy (2013)

Að búa til ameríska útgáfu af Oldboy var ekki endilega svo vond hugmynd. Þessi upprunalega sem Park Chan-wook gerði var ekkert svakalega trú samnefndu manga-sögunum, þannig að það er ekki eins og hefði ekki verið hægt að taka einhvern ferskan (kúltúrs-)snúning á kunnuglegan efnivið. Ég er allur fylgjandi vel heppnuðum endurgerðum þegar þær fara alveg í eigin áttir, og ef þær heppnast illa vill maður a.m.k. að þær hrapi á eigin forsendum í stað þess að lýða fyrir það að vera volgt afrit með allsráðandi hugmyndaleysi.

Það má ýmislegt vont segja um Spike Lee en yfirleitt er eitthvað athyglisvert að finna í feilsporum hans. Bestu dagarnir hans, þeir fáu sem ég man eftir, leyna þó einhverju höggi í sér og mátti því eðlilega búast við einhvers konar persónulegri tæklun á þessari trufluðu, grafísku hefndarsögu. Lee er vanalega of góður með sig til að láta plata sig út í það að einungis þýða kóreska sjokkperlu án þess að fá eitthvað að segja sjálfur. Lokablandan er stórmerkilega ógeðfellt en bitlaust klúður, við það að vera jafnslæm og sú upprunalega er góð. Ekki beinlínis metnaðarlaus, bara spilast þannig út að hún verður sjúkt vandræðaleg og aulaleg þegar hún ætti að vera allt nema það.

27-oldboy-old-vs-newOldboy gengur fyrst og fremst út á afleiðingar (og hvað getur gerst ef maður lætur suma hluti ekki í friði) en þá er e.t.v. bara skrítnara að hugsa til þess hvað Lee hefur látið illa með sig fara, nánast eins og hann hafi selt sig út. Oldboy stimplar allt sitt tilgangsleysi með því hversu lík hún er költ-klassíkinni og þó hún fái punkta fyrir að reyna að breyta sögunni eitthvað á nokkrum stöðum er ekki séns að það sé hægt að segja að neinar þessara breytinga séu mikið til hins betra. Það er hálfgert afrek hvernig leikstjórinn þykist getað toppað hörðustu kaflana hjá Park á meðan hann mýkir síðan innihaldið og áhrifin umtalsvert. Eina undantekningin er brútal tilraun til að þrepa upp dýnamíkina og koríógrafið í hópslagsmálasenunni sögulegu, nema núna er léttar að fela lofthöggin. Lengra nær það samt ekki og þemurnar hverfa flestar alveg sporlaust úr efninu.

Frummyndin gaf manni þrumugott magaspark og þegar svörin uppljóstrast í endurgerðinni nær hallærisleikinn nýjum og bjánalegri hæðum. Trúlega er þessi mynd eitthvað skárri ef maður hefur aldrei séð hina, bara upp á það að gera að helstu hápunktarnir ættu að vekja einhvers konar lágmarks sjokk-áhrif. Þeir sem vaða í þessa án þess að hafa horft á hina eru að svíkja sér frá sturlað sterku glápi og svo þegar maður hefur séð hana er nákvæmlega ekkert við þessa að gera.

Má vera að myndin sé reyndar fáránlega vel skotin, stílísk yfir heildina (digga einna helst hvað hún er dökk en samt litrík) og Elizabeth Olsen er ferlega góð í henni. Margt annað gefur til kynna dúndurflotta mynd þarna einhvers staðar, sem nær bara ekki að skila sér.

oldboy06Josh Brolin er oft þrusugóður og hann passar svosem ekkert illa í titil(?)hlutverkið en eitthvað virkar hann þurr og ósannfærandi, eins og Lee hafi óvart notað kolvitlausu tökurnar með honum. Einhver er þarna vottur af ofleik en í þeirri deild er oft varla sjón að sjá þarna Sharlto Copley. Vanalega er þessi maður ótrúlega skemmtilegur og duglegur að stela senum, en klikkar svakalega hérna. Bæði er eins og hann sé staddur í kolvitlausri mynd – í réttum karakter – og nær hans ofleikur að soga með krafti þann sjúka alvarleika sem Lee sækist eftir, og ætti að tilheyra sögunni. Eins og ég nefndi er Olsen ábyggilega best á skjánum en sambandið á milli hennar og Brolin hefur hvorki púls né hjartslátt, kemistrían sömuleiðis týnd. Samuel L. Jackson og Michael Imperioli hafa eitthvað smávegis til að bæta við, en sleppa sem lítið meira en ásættanlegir kaupaukar.

Lee á samt engan veginn að gjalda einn fyrir öll óreiðumistökin öll í ljósi þess að myndin sem hann gekk upphaflega frá var meira en klukkutíma lengri heldur en lokaklippið (sem er rétt svo korteri styttra en originalinn, og kemur oft út eins og það sé að flýta sér á milli tengipunktana). Eins og gengur og gerist voru það vondu framleiðendurnir sem heimtuðu að skera myndina niður í mauk. Kannski eyðilögðu þeir mynd sem var þegar óviðbjargandi eða kannski var einhver fersk sýn þarna frá leikstjóranum sem hefði fært heildina miklu lengra frá því að vera ólukkulegt afrit. Persónusköpunin er gölluð sem sundurskorin, en Brolin hefur líka sjálfur sagt opinberlega hvor útgáfan er umhugsunarlaust betri. Ég ætla að treysta honum, en ég mun ekki halda niðri í mér andanum vonandi að sú lengri verði nokkurn tímann gefin út.

oldboyremake3Eins og ég segi, flétturnar virka ef viðkomandi hefur ekki horft á hina myndina en það er lítil ástæða til þess að sækjast ekki frekar í kóreska díaloginn ef málið er að fá það besta úr hráefninu sem er í boði á fínni filmu. Oldboy ’13 fær prik fyrir að reyna að ganga alla leið enda myndu flestir framleiðendur milda efnið helmingi meira en ljótleikinn er gagnslaus ef hann vekur upp hinn heilaga kjánahroll við og við. Bara ef forvitnin fyrir hrörnandi sóun á hæfileikaríku fólki er í fyrirrúmi er einfaldlega besta hugarfarið til að horfa á þessa mynd með. Hún er fjandi gott dæmi um endurgerð sem svertir ekki endilega nafn forvera síns heldur gerir hann miskunnarlaust betri á meðan hún rennur.

fjarki

Besta senan:
Á ganginum: Redux.

Versta senan:
(spoiler – dragið yfir)
Baksaga Copley. Þegar krakkinn setur upp „jei, pabbi-ætlar-að-misnota-mig“ svipinn hrynur allt meinta múdið úr ÖLLU.

Sammála/ósammála?