Godzilla (2014)

Mikið var! Í fyrsta sinn í marga áratugi fær Godzilla að urra, traðka og sveifla sínum epíska skrokki eins og hann á að gera og hefur heldur ekki nokkurn tímann verið séður áður hærri á hvíta tjaldinu. Loksins er líka hægt að kynna nýjum kynslóðum fyrir japanska skrímslakónginn og fá þá kannski fleiri vestanhafs meiri tilfinningu fyrir því hvers vegna hann er svona dýrkaður.

Þegar Roland Emmerich reyndi að endurlífga skepnuna með Hollywood-peningum fyrir 16 árum síðan tókst honum samstundis að slátra henni með sandpappírsþunnum leiðindum, og vakti um leið spurningu aðdáenda um hvort sá maður hefði nokkurn tímann horft á Godzilla-mynd. Gareth Edwards, upprennandi skrímslasérfræðingur, þurfti lítið að læra af mistökum Emmerichs, því hann veit alveg hvað hann er að gera, virðir upprunann með sóma, klassískar hefðir og kann að forgangsraða mannlega elementinu með allri eyðileggingunni.

Ekki er erfitt að sjá hvers vegna þessi maður hefur verið fenginn í svona verk miðað við þá fersku og karakterdrifnu nálgun sem fylgdi hræódýru frumraun hans, Monsters frá 2010 (stórfín mynd líka). Hún nýtti góðs úr leikurum sínum, atmóinu og uppbyggingunni. Svoleiðis hlutir skipta öllu máli í nútíma-en-þó-gamaldags Godzilla mynd. Emmerich var farinn að sleppa sínu dýri snemma og kasta út alls konar hasar en Edwards notar Jaws-regluna góðu (aðalkarakterinn heitir m.a.s. Brody!) og byggir hægt og rólega upp réttu afhjúpunina, þó það þýði ekkert að sé ekki nóg um að vera þangað til.

Eins og gildir með 90% allra reboot-mynda er auðvelt að tengja þetta tiltekna eintak við trendí, múdí Chris Nolan-tóninn en Edwards módelar sig annars vegar stíft eftir gömlu góðu japönsku frummyndinni frá ’54. Vissulega var hún þessi standard, yfirdrifna skrímslamynd en tók sig, efnið sitt og þemun mjög alvarlega (og hræddi vissulega lífið úr japönum fyrst hún var gerð svo stuttu eftir allt kjarnorkuhelvítið sem gekk á hjá þeim), með því að pakka skilaboðum með og nota 50 metra háa eðlu sem hálfgerða metafóru um geislavirkni og misnotkun á kjarnorkuvopnum. Frummyndin eldist ekkert stórfenglega en sem barn síns tíma kom út ótrúlega vel út og kunni að nota brögð sín sparlega.

GodzillaAttackBlockbuster-myndir nú til dags eru orðnar hlynntari því að henda sér af öllu alefli framan í mann þegar kemur að brellusýningum en þessi heldur prýðisgóðu skriði og byggir sig stöðugt hærra upp. Persónusköpunin ristir ekkert sérlega djúpt og eftir fyrsta þriðjunginn nær myndin aldrei þeim tilfinningahæðum sem hún gerir asskoti vel í uppstillingunni. Myndin er svolítið holótt og hefði verulega getað bætt aðeins meiru á sig, en sem stór og mikil „hamfaramynd“ með ávísun að stórskemmdum og skepnuhasar er einstaklega erfitt að kvarta (þó maður geri það samt) yfir að hún skili ekki sínu. Og ef maður er farinn að iða í sætinu eftir meiru kemur lokakaflinn og þrammar með öllu sem má búast við úr svona mynd. HALO-stökkið er einnig ruglað svalt, og þarf nokkuð að minnast á geislavirka, eldspúandi hæfileikann sem hr. Gojira er vanalega þekktur fyrir?

Edwards heldur samt alltaf athyglinni á fólkinu, og sýnir stærri, magnandi geðveikina oftast frá sjónarhorni þess. Þetta gefur myndinni raunverulegri, eða í versta falli, trúverðugri áferð þar sem alltaf er gætt þess að maður fái tilfinningu fyrir stærðinni. Það furðulega er samt að á meðan persónurnar eru sum staðar ofsalega vannærðar líður manni einnig eins og það vanti aðeins meira frá titilhöfðingjanum. Skjátími hans er svo sparsamur að liggur við að hann sé meira í heimsókn í sinni eigin bíómynd heldur en aðalnúmerið. Effektinn virkar svosem, nærvera hans finnst alltaf. Einhverjar aukamínútur hefðu kannski svalað réttu þörfinni betur, en ég býst við að það sé alltaf aðeins betra að skilja við svona mynd hungrandi í meira frekar en að yfirgefa of sprunginn. Þú veist annars að þú ert með góða Zillu-mynd í höndunum þegar kvikindið (nú orðið 150 metra hátt!) hverfur ekki beint í skuggann á Bryan Cranston.

Brellurnar eru tilkomumiklar og allar skepnur unnar með væntumþykju fyrir því að skapa áþreifanlegar fígúrur í stað þess að einblína á sprengingar og rústir. Séð er fyrir smáatriðum og gæti varla betur sést hversu langt fyrirbærið hefur komið síðan leikarar réðust á hvorn annan í þungum skrímslabúningum. Edwards hefur fullan skilning á stærð, áferð, hreyfingu og sýnir aldrei meira en hann kemst upp með. Tónlist Alexandre Desplat grípur líka réttu taugarnar og flýtur andrúmsloftið skuggalega vel á henni sem og stílnum, m.a.s. dúndursterkri hljóðvinnslu. En… hefði leikaragrúppan ekki verið svona fín væri ábyggilega eitthvað erfiðara að þrauka í gegnum allt nema seinasta hálftímann. Myndin er þegar svo köld, grunn og… tja… húmorslaus – án þess að þurfi endilega að setja út á einmitt það – að heppilega valin andlit hjálpa helling.

Cranston er frábær þann litla tíma sem hann fær. Það er hans hlutverk að koma áhorfandanum inn í söguna og fletta ofan af mannlega kjarnanum og tekst það glæsilega (einnig með hjálp frá Juliette Binoche). Frekar leitt að hans hlutverk gat ekki verið stærra. Aaron Taylor-Johnson (sem kaldhæðnislega klæddist bol í Kick-Ass 2 þar sem stóð á „I Hate Reboots“) er annars vegar góður en ekkert sérlega spennandi gaur þegar hann eignar sér stóran hluta af miðbiki og afgangi myndarinnar. Elizabeth Olsen hleypir út sannfærandi panikk-tilfinningum en fær svakalega lítið til að gera, varla eiginlega neitt. David Strathairn og Sally Hawkins síast ágætlega á sinn stað, þótt hún standi bara um og gerir ekkert, og Ken Watanabe þykir mér aldrei nokkurn tímann leiðinlegur. Heldur gat ekki fundist betri maður í að stafa reglulega út upplýsingum, eins með skilabðunum að fokka ekki í náttúruöflunum.

Augljóslega hefur engin Godzilla-mynd lúkkað eða hljómað betur. Ég hef engan áhuga að bölva endurræsingum þegar þær leiðrétta það sem féll í sundur áður fyrr. Ég kann að meta þolinmæðina sem hún sýnir án þess að fórna öllu fjöri fyrir drama og gefur að engu leyti skít í tilheyrandi „vó“ faktorinn. En eins flöt og myndin getur orðið er hrikalega gaman að sjá aftur títanísk skrímsli stangast á, og fagna því smá.

thessi

PS.
Burt með 3D útgáfuna!

Besta senan:
Eitt af opnunaratriðunum (takk, Bry!) ef ekki hitaði megaslagurinn.

Sammála/ósammála?