Edge of Tomorrow

Það segir sig hér um bil sjálft að Edge of Tomorrow er tilvalin popp-og-kók afþreying fyrir hörðustu Tom Cruise stuðningsmenn (enda trúi ég því að allir sem einhvern veginn náðu að taka hann í sátt sem Jack Reacher séu galopnir fyrir hverju sem er). En mikilvægara er að hún er ekkert síður kjörin fyrir þessa helstu af þeim sem þola hann ekki. Bæði er það vegna þess að hann hefur ekki verið í svona góðum gír í áraraðir og því áhorfandinn fær fullt leyfi til þess að hlæja að því að sjá hann margdrepast á skjánum.

Cruise má alltaf eiga það, sama hversu furðulegur hann er í prívatlífinu og þó svo að myndirnar séu alls ekkert allar frábærar, og hann ekkert endilega sá rétti í öll hlutverkin, þá gefur hann sig alltaf 100% í vinnu sína – eins og alvöru bíóstjarna á að gera. Núna undanfarið hefur hann fundið sér tímabundið æði fyrir tvennu: að deila skjánum með hæfileikaríkri breskri píu (hvort sem hún heitir Rosamund Pike, Andrea Riseborough eða Emily Blunt) og bjarga jörðinni í vísindaskáldsögum sem sækja aðeins of sterkt í þekktar, eldri fyrirmyndir.

Edge of Tomorrow er, kannski sem betur fer, allt annað og miklu hávaðsamara dýr heldur en Oblivion, stelur ekki alveg frá eins miklu en þó mörgu. Grunnurinn kemur frá japanskri sögu að nafni All You Need is Kill (titill sem alls ekki má gleyma að hafi upphaflega átt að fylgja myndinni) en frá kvikmyndasögulegu sjónarhorni er ferlega margt „inspírað“ af t.d. Matrix, Starship Troopers, Aliens og fleira sem hringsólast í kringum Groundhog Day formúluna. Þessi gengur m.a.s. miklu lengra með að fylgja henni heldur en mætti nokkurn daginn segja um Source Code, en það er að vísu vegna þess að hún bjó til rými fyrir eigin hugmyndir.

Edge of Tomorrow er enn ein myndin sem virkar eins og prýðileg aðlögun á nokkuð svölum tölvuleik sem er í rauninni ekki til. Cruise leikur að þessu sinni hermanninn William Cage (talandi um ekta hasarhetjunafn) sem, í gegnum hentugt óhapp, finnur sig í þeirri rútínu að lenda alltaf aftur á sama byrjunarreitnum í tíma í hvert skipti sem hann drepst. Mannkynið stendur í miðjum hápunkti stríðs við ljótar geimverur og gefur það gott tækifæri fyrir manninn að þróast úr reynslulitlum gúmmíkarli í grjótharða hetju hægt og rólega; m.ö.o. leiða endurtekningar til endurbóta, eins og myndin tyggur ofan í okkur en gerir engu að síður margt hresst og hressandi með þessari hugmynd.

Tímaflakkið er skemmtilega notað en, eins og flestar svona myndir, skilur sig eftir miklu fleiri spurningar heldur en hún nær að svara. Þegar þú ert með svona lúppu-concept veltur öll framvinda á svörunum sem plottið gefur frá sér á endanum. Myndin endurtekur sig auðvitað stöðugt, viljandi, en leikstjórinn Doug Liman á hrós skilið fyrir dúndurhraða keyrslu sem passar að þreytumerkin séu sem minnst áberandi. En reyndar er það líka að miklu leyti Krúsaranum að þakka, og öðrum leikurum sem þó lítið næst að gera úr. Emily Blunt er gædd líflegum persónuleika en þrátt fyrir ágætar tilraunir og kemistríu verður hún að litlu öðru en bara plott-peði, og eins má segja með annars góðar innkomur frá Bill Paxton, Brendan Gleason og Noah Taylor. Þeir hefðu allir mátt gera meira.

Liman er prýðisgóður leikstjóri þegar kemur að tæknilegum atriðum eða hasar (þótt Swingers og Go verða kannski alltaf bestu myndirnar hans) en voða gefinn fyrir að næla sér í rútínubundnu handritin. Chris McQuarrie (Valkyrie, Jack Reacher) og Butterworth-bræður (?) sjá ágætlega um að nóg sé um að vera í handritinu en sagan er öll þakin svo ruglað stórum götum og hangir hún misvel saman fyrir vikið. Það dregur svosem lítið úr afþreyingargildinu – að vísu þangað til hún byrjar að dala í lokaþriðjungnum og drullar svo merkilega á sig í lokin.

Öll hugmynd myndarinnar er byggð á svo mikilli svindl-lógík í sögunni þar sem allt plottið byggist á heppilegum galla hjá geimverunum. Myndin virðist gera sér grein fyrir því hversu yndislega aulaleg hún getur stundum orðið en þá verður bara enn erfiðara að taka hana alvarlega þegar plottið krefst þess. Í besta falli finnst mér eins og megi hrósa þessari mynd sem helfínni sci-fi gamanmynd frekar en einhverju sem á alvöru erindi í geirann. Það er allavega meira gildi í húmornum sem hún hefur fyrir sjálfri sér heldur en spennu- og dramafaktornum.

Brellurnar eru annars þrusuflottar og bestar í bardagaatriðunum á ströndinni, þar sem Liman nær m.a.s. að vekja upp ákveðinn ‘D-dags’ fiðring í kaótíkinni. Geimveruhönnunin er líka nokkuð kúl og nett ógnandi en kvikindin koma sjaldan út eins og annað en andsettir sentinel’ar úr Matrix… á spítti.

Myndin er skemmtileg en ekkert sérlega spennandi. Klisjurnar eru jafnmargar og handritið telur sig snúa út úr. Það er einnig svolítið eins og það geti ekki alveg ákveðið sig hvort það vilji vera með starfandi heila eða ganga alfarið í heilalausu áttina. Niðurstaðan er kannski svolítil blanda af hvoru tveggja. Ferskleikinn er ekki nægilega frískur til að yfirstíga rútínurnar en rennslið, brellurnar og fjörið sér um það í staðinn. Hún stígur í rétta átt, en bara fúlt að sporin náðu ekki alveg alla leið.

fin

Besta senan:
Fyndnasta Cruise-öskur veraldar.

Sammála/ósammála?