A Million Ways to Die in the West

Ég myndi hallast töluvert nær því að kalla mig Seth MacFarlane aðdáanda heldur en að tilheyra hinni hliðinni, en jafnvel hans hörðustu fylgjendur hafa viðurkenna að hann á ekki alltaf sína bestu daga.

Fyrir utan það að vera maður margra radda og hæfileika, hress að auki, viðkunnanlegur og með andlit sem gerir flest alla jafnaldra hans ferlega öfundsjúka, getur oft verið erfitt að fylgjast með linu bröndurum hans freta út algjöru púðri, og ímynduðum krybbuhljóðum. Hann veit stundum ekki alveg hvar á að hætta eða hvert skal stefna og ef hann ætlar að halda sig við það að gerast gamanleikari er margt sem þarf að laga, eða allt.

Stórvinsældirnar sem hann öðlaðist með Ted, fyrsta leikstjórastökkinu sínu í læv-aksjón kvikmyndagerð, gætu þær hafa trekkt aðeins upp hégómann og viljann til að sleppa sér aðeins of mikið, en oft á vitlausum stöðum með öðru þrepinu sínu. Það má reyna að horfa framhjá því að A Million Ways to Die in the West rýkur af svolitlu egótrippi (líta þarf ekki lengra en á gamla, „klassíska“ kreditlistann, og hvað MacFarlane er titlaður oft) en áhuginn til að kæta sem flesta virðist vera alveg í botni. Grínarinn gerir tilraun til þess að finna sinn innri Mel Brooks (kannski smá Zucker líka?) og byggir alla grunnhugmyndina á því að gagnrýna sjálfur villta vestrið frá nútímalegu sjónarhorni. Fyndna er að MacFarlane fattar ekki alltaf hvenær hann er staddur í virðingarvotti, klisjusúpu eða hreint og beint úreltum húmor.

a-million-ways-to-die-in-the-west-4

Myndin er of löng, keyrð á endurtekningum og vissum rembingi, til dæmis með smekkleysu sem er meira bara þarna til að sýna sig frekar en að gera eitthvað hugmyndaríkara. MacFarlane kemur með poof-mynd sem sýnir kemistríu aðalleikaranna mikla athygli, eins og persónurnar eigi að skipta máli. Þær gera það samt ekki vegna þess að plott-platan sem gæinn notar undir góðan grunn er ábyggilega svipað gömul og vestrageirinn eins og hann leggur sig. Seth reynir að hægja aðeins á brandarakastinu af og til, og gerir það alls ekkert illa, en það drepur aðeins úr gamaninu þegar a) Seth er svo ósannfærandi í öllu sem reynir á hina minnstu leikgetu, og b) hægt er að tímasetja klisjurnar og spá nákvæmlega allri atburðarás, og lítið er þá eftir en að vonast til að brandararnir nái betra og samfelldara flugi með tímanum, sem gerist ekki.

Við höfum öll séð söguna um kjarkalausa, elskulega lúðann sem er dömpað af kærustu sinni og bondar síðan sterkt við aðra skvísu í miðjum prósess að vinna hjarta fyrrverandi aftur. Einhvern veginn, miðað við framleiðslugildið, satíruna, leikhópinn og sífellda „teiknimyndahúmorinn“ mætti búast við meiri orku úr mynd eins og þessari en MacFarlane getur ómögulega afsakað letina sem fylgir því hvernig hann rúllar gríninu saman. Í Ted náði hann rétt svo að yfirstíga flötu formúlurnar en sú mynd stórgræddi líka augljóslega á einhverju sem þessi hefur ekki, ekki endilega bangsanum, heldur Mark Wahlberg.

Ekki er með neinu móti leiðinlegt að fylgjast með Seth og Charlize Theron bonda og djóka saman, og ef einhver einn kemur afskaplega vel út í þessari mynd, þá er það Theron. Seth, með alla sína galla sem leikari, sérstaklega aðalleikari, tekur maður í sátt með tilliti til þess að hann er bara að leika sjálfan sig, að vísu hreinskilinn og einbeittur, virðist vera. Theron er annars ekki neitt alltaf brillerandi í gríninu sem henni er gefið en mesta útgeislunin kemur frá henni og hennar eiturharða blíðleika. Maður fær þá tilfinningu að hún hafi gert örlítið meira úr hlutverkinu heldur en það var skrifað, eins lítið og það segir.

A-Million-Ways-To-Die-in-The-West-Stills

Liam Neeson, Sarah Silverman, Giovanni Ribisi eru öll í góðum fíling en þeim er að mörgu leyti sóað. Neeson toppar ómögulega Legókallinn sinn fyrr á árinu en nýtur sín sérstaklega sem hinn últra týpíski óþokk. Hefði samt verulega mátt gera meira úr honum því hann gegnir ekki miklum tilgangi nema bara til að gefa endapunkinum í „sögunni“ einhverja hindrun. Hin tvö hætta að vera fyndin eftir nokkrar mínútur, eða réttar sagt, þessi eini djókur sem þau fá til að hnoða gagnslaus aukaatriði úr. Amanda Seyfried gerir ekkert nema að sýna stóru manga-augun sín, á eigin kosnað, en Neil Patrick Harris fannst mér góður þangað til hann leggur undir sig mjög píndan klósettbrandara.

Sjokkfaktorinn er almennt voða aumur en á sínar sekúndur. Gestahlutverkin reyna líka stundum fullmikið og alfyndnasti aðilinn er sá sem lætur nákvæmlega sem minnst bera á sér. Það er einhver léttur haugur af díalog-atriðum sem eru drepfyndin (og sérlega góð nokkur sem minnast á peninga) og síðan eitt dúndurfínt söngatriði um mikilvægi mottuvaxtar. MacFarlane kemur annars einnig töluvert betur út sem leikstjóri með vægast sagt hjálpsamri aðstoð frá svakalega fínu score-i og góðum kamerumanni sem nýtir víðskjáinn eftir sígildum hefðum geirans.

Húmor er auðvitað persónubundinn og allt það blabla, en einhvers staðar hvílir sprellifandi eins og hálfs tíma mynd í A Million Ways to Die in the West. Hún væri alveg jafn fyrirsjáanleg en hnitmiðaðri og fyrir mitt leyti með styttra bil á milli sprettana sem virka. Það er hennar draumur að vera Blazing Saddles sinnar kynslóðar en MacFarlane dettur í of barnalega einfaldar gryfjur til þess að komast nálægt þeim fjallahæðum.

fimm

Besta senan:
‘Stash-söngurinn.

Sammála/ósammála?