Maleficent

Ansi þykir mér nú það vera djörf dýfa hjá Disney að ætlast til að ein gullna klassíkin þeirra verði óbeint þurrkuð út, frásagnarlega séð, og viðurkenna að þeirra saga um Þyrnirós eins og við höfum þekkt hana í áratugaraðir er mestöll ein stór lygi. Kemur þá hér „rétta“ útgáfan af því hvernig allt fór.

En áhætta framleiðslunnar nær aftur á móti ekki mikið lengra en að mýkja eitt þekktasta og eftirminnilegasta illkvendið frá kompaníinu alveg umtalsvert. Á móti rís titilfígúran upp úr því að vera einsleitt illskuílát og er að minnsta kosti gerð meiri tilraun til þess að gefa henni breiðari og sympatískari persónusköpun. Það væri auðvitað í meira en góðu lagi ef efniviðurinn hefði sýnt klærnar sínar meira í staðinn.

Í myndinni Maleficent er eitthvað um fullorðinslega undirtóna, m.a.s. þemaglefsur af einhverju töluvert dekkra en oft fylgir með svona myndum, en það þrælfína sem hún hefur í boði þyngist niður á þessum ójöfnu efnistökum. Og vegna þess að þetta er leikin, íburðarmikil Disney-ævintýramynd er nokkuð sjálfsagður hlutur að hún líti ósköp vel út, en allt álfaduftið getur bara gert ákveðið mikið til þess að gleðja augun á meðan maður rembist við það að húkka sig almennilega við söguna.

MTsVIWpVandinn við myndina er ekki beinlínis sá að þetta eru allt fínar umbúðir með litlu innihaldi, heldur bara mjög óskipulögðu og tónalega rugluðu. Hún réttir út höndina eins og hún sé í leit að því að taka stóra áhættu og snúa formúlum sínum á koll en leynigaldurinn er sá að eftir prýðisgóðan opnunarhálftíma verður alltaf meira og meira ljóst hversu flöt, fyrirsjáanleg og áhættulaus mynd þetta er. Það er með því neikvæðasta sem hægt er að segja um mynd sem reynir að vera eitthvað bitastæðara en hefur ekki þorið til þess. Niðurstaðan kemur þess vegna út eins og færibandsformúla sem dettur stöku sinnum út af sporinu og breytist í eitthvað athyglisverðara.

Eins óspennandi og myndin endar á því að vera er hugmyndin það alls ekki, þ.e.a.s. að breyta sjónarhorninu frá Þyrnirós  og gefa norninni Maleficent meiri persónudýpt og skilning. Þetta gengur upp fyrst og stefnir þetta allt í ótrúlega jákvæðan og krúttlegan boðskap (sem Frozen gerði reyndar nýlega töluvert betri skil) en tilfinningatengsl eru máttlaus þó allir geri sitt besta.

maleficent536acd2317678Angelina Jolie er hér um bil fædd í hlutverk Maleficent. Hún hefur ekki aðeins rétta útlitið og röddina heldur en leikur hún sér í skugganum með bestu lyst. Hennar frammistaða og nærvera á betri mynd skilið og þegar hún hverfur í illskuna er aldrei skemmtilegra að fylgjast með henni og hversu sterkt hún nýtur sín. Vandinn er bara að hennar djöfullega hlið kemur í sparsömu stykkjatali í ljósi þess að fókusinn að breyta henni í „hetjuna“ dregur rosalegan kraft úr því sem gat orðið.

Elle Fanning fær að brosa nóg og lýsa upp skjáinn í túlkun sinni sem Þyrnirós en þessi bræðandi sjarmi sem henni á að fylgja er hvergi fundinn. Sharlto Copley virðist líka vera svolítið út á þekju sem Stefan konungur, enn einu sinni að leika eins og hann eigi betur heima í annarri mynd. Immelda Staunton, Juno Temple og Lesley Manville eru mátulega litríkar og í vissu stuði sem álfadísirnar þrjár en býsna óþolandi og að mínu mati skín mesta grimmdin í sögunni í gegnum það hversu viðurstyggilega vanhæfar þær eru í barnauppeldi. Kemur mér samt á óvart að tekist hefur að gera konunginn að enn meiri skíthæl hér en í teiknimyndinni (sem ég var aldrei sérstaklega hrifinn af), nema meira viljandi gert núna.

MALEFICENTLeikstjórinn Robert Stromberg, sem á þegar tvær Óskarsstyttur fyrir listrænu hönnunina á Avatar og (því miður) Alice in Wonderland, opnar fantasíuauga sitt eins og hann getur og útlitslega er hann nokkuð tilvalinn í þetta verk. Fyrir utan furðulega ræfilslegar tölvubrellur sem birtast af og til virðist maðurinn fara létt með það að blása lífinu í ævintýraheiminn, sem er umlukinn af þessum heillandi Disney-ævintýraanda, fyrir utan það að vera á tíðum jafngervilegur og hann er grípandi. Maleficent virkar heldur ekki nógu vel á mann eins og mynd sem hefur verið meðhöndluð af einbeittum leikstjóra og finnur maður þess vegna framleiðendaþefinn eitthvað, helst fullmikið.

Maleficent er of köld, tætt og stöðluð til þess að vera nógu hlý. Að sama skapi líka of hlý og oftast einum of barnaleg til þess að glíma við þessa dekkri, þroskuðu þætti sem þegar leyfa henni að skara aðeins fram úr í öðru en framleiðslugildi og þeirri staðfestingu að Jolie getur enn svo sannarlega lifað sig inn í réttu hlutverkin.

fimmBesta senan:
Spoiler (dragið yfir)
Að „skera vængin af álfi“ er í rauninni bara Disney-lingó fyrir kynferðislega misnotkun í þessari mynd. Copely og Jolie selja manni eitthvað virkilega hroðalegt þarna, á þessum mælikvarða. Flottur kafli, hefði verið áhugavert ef fleiri hefðu tekið svona áhættu.

Sammála/ósammála?