Transformers: Age of Extinction

Til þess að geta lært að meta Michael Bay þarf maður að taka á móti honum eins og hann er, reyna svo eftir bestu getu að hafa bara eins gaman af því og heilasellurnar leyfa… nema þegar það er ekki hægt.

Öllu má nú ofgera og að því gefnu að hér er um að ræða leikstjóra sem hefur gert það að persónulegu trademarki að ofgera hluti er ekkert skrýtið að, í of trylltum skömmtum, sé hægt að fá fljótt ógeð af manninum þegar hann verður svona herfilega týndur. Aldrei hefði mig þó grunað fyrirfram að Shia-laus Transformers-mynd yrði hingað til sú leiðinlegasta í röðinni.

optimÞað hefur vissulega alltaf verið vinsælt, ekki síst hjá kvikmyndanjörðum, að hata Transformers en ég kem sjálfur að þessari mynd í mjög skringilegri stöðu vegna þess að þessi fjórða er sú fyrsta sem gaf mér langvarandi og móðgandi óbragð. Megi svo öll almætti hjálpa þeim sem prófa að gefa þessari séns ef hinar þrjár voru alls ekki þeim að skapi, því 165 mínútna tímaramminn sem hleðst í þessa tel ég vera nógu refsandi fyrir helstu aðdáendur seríunnar. Hávaðinn og öskrin missa eðlilega allt „kúlið“ sitt því daufari sem rassinn og kollurinn verður hægt og rólega.

Hinum þremur myndunum hef ég verið pínu krakkalega veikur fyrir, m.a.s. hinni veraldlega hötuðu Revenge of the Fallen. Númer þrjú finnst mér vanmetin og mergjuð en allar nógu heiladauðar og skemmtilegar til skiptis, sama þótt ég mundi ekki eigið nafn á meðan þeim stóð. En að þessu sinni er Bay alltof tómur og uppfullur af sjálfum sér, meira svo en vanalega til að flytja á sínu sölufæribandi nokkuð annað en lemjandi leiðindi með Age of Extinction, mynd sem er hálfgerð staðalímynd rándýru, metnaðarfullu letinnar. Nóg um blóð, svita og tár, en allt bundið við rútínur. Sjálfsagt eðlilegir fylgihlutir þess þegar hæfur, sprengju- og peningaóður leikstjóri er orðinn verri í því en áður að herma eftir sjálfum sér.

Transformers-4-Autobot-CarsÞað helsta sem Bay hefur hemlað sig á með er tilhneigingin til að sleikja upp bandaríska herinn og monta sig með dótinu þeirra, en flaggið mætir í staðinn eins og gerist að heilli aukapersónu. Annars, með þrjár megastórar Transformers-myndir að baki er ekki óeðlilegt að gera sér þær væntingar að Mikki slíti sig aðeins meira frá þessu fasta formi, eins mikið og það er að biðja um.

Ætlunin hjá honum er að leiðrétta ýmis gömul mistök (öh…?) og ræsa þessu mjúklega í gang upp á nýtt, og það skilar sér að mestu í aðeins slípaðri og skrípalegri útlitshönnun á róbotunum. Það gengur svosem, og Optimus Prime blæs enn út úr sér einhverjum svölu straumum með hjálp frá rödd Peters Cullen, nú særðari og reiðari en nokkru sinni fyrr. En helsti ókosturinn varðar þá óskynsamlegu ákvörðun að reyna að auka „mannlega“ fókusinn enn og aftur, margfalt meira, eins virðuleg og tilraunin er til að styrkja svokölluðu sálarböndin milli mannana og vélana. Þar að auki, miðað við stærðargráðu heimsendargeðveikinnar úr seinustu mynd er þessi nú bara frekar lágstemmd og flöt í samanburði, þó flugeldarnir séu vissulega enn óteljandi.

Má alveg segja að í lokin sé lofað því að serían ætli sér í klikkaðri og frá minni hlið meira spennandi áttir með næsta framhaldi, en fyrir utan alla þessa standard Bay-galla sem fylgja (hræðilegt handrit, illa skipulagða sögu, kvenfyrirlitningu o.s.frv.) lýður þessi tiltekni kafli fyrir það að bjóða ekki upp á neitt sem hinar þrjár gerðu ekki. Gerir það heldur gagnslausa viðbót enn tilgangslausari. Ég fann ekki eina senu sem toppaði á einhvern máta betri punktana í hinum myndunum, sem eru víst þónokkrir. Risaeðluviðbótin er í besta falli heimskulega töff í nokkrar mínútur, vannýtist hún svo í hel, en þurfti töluvert meira en þrammandi, eldspúandi véleðlur til að bjarga áhuga mínum á þeim tímapunkti.

Það er gefið að svona mynd sé gerð til að selja leikföng… en ekki 5,000 aðra aukahluti sem rata ógeðfellt inn í atriði og ramma óboðin. „Földu“ vörukynningarnar hjá Bay hafa ekki verið svona miskunarlausar síðan hann sló mörg fjöldamet með The Island. Einnig heldur hann sig kjánalega mikið við nánast sömu formúlu- og plottbyggingu og hinar myndirnar gerðu, en bara á smærri skala og flæktari.

Leikstjórinn skiptir síðan út skrækjunum í LaBeouf fyrir feðgina/tengdarsonar-dýnamík sem er stolin beint frá Armageddon, en bara þrefalt gervilegri, og það er mikið sagt. Mark Wahlberg er vitanlega skref upp frá Buffinu en gerist fórnarlamb þess að tileinka sér heimskustu myndina í seríunni. Það er nefnilega djöfull takmarkað hversu mikið af auglýsingatroðslum, pornógrafískum low-angle skotum, slow-mo rúnki, rasískum stereótýpum og sprengjuávísunum er hægt að taka inn, á óbærilega löngum tíma ef mest allt hugmyndaflug er vanþróað eða á botninum.

Lengdin á seinustu mynd var vissulega vandamál, eins með áður – og þar áður, en ekki beinlínis aðalvandamálið. Hér fjölfaldast sá vandi þar sem innihaldinu má líkja (meira svo núna en áður) við það að vera í þriggja klukkutíma handaglímu gegn því að berjast gegn heimsku… og tapa! Jafnvel með slökktan heila gat ég ekki annað en lent á billjón spurningum. (Dæmi: Af hverju var hentugur gikkur á þessum bréfaopnara sem Mark tókst heppilega að finna og nota sem vopn í geimskipinu? og hvers vegna fær hann endalaus skot á meðan róbotar kvarta sjálfir undan skorti? Hvernig komst Prime upp með það að fela sig í kvikmyndahúsi óséður? af hverju eru allir mögulegu karakterar svona óskiljanlega heftir í hausnum??)

Ég nálgast aldrei þessar myndir því hugarfari að allur þessi peningur gæti keypt eðlileg samskipti fólks eða snyrtilega límt saman handrit, og þarf þess heldur ekki ef fjörið rokkar og efniviðurinn heldur sér í takt við merkið sem það byggist á, sama hversu gallað eða kjánalegt og það er. En Transformers: Age of Extinction reynir á mig heiftarlega sem hófstilltan stuðningsmann Bay. Miðað við þá hressilegu gírskiptingu sem hann átti í fyrra er hreinlega magnað að sjá hversu auðveldlega hann getur dottið í verstu gerðina af sér sjálfum.

transformers-4-age-of-extinction-nicola-peltzFöstu stílbrögðin koma enn asnalegri út þar sem þessi mynd tekur sig miklu meira alvarlega en hinar þrjár, dansandi við Pearl Harbor aulahrollinn. Ég myndi allavega miklu frekar þiggja John Turturro í G-streng eða umdeildu blökkubílana heldur en plastdúkkurnar sem leika kærustuparið í þessari mynd, en Nicola Peltz (nýja-nýja Megan Fox?) er þar sérlega vanhæf, pínleg og pirrandi, að öllum líkindum versta aðalleikkona sem Bay hefur valið til þessa – aftur, mikið sagt. Það er heldur engin nýjung í þessum myndum að skvísurnar séu alltaf áberandi farðaðir í glansandi klessu – sama hvernig hasarkringumstæðurnar eru – en svona hlutir versna þegar Bay og hans ólæknandi útlitsdýrkun velur kolvitlausa leikara til þess að selja manni djöfull flatt „drama“ með díalog á pari með skeinipappír eða dótaleiðbeiningum.

Wahlberg, sama hvaða línur hann þarf að tyggja, er déskoti fínn samt. Hann heldur andlitinu og hjartanu nokkuð meistaralega miðað við aðstæður, sést bara langar leiðir að hann hefur fullan áhuga á þessu, í leit að sínum innri Bruce Willis. Stanley Tucci og Kelsey Grammer bæta einhverju við, engu stórmerkilegu en flytja efnið á aðeins sterkara trúverðugleikaplan, ef svo má orða það. T.J. Miller er í þolanlegri kantinum með því að vera ekkert annað en hann sjálfur, áður en hann hverfur svo. Það eru ekki margar myndir sem þjást meira fyrir það að þennan mann vanti.

En að þeim frátöldum og sjálfsagt óaðfinnanlega tilkomumiklum vinnutíma sem hefur farið í hljóð, hönnun og brellur, þá er afgangurinn ofhlaðin söluskita, soðin með meðalgóðri teiknimynd en samstundis vörpuð með einungis flassi og litlum krafti eða ímyndunarafli. Kannski er hægt að klippa saman nettan 20 mínútna langan trailer úr þessu. En bara kannski. Hinar 140 gerðu voru allar óþarfar.

fjarki

Annars er 3D útgáfan e.t.v. skynsamari fyrir þá sem eru í bráðri neyð.


Besta senan:

Flóttinn úr geimskipinu, þangað til kom að köplunum.

Sammála/ósammála?