The Fault in Our Stars

Vanalega leggst það illa í mig að horfa á myndir sem eru sérstaklega hannaðar til þess að skrúfa frá tárkirtlunum þegar þær sýna fáu öðru metnaði en að stilla upp mjúku römmunum og reiða á smitandi snökkt leikaranna… og áhorfenda.

Ástæðan fyrir því að ég þoli þær ekki er örugglega sú að ég er ekki á meðal þeirra sem finnst rangt við það svíða aðeins mjúkt í augunum í bíói, en ég meika þó ekki það þegar bíómyndirnar hósta öllum tilfinningum ofan í mig. Stundum vill maður sjálfur komast, andlega, á áfangastaðinn, í stað þess að láta háskælandi ræmu draga þig þangað miskunnarlaust, því það er yfirleitt óþarfi þegar umfjöllunarefnið er þegar bæði fallegt og dökkt. The Fault in Our Stars minnir mig örlítið á táningahannaðri týpu af My Sister’s Keeper, sem er einnig bók gerð að mynd sem passar því miður nákvæmlega við lýsinguna. Heppilegu fréttirnar eru að hún trónir svolítið á milli þess að vera ódýr og einfölduð tárasuga og almennilega heillandi, hnyttin, þýðingarmikil og vel heppnuð ástarsaga. Hún er sitt lítið af hvoru, reyndar meira af öðru.

Tilfinningarnar selja manni frekar óeftirminnilega sögu, en þegar hún kæfir sig í sængurdramanu verða brögðin pínu ódýr og klisjulega melódramatísk, nánast fársjúk í þeirri deild. En fyrir nokkur hver skipti sem sagan svindlar sér leið sína í hjarta hinna viðkvæmu (og miðað við salinn sem ég sat í voru sumir – líklega aðdáendur bókarinnar – löngu búnir að ákveða að ætla að grenja áður en „þungu“ senurnar byrjuðu) laumast þó vissir sjarmapunktar sem ná taki. Tekst þeim það líka án þess að lítið sé gert úr málefninu, þó ég skilji alveg lúmskt að sumir dragi kannski línuna við athöfnina þegar parið fer í sleik í háaloftinu hjá Önnu Frank. Ég sá svosem ekkert að því en bystander-klappið var ofaukið.

Myndin fylgir annars bókinni sinni heldur rausnarlega, sem er oftast standard fylgihlutur þegar höfundurinn er þátttakandi í framleiðsluferlinu. Sem betur fer er The Fault in Our Stars líka eitthvað aðeins meira en bara væludrama um niðurdrepandi málefni og má finna meiri húmor í henni heldur en fylgir oft í myndum um/með krabbamein (talandi um, horfið á 50/50 ef einhver á hana eftir). Leikstjóri Fault bætir samt engu stórmerkilegu við efniviðinn og leyfir skjáparinu aðallega að sjá um sig sjálft, aukalega gengur honum að forðast of margar gryfjur þar sem allt nema fiðlur taka yfir. Í annarra manna höndum hefði myndin getað orðið baneitruð, eða með röngu pari.

Shailene Woodley hefur alls ekki verið á svona rjúkandi uppleið af ástæðulausu en meiri fjölbreytni frá henni væri ekki illa þegin miðað við hversu áberandi hún er orðin. Í Fault er hún sannfærandi en ekkert ómótstæðilega eftirminnileg, og heillaði hún mig persónulega miklu frekar í The Spectacular Now, sem fleiri þurfa að sjá. Sympatíkin kemur eðlilega fljótt en meira vantar til að halda utan um. Ansel Elgort, sem lék bróður Woodley í Divergent, er hressilega öruggur, og næmur þegar þarf (og guð, hvað það þarf). Dýpt þeirra beggja jafnar á við nokkra vasaklúta. Hún er aðeins betur lögð út, enda varla annað hægt með hana í svo sterkum fókus, hann teiknaður eins og draumur á dós, en fær maður engu að síður krúttlegar, einlægar persónur og augljóslega brjálaðar í hvora aðra. Jákvætt er að myndin gefur sér að minnsta kosti tíma til að byggja upp kemistríu þeirra meir og meir.

Sam úr True Blood er traustur og bölvað viðkunnanlegur sem pabbi Woodley og Laura Dern sannfærandi á sinn hátt, þó hún eigi að mínu mati fíflalegustu setninguna sem sögð er á þungri stundu. Satt, orðaval hefur ekki allan forgang undir þeim tilteknu kringumstæðum, en múttan gekk yfir ákveðin bjánamörk. Yfirleitt tek ég síðan vel í Willem Dafoe, og hann er skrambi fínn hér en hvað efnið sjálft varðar hefði hann aldrei átt að endast lengur en eina senu. Dafoe kemur þeirri ágætri hugsun til skila að stundum er ekki alltaf jákvætt fyrir fólk að hitta átrúnaðargoð sín en þegar hann er kallaður aftur er sagan hvort eð er orðin svo rök að lógísk söguþróun gildir ekki lengur, eða nokkurn tímann.

Kannski eru seinustu þrjátíu mínúturnar betri ef maður sér ekki allt er að gerast fyrir rennslinu og móðunni í sjóninni sökum gráturs. Mín augu voru grátlega þurr út alla myndina en ég neita því ekki að hún ýtti sum staðar í mark. Fyrir markhóp sinn er myndin nógu sykruð, sorgleg og upplífgandi og það að hún eigi lífið í sér til að smitast aðeins út fyrir hann er fínasta hrós út af fyrir sig.

fin

Besta senan:
Dafoe blæs út neikvæðnina eins og hann sé ekki enn búinn að jafna sig eftir Antichrist atvikið. Kalt.

Sammála/ósammála?