Dawn of the Planet of the Apes

Dawn of the Planet of the Apes er eðaldæmi um hvernig á að gera framhaldsmynd rétt, eins með hvað stórmyndir á sumartíma geta orðið spennandi þegar persónur og tilfinningar draga brelluhasarinn og hávaðann á eftir sér í stað þess að fara hina leiðina.

Á tímum þar sem Hollywood-myndir keppast um að henda öllu alefli í mann hvað sjónarspil og pixlamont varðar (ekkert að því samt… upp að vissu marki) er merkilegt hvernig Dawn nær að taka sénsa og líma sig við einfalda en í senn einbeitta, bítandi frásögn, byggða á litlum layerum og flottri, þolinmóðri uppbyggingu. Hún er ekkert að stressa sig á því að kæfa sig í hasarnum og sér ávallt til þess að hann komi aldrei nema innihaldið kalli eftir honum, og þegar kemur að slíkum mómentum er aldrei leyft þessum persónu- eða þemafókus að hverfa.

Myndin er grípandi vegna þess að sagan vekur mann lúmskt til umhugsunar og festir sínar tennur við dýrslegu og mannlegu þættina. Meira að segja, ef út í það er farið, er miklu betur séð um tenginguna á milli dýrsins í manninum og manninum í skepnunni heldur en það sem Hross í oss ætlaði sér nokkurn tímann að gera. Deilurnar eru höndlaðar með sannfærandi, náttúrulegum krafti, mótiveringar ekkert síður og undirliggjandi spennan sýður frá upphafi til enda og trekkir jafnóðum. En umfram allt, þó svo að aldrei hefur að mínu mati verið gerð flottari og öflugri Apaplánetumynd frá upphafi, er þetta bara virkilega, virkilega vönduð, hugrökk, sorgleg og mátulega grimm sci-fi dramamynd, snilldarlega dulbúin sem poppkornsbíó. Hugrakkt og hugrænt apaspil.

Fyrri myndin í þessari endur-endurræsingu, þ.e.a.s. Rise of the Planet of the Apes, náði aldrei neinum brjáluðum hæðum hjá mér, og myndi ég hamingjusamlega kalla hana afar ofmetna ef hún þjónaði ekki í dag þeim tilgangi að vera glæsilegur grunnur (eða „trailer“ jafnvel) fyrir Dawn, sem kemur betur út á allan veg. Ástæðan varðar það að nú er kominn faglegri, stílhreinni leikstjóri um borð og gerir það útkomuna töluvert bitastæðari. Alveg er það óskylt Andy Serkis, sem tileinkar sér báðar myndirnar betur og með meiri tilfinningaþunga en flest önnur hlutverk sem hann hefur tæklað, hvort sem hann er klæddur Motion-Capture búningi eður ei.

Frammistaða Serkis er sér í lagi ógleymanleg og magnast hún enn meira hér. Ofursimpansinn Caesar hlýtur að vera einhver magnaðasta sköpun hans og margra, margra fagmanna á brellusviði sínu. Aðrir leikarar eru ekkert síðri, eins hvort þeir séu í gólandi apafíling eða í hlutverki brotinna manneskja sem þrá tenginguna við betra lífið sem áður var.

Dýpt mennskra persóna er ekkert gríðarleg, en áhorfandinn fær að vita allt sem þarf og verð ég að dást aðeins að því hvernig hver leikari og karakter fær tækifæri til þess að segja mjög mikið með óskaplega litlu, með oft fáum orðum. T.a.m. kemur ein áhrifamesta senan í myndinni kemur frá Gary Oldman og flotta iPad-inum hans. Apasamfélagið eins og það leggur sig er annars vegar það sem stelur allri myndinni, eins með bítandi og dökka túlkun frá Toby Kebbell í hlutverki óstöðuga apans Koba, sem sér og þekkir ekkert nema það slæma í mannfólkinu. Að auki, það að fyrsti hálftími myndarinnar sé næstum því þögull og byggður í kringum apadíalog (með texta) er strax orðið merki um það hversu áhættugjarn og smámunasamur leikstjórinn Matt Reeves er. Hann er hinn sami og endurgerði Let the Right One In og sagði þá sögu betur en sú upprunalega gerði.

Hængurinn við alla fegurðina, spennuna og grimmdina, því eins frábær og grípandi og hún er, þá laumast alltaf þessi tilfinning að maður viti nákvæmlega – eða í það minnsta nokkurn veginn – hvert sagan stefnir og hverju þarf að stilla upp. Myndin er ekki laus við það að koma blóðinu í gang en erfitt er að hrista burt tilfinninguna að endir myndarinnar liggi í augum uppi – og hvað þarf að byggja upp fyrir það sem koma skal – áður en hann kemur. En hliðarnar sem spyrja spurningarnar „hvernig“ og „hvers vegna“ eru þær sem negla í mark og svínvirka.

Útlit, sviðsmyndir, kvikmyndataka og önnur umgjörð er ótrúleg og er vart hægt að halda vatni yfir því hversu meiriháttar vinna hefur verið lögð í svipbrigði apana, eins með loðfeld (blautan, þar að auki) og önnur smáatriði sem setja veruleikaskynið í örlitla hringekju. Hvort sem þessar brellur eldast vel seinna meir eða ekki á eftir að koma í ljós, en tölvuvinna í tengslum við lifandi skepnur og annað gerist varla meira framúrskarandi en þetta árið 2014, og sérstaklega þegar skreytingin er öll þarna til að þjóna efnistökunum fyrst og fremst.

Eins og ég segi, fyrri myndin er ekkert möst, en þessi er svo fáránlega frábær að það nær engri átt, alveg ‘eipsjit’ geðveik ef ekki besta myndin í sumar. Ef Reeves heldur áfram er engin fyrirstaða fyrir því að blasi nú við meira og dýpra líf en nokkru sinni fyrr á þessari apaplánetu.

Millimeter í níuna.

attaBesta senan:
360° slátrunin.

Sammála/ósammála?